Þá er komið að liðnum "Hvað er að frétta?" hér á Fótbolti.net en þar tökum við púlsinn hjá liðum í fyrstu, annarri og þriðju deild en á næstunni verður liðurinn á dagskrá tvisvar í viku.
Í dag er kíkt á stemninguna hjá Vestmannaeyjarliðinu KFS sem leikur í 3.deildinni.
Læknirinn Hjalti Kristjánsson þjálfar liðið líkt og undanfarin 17 ár og hann svaraði nokkrum spurningum. Afraksturinn má sjá hér að neðan.
Hvernig er stemmningin hjá KFS þessa dagana?
Köflótt vegna margra tapa að undanförnu, en menn eru mjög ákveðnir í að bæta það, sem hægt er að bæta og okkur líður vel saman. Hópurinn er með góða breidd í aldri og Reykjavíkur- og Vestmannaeyjadeildin okkar er að kynnast æ betur, alltaf einhverjir á hverju ári, sem þarf að kynnast!
Hvernig er liðið uppbyggt?
Að mestu uppaldir Vestmanneyingar, sem búa ýmist í Vestmannaeyjum eða Reykjavík. Nokkrir leikmenn að láni frá ÍBV, það eru yngstu leikmennirnir, allir efnilegir, síðan 2. og 3. kynslóðin hjá KFS, 1. kynslóðin er að smádraga sig út, en sést þó enn, a. m. k. á æfingum. Við æfum á þessum 2 stöðum, Trausti sonur minn stýrir starfinu í Reykjavík og Maggi Gylfa. hefur aðeins hjálpað okkur. Vestmannaeyjamegin stýri ég og í flestum leikjum, þegar vaktirnar á heilsugæslunni stoppa mig ekki. Vetraraðstaða er mjög léleg í Eyjum, erum því að mestu inni í Eyjum, en úti í Reykjavík.
Verða gömlu kempurnar Hlynur Stefánsson og Steingrímur Jóhannesson með ykkur í sumar?
Já, reikna með einum leik frá Hlyni, hann ætlar að taka einn leik með syni sínum Birki, sem er hjá okkur í láni frá ÍBV. Reikna með ca. 7 leikjum frá Steingrími, sem hefur áhugann, en ekki tímann.
Þú hefur komið sjálfur við sögu í einum leik bæði í fyrra og hitteðfyrra. Munt þú einnig taka leik í sumar með KFS?
Stefni að einnni innákomu í sumar, en það er meira til gamans, Er reyndar farinn að stefna að því að slá metið hans Gunnars í Leikni, ef ég skil þetta rétt, hann spilaði 52 ára.
Er liðið í einhverju samstarfi við ÍBV?
Já, betra en nokkru sinni, enda Heimir þjálfarinn þeirra, fyrrum fyrirliði okkar og veit manna best, hvernig hægt er að nýta slíkt samstarf í þágu allra. Hann hefur ekki enn farið fram á að spila leik í sumar með okkur, en það yrði hlustað á það, peyjarnir hans úr ÍBV hefðu þá nóg að tala um við hann á eftir!
Hvernig hefur undirbúningstímabilinu verið háttað hjá ykkur?
Æfingaleikir um nánast hverja helgi frá í febrúar á Reykjavíkursvæðinu með Deildabikarnum, einnig páskaleikur við ÍBV hér á mölinni í Eyjum. Erum fyrst núna að hlaupa, enda versta veður í Eyjum síðan ég flutti hingað 1990. Búinn að finna kjarnann fyrir sumarið, er að gera mitt besta til að bæta hann eins og hægt er fyrir Íslandsmótið.
Nú ertu að þjálfa lið KFS 17 árið í röð, er þetta alltaf jafn gaman?
