Arsenal reiðubúið að spreða í framherja - Real Madrid ætlar að leggja fram annað tilboð í Trent - Cambiaso til Man City?
   þri 13. maí 2008 07:09
Magnús Már Einarsson
3.deild: Hvað er að frétta af KB?
Þórður Einarsson.
Þórður Einarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Guðmundur Karl
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Þá er komið að liðnum "Hvað er að frétta?" hér á Fótbolti.net en þar tökum við púlsinn hjá liðum í fyrstu, annarri og þriðju deild en á næstunni verður liðurinn á dagskrá tvisvar í viku.

Að þessu sinni er kíkt á stemninguna hjá KB í Breiðholti en liðið er eins konar varalið fyrir Leikni R.

Þórður Einarsson leikmaður og formaður félagsins situr fyrir svörum að þessu sinni.


Hvernig er stemmningin hjá KB þessa dagana?
Stemningin er fín. Það styttist í mót og þá fyrst verður nú almennilega gaman að þessu. Reyndar koma leikmenn KB saman úr hinum og þessum félagsskap og því segi ég nú ekki að við séum saman að róla á kvöldin. En það er ágætur andi í þessu samt.

Er leikmannahópurinn mikið breyttur frá því í fyrra?
Já hann er eitthvað breyttur en við erum með fleiri leikmenn á mála hjá okkur sem hafa þann eiginleika að getað sparkað í bolta en í fyrra. En það er spurning hvað við náum að nýta suma leikmenn mikið, leikmenn sem myndu styrkja okkur mikið. Við höfðum það sem markmið í fyrra að verða ekki hoppukastali fyrir þungavigtamenn sem höfðu gert garðinn frægan í utandeildinni og það ætti að vera sama upp á tenignum í ár.

Er samstarfið við Leikni mikið?
Það er að aukast með hverjum deginum og góður hluti leikmanna er á samning hjá Leikni. Einnig fáum við aðstöðuna, búninga, bolta og allan slíkan búnað. En við rekum þetta samt sjálfir. Erum með sterkan forseta og svo er formaður félagsins framúrskarandi.

Nú er þetta annað starfsár KB, hefur það gefið góða raun að halda út þessu liði?
Nú þegar hefur KB í raun sannað sig sem afar mikilvægt batterí fyrir Leikni. Það er í raun stóra markmið félagsins, að styrkja Leikni á einn eða annan hátt. Við höfum náð að veita leikmönnum 2. flokks nasaþef af meistaraflokks-spilamennsku, þótt 3. deild sé kannski ekki risa stökk fyrir þá þá er það samt talsvert stökk uppávið.

Einnig skiluðum við hægri bakverði í Leiknisliðið, Ólafi Jónssyni fyrirliða KB í fyrra, sem nú leikur með Leikni. Það var mikilvægt fyrir hann að hafa verið í einhverjum bolta á síðustu leiktíð og geta þá kúplað sig inní meistaraflokk Leiknis í ár. Svo fjölgar þetta virkum félagsmönnum í Leikni talsvert og gefur félaginu kost á að nýta þessar hendur sem þarna eru í dómgæslu og fleira.

Hvernig hefur undirbúningstímabilinu verið háttað hjá ykkur?
Við æfum nú ekki að krafti. Vorum að æfa tvisvar viku og svo bættist venjulega við leikur. Æfingarnar eru ekki beint settar upp af kostgæfni því flestar eru einfaldlega reitur og spil. En svo æfa auðvitað þónokkrir með 2. flokknum og einhverjir með meistaraflokki karla hjá Leikni, svo þeir sem ætla sér lengra í liði KB æfa af krafti. Auðvitað myndi lið einsog KB ná enn lengra ef lagt væri mikið í sölurnar við æfingar. En margir leikmanna KB eru einmitt í KB vegna þess að þeir hafa ekki tíma til að æfa af heilum hug.

Ertu sáttur við árangur og spilamennsku liðsins í æfingaleikjum og Lengjubikar?
Nei. Þetta er auðvitað bara undirbúningsmót en ef ég ætla að ganga Esjuna þá hætti ég ekki bara þegar ég á 15 mínútur eftir á toppinn. Lengjubikar C-deild var engin Esja heldur meira eins og skíðabrekkan í Breiðholtinu. En það bara vill svo oft brenna við að menn haldi að þeir séu betri en þeir eru í knattspyrnunni. Oft er talað um að vanmeta andstæðinga. Ég held að það sé ekki til. Það er ekkert vanmat að segja að ákveðnir leikmenn í 3.deild karla geti ekkert þegar knattspyrnan er annarsvegar. En menn aftur gleyma því oft að þeir eru staddir á sama stað - í 3. deild karla. Ofmat á eigin hæfileikum er svo oft að skemma fyrir mönnum. Ég held það hafi verið raunin hjá okkur í Lengjubikarnum. Þess utan spiluðum við langt í frá okkar besta bolta.

Hver er helsti styrkleiki ykkar?
Ættum að vera komnir með fína breidd fyrir sumarið. Erum með sterka pósta og á góðum degi getum við spilað fínan bolta. Einnig er hraðinn ágætur í liðinu fram á við.

Hvert er markmið liðsins í sumar?
Við ætlum að vinna alla leiki sem við förum í. En taka einn leik í einu. Útkoman úr því ætti að vera jákvæð. Ef það gengur ekki þá er bara að taka því. En ég hef ekki nokkra trú á að menn ætli sér ekki klífa þrítugan hamarinn að þessu sinni. Ef menn halda haus, stefnum við í úrslitakeppni. Og ef maður er kominn þangað er maður varla mættur bara til að vera með og hafa gaman?

Og sem aukamarkmið ætlum við að komast til Njarðvíkur í bikarnum með það að markmiði að minnka leikjaálag UMFN.

Er einhver leikmaður úr ykkar liði sem þú telur að eigi eftir að springa út í sumar?
Vonandi mun einhver af strákunum úr 2. flokki springa út og sýna að þeir séu tilbúnir að gera atlögu að sæti í Leiknisliðinu.

Hvaða lið telur þú sigurstranglegast í 3. deildinni í sumar?
Það eru nokkur lið sem eru sennilega áþekk að getu. KV, Ægir og Skallagrímur verða með verulega sterk lið tel ég. BÍ hlýtur að geta eitthvað þótt þeir hafi reyndar engan sérstakan mannskap í augnablikinu og svo verða Ýmir flottir. En þegar öllu er á botninn hvolft segi ég KB.

Eitthvað að lokum?
Með ósk um að stóru félögin í Breiðholti; Leiknir, KB og sundfélagið Ægir, standi sig vel á komandi leiktíð.


Eldra úr liðnum hvað er að frétta?

1.deild:
KS/Leiftur(3.apríl)
Njarðvík (13.mars)

2.deild:
Höttur (29.apríl)
Hvöt (27.mars)
Tindastóll (15.apríl)
Völsungur (6.mars)

3.deild:
Árborg (17.apríl)
Berserkir (8.apríl)
KFR (24.apríl)
KFS (22.apríl)
Knattspyrnufélag Garðabæjar (19.mars)
Þróttur Vogum (6.maí)
Athugasemdir
banner