Þá er komið að liðnum "Hvað er að frétta?" hér á Fótbolti.net en þar tökum við púlsinn hjá liðum í fyrstu, annarri og þriðju deild en á næstunni verður liðurinn á dagskrá tvisvar í viku.
Að þessu sinni er sviðsljósinu beint að Egilsstöðum þar sem við kíkjum á stemninguna hjá Hetti. Liðið er að komið í undanúrslitin í B deild Lengjubikarsins og er til alls líklegt í sumar.
Stefán Þór Eyjólfsson miðjumaður og fyrirliði Hattar svaraði nokkrum spurningum og svörin má sjá hér að neðan.
Hvernig er stemningin á Egilsstöðum þessa dagana?
Hún er eflaust góð að venju. Þar sem ég er búsettur í Reykjavík vegna náms míns, þá er ég kannski ekki í aðstöðu til að dæma um hana. Stemningin er hins vegar ávallt góð á sumrin enda sérstaklega gott að búa á Héraði yfir sumartímann.
Er liðið mikið breytt frá því síðastliðið sumar?
Leikmannahópurinn hefur tekið töluverðum stakkaskiptum. Við höfum fengið nokkra sterka leikmenn s.s. Jeppe, Hinrik "böðul", Tóta Borgþórs, Óttar Stein, Víglund og Jón Karls. Á hinn bóginn höfum við einvörðungu þurft að horfa á eftir tveimur leikmönnum, þ.e. Óliver markverði af völdum meiðsla og Denis Curic sem gekk til liðs við Hauka.
Dönsku leikmennirnir Henrik Bödker og Jeppe Opstrup eru komnir til ykkar. Munu þeir styrkja lið ykkar mikið?
Þessir tveir leikmenn munu að öllum líkindum gegna lykilhlutverki hjá okkur í sumar. Jeppe var fenginn til liðs við okkur gagngert vegna sölu Denis Curic til Hauka og Henrik vegna meiðsla markvarðar okkar, Ólivers.
Ég tel að Jeppe eigi eftir að reynast okkur vel, hann er hávaxinn, fljótur og með góðan leikskilning. Ráða má af leik hans, að hann spilar fyrst og fremst með hagsmuni liðsins í huga, sem er mjög góður eiginleiki.
Hvað varðar Henrik, þá skilst mér að hann sé mjög frambærilegur markvörður og góður karakter. Hann á stórt hlutverk fyrir höndum, m.a. að fylla í skarð Ólivers sem lék mjög vel á síðasta tímabili. Ég hef fulla trú á því að hann eigi eftir leysa sitt hlutverk vel af hendi.
Nú hafið þið misst Denis Curic, einn besta leikmann ykkar í fyrra, til Hauka. Það er væntanlega mikið áfall?
Það er ávallt bagalegt að missa góða leikmenn. Denis er frábær knattspyrnumaður, eldfljótur, teknískur og með framúrskarandi skottækni.
Hins vegar skal ekki gráta björn bónda. Hið margkveðna "maður kemur í manns stað" á fyllilega við í okkar tilviki, þ.e. Jeppe Ostrup er ætlað að leysa af hendi það hlutverk sem Denis gegndi hjá okkur í framlínu liðins.
Ég tel að eiginleikar og leikstíll Jeppe henti okkar leikskipulagi að mörgu leyti betur en Denis. Vonandi á það eftir sanna sig.
Þrátt fyrir að Denis skilji ekki stakt orð í íslensku, þá vil ég nota tækifærið og óska Denis alls hins besta í herbúðum Hauka. Hef fulla trú á að hann eigi eftir að standa undir væntingum.
Einnig vil ég hvetja hann til að láta af þeirri háttsemi sinni að klæðast nýþröngum bleikum hjólabuxum í almenningssundlaugum. Það er óþarfi að fleiri en sundlaugargestir á Egilsstöðum þurfi að bera hreðjar hans augum.
Saklausir einstaklingar hafa beðið varnalegt andlegt tjón af þessum sökum.
Hvernig hefur undirbúningstímabilinu verið háttað?
Líkt og í fyrra þá höfum við verið að æfa 4-5 sinnum í viku, annars vegar útihlaup og hins vegar hefðbundnar knattspyrnuæfingar. Auk þess höfum við leikið æfingarleiki og tekið þátt í tveimur mótum, lengjubikarnum og HEF-mótinu sem haldið var fyrir austan um páskana.
Leikmannahópurinn er tvískiptur og þegar af þeirri ástæðu fara æfingar fram hvort tveggja á Egilsstöðum og í Reykjavík. Æfingahópurinn fyrir austan er undir stjórn Víglundar Einarssonar en hér fyrir sunnan undir stjórn Njáls Eiðssonar þjálfara liðsins.
Það má geta þess að Njáll stjórnar og tekur þátt í öllum útihlaupum og sprettum þrátt fyrir að vera kominn yfir fimmtugsaldurinn. Nauðsyn skyndihjálparkunnáttu leikmanna, undir stjórn Njáls, eykst með hverju árinu.
Hver eru markmiðin fyrir sumarið?