Já, tel mig enn vera að bæta mig og læra nýja hluti. Í seinni tíð líka fengið æ meira út úr félagslega hlutanum. Finn enn sama fiðringinn fyrir leikina og keppnisskapið, þoli enn ekki að tapa, en sef þó betur eftir töpin en ég gerði áður. Er líka farinn að skilja betur hve mikilvægt þetta starf er fyrir ÍBV og Vestmannaeyjar, auk þess að það hefur mikla þýðingu fyrir skólastrákana okkar í Reykjavík og jafnvel dæmi um að þetta hafi haft bein búsetuáhrif á Vestmannaeyjar. Ég bjó líka til heila sambúð óbeint gegnum störf mín í fótboltanum, það var gaman! Ég er ekki heldur í vafa um það, sem talað var um í sjónvarpinu um helgina, að fótbolti geti verið meðferð við þunglyndi, í mínum hópi eru og hafa verið alkóhólistar og þunglyndir leikmenn, sem hafa náð sér á strik gegnum fótboltann, sem hefur á stundum verið þeirra eini áþreifanlegi tilgangur í
lífinu. Lok kynnist ég dellukörlum eins og mér í kringum önnur félög og samstarfið við Heimi og Óðin, formanninn í félaginu okkar, er sérstaklega gefandi fyrir mig sjálfan.
Ertu sáttur við árangur liðsins í æfingaleikjum og Lengjubikar?
Nei, ekki úrslitin og ýmislegt, en sáttur við að menn eru vaknaðir og núna að gera sitt besta til að bæta árangurinn, Tel mig hins vegar hafa lært mjög margt fyrir sumarið og vita æ betur hvernig nýta má svona leiki fyrir Íslandsmótið, úrslitin skipta kannske ekki öllu máli í þessum leikjum, þótt alltaf sé erfitt að tapa.
Hver er helsti styrkleiki ykkar?
Samheldnin og að allir eru jafnir, enginn á launum. Einnig skemmtileg breidd á aldri,bjóðum upp á leikmenn á æfingum með mikla reynslu og skemmtilegheit, Eyjamenn eru upp til hópa bráðpskemmtilegur þjóðflokkur. Inni á vellinum vil ég ekki tala um sérstakan styrkleika, við erum enn að bæta alla þætti þar, skal segja ykkur það eftir sumarið!
Hvert er markmið liðsins í sumar?
Að fara upp um deild, höfum loksins efni á því fjárhagslega. Það yrði líka gott fyrir fótboltann almennt í Vestmannaeyjum.
Er einhver leikmaður úr ykkar liði sem þú telur að eigi eftir að springa út í sumar?
Já, Einar Kristinn Kárason, Kristinn Baldursson, Egill Jóhannsson, Sveinn Ág. Þórsson, Trausti Hjaltason, Trausti Hermannsson og bræðurnir Ívar og Víðir Róbertssynir eru allir að sýna merki um það, það er í þeirra höndum, hvort það heldur áfram að þróast í rétta átt. Ég á líka von á að markmaðurinn okkar spryngi út.
Hvaða lið telur þú sigurstranglegast í 3. deildinni í sumar?
KFS, en það er líka í hugum leikmannanna, hvort það tekst, ég get ekki farið einn upp á viljanum. Leikmennirnir eru nógu sterkir til þess, en eiga enn eftir að bæta ýmis atriði, ef þeir hlusta og vilja bæta sig, munum við fara upp, það dugar mér, 1. sæti er ekki must, þótt gaman hafi verið að fá Bikarinn f. það 2002.
Eitthvað að lokum?
Vil skila þakklæti til Árborgarmanna fyrir vinsamleg ummæli í okkar og minn garð nýlega í þessum pistli ykkar nýlega, okkur finnst líka gaman að heimsækja þá, en ætlum ekkert að sleppa takinu á þeim í sumar! Vil líka þakka ykkur á fótbolti.net fyrir skemmtilega umfjöllun um neðri deildirnar, hún hefur mikla þýðingu fyrir fjöldann allan af áhugamönnum og leikmönnum í neðri deildunum, meiri en aðrir miðlar virðast átta sig á. Fannst líka frábært að sjá formann og framkvæmdastjóra KSÍ á fundi með okkur ,,smáliðunum" á Suðurlandi um helgina, þeir skilja mikilvægi grasrótarinnar betur en KSÍ hefur gert stundum síðustu 20 árin, þetta lofar góðu!
Eldra úr liðnum hvað er að frétta?
1.deild:
KS/Leiftur(3.apríl)
Njarðvík (13.mars)
2.deild:
Hvöt (27.mars)
Tindastóll (15.apríl)
Völsungur (6.mars)
3.deild:
Árborg (17.apríl)
Berserkir (8.apríl)
Knattspyrnufélag Garðabæjar (19.mars)
Athugasemdir