Þá er komið að liðnum "Hvað er að frétta?" hér á Fótbolti.net en þar tökum við púlsinn hjá liðum í fyrstu, annarri og þriðju deild en á næstunni verður liðurinn á dagskrá tvisvar í viku.
Í dag kíkjum við á stemninguna hjá liði Árborgar sem leikur í 3.deildinni.
Adólf Bragason og Þórarinn Snorrason þjálfarar liðsins svöruðu nokkrum spurningum í sameiningu og afraksturinn má sjá hér að neðan.
Hvernig er stemmningin hjá Árborg þessa dagana?
Það er bara ljómandi góð stemmning enda styttist óðum í að tímabilið hefjist og að menn fái að komast á alvöru gras. Það er mikið af nýjum leikmönnum í okkar hóp og mikil tilhlökkun á meðal leikmanna, aðstandenda sem og bæjarbúa almennt fyrir sumrinu.
Hvernig er liðið uppbyggt?
Við erum búnir að spila á sama kjarnanum undanfarin sjö ár, allt leikmenn af svæðinu. Leikmenn hafa verið að koma og fara, sumir farið erlendis í nám eða þurft að taka sér frí til að sinna öðrum verkefnum. Við höfum fengið einhverja nýja leikmenn inn í liðið á hverju ári en aldrei herjað skipulega á leikmenn. Í ár varð breyting, strax janúar settu þjálfarar og stjórn saman lista af 5-6 leikmönnum sem okkur langaði að fá. Við erum búnir að semja við nánast alla af þessum lista og hópurinn okkar því næstum fullmótaður. Við eru þó samt með 2-3 jókera sem gætu dottið inn í hópinn í maí/júni og styrkt liðið mikið. Það verður bara að koma í ljós hvort þeir verða í einhverju standi til að spila. Allir þessir nýju leikmenn styrkja hópinn mikið þó svo að kjarninn er sá sami. Við munum tefla fram liði í sumar sem hefur meiri breidd og ætti að geta náð betri árangri en undanfarin ár.
Er liðið í einhverju samstarfi við Selfoss?
Undanfarin ár höfum við ekki verið í beinu samstarfi við Selfoss með leikmenn þó að 90% af okkar leikmannahóp komi uppúr yngri flokkum Selfoss. Ástæðan fyrir því að við höfum ekki verið með neina venslasamninga er sú að Selfoss hefur verið að spila í 2. deild undanfarin ár á mjög ungum leikmannahópi og þar með notað sjálfir alla sterkustu leikmennina úr 2. flokki. Þessi mikla uppbygging sem hefur átt sér stað hjá Selfoss skilaði sér loksins í fyrra þegar liðið fór upp í 1. deild. Við það varð fyrst grundvöllur fyrir nánara samstarf og bindum við Árborgarmenn miklar vonir við það enda um sterka stráka að ræða.
Hvernig hefur undirbúningstímabilinu verið háttað hjá ykkur?
Strax í janúar fórum við af stað með nýtt prógram og nýjar áherslur við að koma liðinu í form. Við erum með 8-9 leikmenn sem eru fluttir af svæðinu og búa í Reykjavík. Til að koma til móts við þá æfum við einu sinni í viku í stórglæsilegri aðstöðu í Kórnum í Kópavogi. Annars vorum við að æfa tvisvar í viku á Selfossi þegar veður leyfði. Snjórinn á Selfossi var ekkert grín í janúar og febrúar og gervigrasvöllurinn yfirleitt ófær. Í febrúar og mars spiluðum við tvo æfingaleiki á viku. Lengjubikarinn byrjaði síðan í apríl og stefnum við á að ná 20 leikjum í heildina áður en Íslandsmótið byrjar.
Ertu sáttur við árangur liðsins í æfingaleikjum og Lengjubikar?
Þetta hefur gengið svona upp og ofan hjá okkur. Í upphafi vorum við að fá allt of mikið af mörkum á okkur en við höfum verið að reyna þétta pakkann og þetta lítur miklu betur út. Við höfum ekki verið að spila neitt stórvel í Lengjubikarnum þó að við höfum unnið alla leiki okkar og teljum að við eigum mikið inni.
Hver er helsti styrkleiki ykkar?
Við erum með mjög vel spilandi lið og alltaf líklegir til að skora. Hópurinn er mjög samheldinn og menn eru tilbúnir að fórna sér fyrir samherjann. Við höfum æft rokkhlaup sem hafa hert mannskapinn og tengt leikmenn blóðböndum. Við höfum ekki neina reynslu af úrslitakeppninni en við höfum verið að fá inn leikmenn í okkar lið sem hafa verið að spila í efri deildum og það mun hjálpa okkur mikið.
