Þær KR-stúlkur sem voru farnar af velli gáfu áhorfendum Kit Kat þegar úrslit leiksins lágu ljós fyrir á meðan lokasekúndurnar voru leiknar.
Helena Ólafsdóttir þjálfari KR var ánægð með leikmenn sína sem burstuðu Val 4-0 í úrslitaleik Lengjubikarsins í kvöld en KR liðið var sterkara liðið á vellinum og verðskuldaði sigurinn.
,,Já mér fannst það í fyrri hálfleik og mér fannst við verðskulda að vera meira yfir. En mér fannst stelpurnar líka flottar og var mjög ánægð með þær," sagði Helena í samtali við Fótbolta.net eftir leikinn.
,,Mér fannst leikurinn í góður. Þetta eru tvö góð lið og þetta eru alltaf hörkuspennandi leikir og allt gefið í þá. Mér fannst hann mjög skemmtilegur sem er gott fyrir þá sem voru að horfa á. Það gefur vonandi góð fyrirheit fyrir það sem koma skal, þetta er rétt að byrja og verður áfram sama baráttan."
Valur er Íslandsmeistari síðasta árs og KR bikarmeistari en leikir til liðanna hafa allajafna verið nokkuð jafnir og því komu yfirburðir KR nokkuð á óvar. Helena átti ekki von á þessu.
,,Alls ekki, ég hafði náttúrulega trú á mitt lið en ég vissi alveg að ef við næðum skynsömum leik ættum við að geta valdið þeim vandræðum. Mér fannst við gera það í fyrri hálfleik. Svo sönnuðum við það í seinni en Valsstelpur deyja ekkert ráðalausar eftir þennan leik, svo heldur baráttan bara áfram."
,,Að sjálfsögðu ætlum við að vera með í baráttunni um alla titla og erum í þessu til að vinna og þetta gefur okkur bara aukið sjálfstraust fyrir það sem við erum að gera. Við erum á fínni leið núna og ég er mjög sátt við leiðina sem við erum á."
,,Það skiptir okkur máli að standa okkur vel. Það kemur alltaf ákveðin niðursveifla eftir tapleiki og ég er bara mjög sátt við að við séum að klára okkar dæmi og gera það mjög vel. Ég er ánægð með þróunina á liðinu og við ætlum bara að halda henni áfram. Svo bara byrjar mót og þá verður bara barátta allstaðar. Það má ekkert misstíga sig og það þýðir ekkert að gleyma sér í einum svona leik."
KR liðið hefur styrkt sig með Guðrúnu Sóley Gunnarsdóttur sem kom úr Breiðablik og markverðinum Maríu B. Ágústsdóttir sem tók fram skóna að nýju. Alicia Wilson er farin frá félaginu og óvíst er hvort Olga Færseth verði með liðinu, hún hefur aðeins mætt á eina æfingu og það var í síðustu viku.
,,Ég er með nánast sama hóp. Einu breytingarnar eru að Gunnu kom inn og Mæju. Á móti kemur að Olga er allavega ekki byrjuð enn og það verður bara að koma í ljós hvað hún gerir. Nú er ég að ná Fríðu inn eftir meiðsli og liðið er heilt. Það skiptir miklu máli, liðið hefur æft rosalega vel og stelpurnar eru búnar að vinna vel fyrir þessu."
Þrátt fyrir að Helena hafi verið í skýjunum með sigur sinna stúlkna var hún ósátt að einu leiti því liðin spila bæði nú þrjá leiki á fimm dögum, tvo úrslitaleiki og einn undanúrslitaleik og í kjölfar þess fara margir leikmenn liðanna með íslenska landsliðinu í æfinga og keppnisferð til Finnlands.
,,Við erum að spila þrjá leiki á fimm dögum, alveg eins og Valur. Það er rosalega mikið, ég er engan vegin sátt við þetta leikjaálag," sagði Helena. ,,Mér finnst það líka alltof mikið að landsliðsstelpur fara svo til Finnlands og spila tvo leiki. Mér finnst þetta bara alltof mikið. En við förum bara í næsta leik til að vinna hann, það er leikur um titil og við vinnum titla. "
Á mánudag mætast liðin svo að nýju í þriðja leiknum á fimm dögum en það er meistaraleikurinn svokallaði, þar sem mætast Íslands- og bikarmeistarar síðasta árs. Helena veit að ekki var auðvelt að raða saman leikjunum en vildi þó færa leikinn á mánudag.
,,Það hefði verið erfitt en ég hefði viljað spila meistaraleikinn síðar, 1. maí. Það kemur í ljós á mánudaginn hvort liðið heldur þetta út. Ég tel að liðið mitt sé í góðu formi og hef ekki áhyggjur af því en þegar maður spilar marga erfiða leiki þá situr þetta í fólki og maður er alltaf pínu smeykur."
Undanúrslitaleikirnir í keppninni fóru fram á þriðjudagskvöld, á sama tíma og undanúrslitaleikur Liverpool og Chelsea í Meistaradeild Evrópu og þá máttu leikmenn liðanna sem voru í hópi U19 ára landsliðsins ekki spila með að kröfu KSÍ þar sem hópurinn fór utan daginn eftir.
,,Við erum bara orðnar svo vanar þessu. Við erum bara látnar spila hingað og þangað og maður tekur því bara. Maður missir þá bara af einum leik. Það er ekkert öðruvísi enda er maður bara með hugann við sinn leik. Reyndar var þetta mjög þröng dagskrá og erfitt að koma þessu fyrir, ég veit það alveg, en ég tel samt að við þurfum að leita annarra leiða, þetta er alltof mikið."
Athugasemdir