Grundvallarmarkmið okkar á síðasta tímabili var að tryggja áframhaldinu veru okkar í 2. deildinni, sem og tókst, eftir erfiða byrjun. Í ár tel ég raunhæft markmið að setja stefnuna á toppbaráttuna. Hópurinn í heild er reynslunni ríkari, sterkir leikmenn hafa gengið til liðs við okkur og leikmannahópurinn er stærri og breiðari heldur en í fyrra. Það yrði frábært árangur ef við næðum að koma liðinu upp í 1. deild, sem yrði þá jafnframt besti árangur liðsins frá upphafi. Við verðum að bíða og sjá hvernig sumarið þróast og hvernig við stöndum að styrkleika gagnvart öðrum liðum.
Hver er helsti styrkleiki ykkar?
Leikmannahópurinn er í heildina mjög samheldinn, leikgleðin er mikil, og leikmenn eru reiðubúnir að leggja sitt lóð á vogaskálarnar til að ná þeim markmiðum sem fyrir þá eru sett. Leikmannahópurinn er breiður og líkamlegt ástand hvers og eins leikmanns verður að telja gott. Það vegur líka þungt að hafa góðan og reynslumikinn þjálfara sem allir hlýta í einu og öllu og bera mikla virðingu fyrir.
Ertu sáttur við spilamennsku og árangur liðsins í æfingaleikjum og Lengjubikarnum?
Í ljósi þess að við höfum verið að spila í vetur án 4-5 lykilmanna, sem enn eru ókomnir, þá tel ég árangur okkur fremur góðan. Við höfum náð góðum úrslitum við efri deildar lið í æfingaleikjum og gengið vel í þeim tveimur mótum sem við höfum tekið þátt í. Má nefna í fyrsta lagi að við erum komnir í undanúrslit lengjubikarsins (b-deild) eftir að hafa sigrað riðil okkar nokkuð sannfærandi og í öðru lagi stóðum uppi sem sigurvegarar HEF-mótsins sem haldið var á austurlandi um páskana. Fyrirfram vorum við líklegastir til að sigra HEF-mótið enda eina 2. deilar liðið sem tók þátt (hin liðin sem tóku þátt eru í 3. deild).
Varnarleikurinn hefur verið mjög stöðugur í leikjum okkar í vetur - höfum fengið á okkur fá mörk. Á hinn bóginn hefur spilamennska liðsins á köflum verið fremur döpur, en jákvætt að við skulum þrátt fyrir það ná að halda marki okkar hreinu og sigra leiki í kjölfarið.
Er einhver leikmaður úr liði ykkar sem þú telur að eigi eftir að springa út í sumar?
Það eru margir ungir og efnilegir leikmenn innan raða Hattar sem líklegir eru til að springa út. Að öðrum ólöstuðum þá tel ég að leikmenn eins og Jóhann Clausen, Garðar Grétarsson, og Rafn Heiðdal eigi að öllum líkindum eftir láta ljós sitt skína í sumar og verður forvitnilegt að fylgjast með þeim. Þetta eru leikmenn sem hafa mikla hæfileika og eru til alls líklegir.
Í vetur var stofnað eins konar B-lið Hattar, Spyrnir, sem mun leika í 3.deildinni. Mun það lið hjálpa Hetti til langs tíma litið?
Stofnun knattspyrnufélagsins Spyrnis er frábært framtak og á ótvírætt eftir að koma Hetti til góða til framtíðar séð. Spyrnir er kjörinn grundvöllur fyrir yngri leikmenn sem öðlast þurfa reynslu og má segja að tilkoma félagsins sé ákveðin lyftistöng fyrir knattspyrnuna almennt á Héraði.
Hvaða lið telur þú sigurstranglegast í 2.deildinni í sumar?
Ég tel fyrirfram að Í.R sé sigurstranglegasta liðið í 2. deildinni í ár.
Þeir búa yfir stórum og sterkum leikmannahóp, góðum þjálfara, og sýndu það í Reykjavíkurmótinu að þeir eru til alls líklegir. Þeir stefna ótvírætt á að komast upp í 1. deild og munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að það markmið verði að veruleika.
Eitthvað að lokum?
Ég vonast til að sjá sem flesta styðja við bakið á okkur í sumar. Fyrsti leikur okkar verður á útivelli gegn Víði í Garði föstudaginn 16. maí kl.
20:00. Hvet ég alla til að mæta.
Ég vil að lokum fyrir hönd leikmanna Hattar votta aðstandendum Birgis Vilhjálmssonar, er lést af slysförum í lok febrúar, okkar dýpstu samúð.
Birgir og kona hans hafa staðið þétt við bakið á liðinu gegnum tíðina og hefur framlag þeirra til félagsins í formi dyggs stuðnings, fjárframlaga fyrirtækis þeirra og annarrar margvíslegrar aðstoðar, verið ómetanleg og átt stóran þátt í framgangi félagsins. Þakka ykkur fyrir allt saman.
Blessuð sé minning þín Birgir.
Eldra úr liðnum hvað er að frétta?
1.deild:
KS/Leiftur(3.apríl)
Njarðvík (13.mars)
2.deild:
Hvöt (27.mars)
Tindastóll (15.apríl)
Völsungur (6.mars)
3.deild:
Árborg (17.apríl)
Berserkir (8.apríl)
KFR (24.apríl)
KFS (22.apríl)
Knattspyrnufélag Garðabæjar (19.mars)
Athugasemdir