Hvert er markmið liðsins í sumar?
Við settum okkur ákveðið markmið strax í janúar þegar við byrjuðum að undirbúa liðið. Við erum bæði með skammtíma markmið og langtíma markmið. Við leggjum mikið upp með að hver leikmaður hafi líka sín eigin markmið og vinni hart að því að ná þeim. Það er fullt að hlutum sem við erum að vinna í núna sem verða að ganga upp svo við getum staðist aðal markmið okkar.
Er einhver leikmaður úr ykkar liði sem þú telur að eigi eftir að springa út í sumar?
Það eru margir leikmenn í Árborgarliðinu sem eiga eftir að öðlast nýtt líf í sumar og munu njóta þess að spila fótbolta aftur. Innan okkar raða eru leikmenn sem búa yfir miklum hæfileika en hafa dalað eða aldrei virkilega sýnt hvað í þeim býr. Við keyrum okkar lið mikið á gleðinni og við munum gera það áfram. Móttóið er að njóta þess að vera í fótbolta og hafa gaman af hlutunum. Við gætum nefnt nokkur nöfn sem gætu blómstrað í sumaren við eigum samt eftir að fara þetta í sumar á sterkri liðsheild. Það er erfitt að segja til hver muni springa út að lokum, þetta er undir hverjum og einum komið en tækifærið er klárlega til staðar.
Í leik árið 2006 tefldi Árborg fram þrennum tvíburapörum í byrjunarliði. Má búast við að slíkt endurtaki sig í sumar?
Það getur vel verið - 5/6 af því gengi hefur verið að æfa vel í allan vetur og er von á týnda hlekknum í júní. Hann þarf bara að leggja sænsku rúsinubollunum í tíma svo hann komist í liðið þegar hann kemur heim. Hann mætir allavega með fílinn það er eitt sem víst er.
Hvaða lið telur þú sigurstranglegast í 3. deildinni í sumar?
Það er erfitt að segja, mörg af sterkustu liðunum fóru upp í fyrra og það varð ákveðin hreinsun. Deildin verður jafnari núna en oft áður og það eru fleiri lið sem eiga séns á að komast í úrslitakeppnina. Það er erfitt að gera sér grein fyrir styrkleika Berserkja, Ýmis, KV og KB í suðurlandsriðlunum en eitthvað af þessum liðum gæti farið í úrslit. Við spiluðum við Hamrana frá Akureyri um daginn og það var eitt það skemmtilegasta lið sem við höfum spilað við á þessu ári. Margir góðir strákar og líklegt að þeir fari í úrslitin.
Hápunktur mótsins verður þó úrslitakeppnin. Það þarf mikinn stöðuleika til að fara í langt ferðalag og ná góðum úrslitum. Það hafa mörg lið farið ósigruð í gegnum riðlana en tapað einum leik í úrslitakeppninni og klúðrað því að fara upp. Okkur Árborgarmönnum hlakkar mikið til að mæta KFS liðinu í riðlinum í sumar, þeir eru svo skemmtilega ruglaðir. Doktorinn mun þurfa að hafa sig allan við til þess að vinna okkur í ár. Við höfum háð marga baráttuleikina í gegnum tíðina við KFS liðið en oftast þurft að lúta í gras. Við vorum að vonast að við myndum spila útileikinn í Eyjum á miðvikudeginum fyrir þjóðhátíð en svo var því miður ekki. Það væri samt óskandi að þeir gætu boðið okkur upp á Hásteinsvöll, það er frábært að spila þar.
Eitthvað að lokum?
Við viljum bara þakka fótbolti.net fyrir umfjöllunina af neðri deildunum, hún er skemmtileg og mjög nauðsynleg. Eins viljum við óska mótherjum okkar í 3. deildinni góðs gengis og vonum að þetta verði skemmtilegt fóbolta sumar.
Kveðja,
Adólf Bragason og Þórarinn Snorrason, þjálfarar Árborgar.
Eldra úr liðnum hvað er að frétta?
1.deild:
KS/Leiftur(3.apríl)
Njarðvík (13.mars)
2.deild:
Hvöt (27.mars)
Tindastóll (15.apríl)
Völsungur (6.mars)
3.deild:
Berserkir (8.apríl)
Knattspyrnufélag Garðabæjar (19.mars)
Athugasemdir