Arsenal reiðubúið að spreða í framherja - Real Madrid ætlar að leggja fram annað tilboð í Trent - Cambiaso til Man City?
   þri 20. maí 2008 07:30
Magnús Már Einarsson
3.deild: Hvað er að frétta úr Borgarnesi?
Mynd: Fótbolti.net - Hilmar Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Gamla kempan Valdimar K. Sigurðsson.
Gamla kempan Valdimar K. Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hilmar Gunnarsson
Mynd: Kristján Blöndal
Mynd: Valgeir Kárason
Mynd: Fótbolti.net - Hilmar Gunnarsson
Mynd: Kristján Blöndal
Þá er komið að liðnum "Hvað er að frétta?" hér á Fótbolti.net en þar tökum við púlsinn hjá liðum í fyrstu, annarri og þriðju deild en á næstunni verður liðurinn á dagskrá tvisvar í viku.

Að þessu sinni kíkjum í Borgarnesi og skoðum stemninguna hjá Skallagrími. Liðið leikur í 3.deild líkt og undanfarin ár. Árið 1997 var Skallagrímur í efstu deild eftir að hafa unnið sig upp neðri deildirnar. Liðið féll hins vegar aftur niður í þriðju deild nokkrum árum síðar og hefur leikið þar síðan þá.

Einar Þ. Eyjólfsson, formaður og leikmaður Skallagríms, situr fyrir svörum og við skulum kíkja á afraksturinn.


Hvernig er stemmningin hjá Skallagrími þessa dagana?
Stemmning er góð þessa dagana og komin tilhlökkun í mannskapinn að fara takast á við verkefni sumarsins. Hópurinn þetta árið er stór og skipað bæði ungum leikmönnum sem eru að stíga sín fyrstu skref í Meistaraflokkir og reyndari mönnum sem hafa farið rússíbanaferð með liðinu úr 3.deild, uppí efstu deild og svo aftur niður í 3.deild. Aldursbilið er breytt, allt frá 15 ára uppí 40 ára.

Er leikmannahópurinn mikið breyttur frá því í fyrra?
Leikmannahópurinn er töluvert breyttur frá síðasta keppnistímabili. Liðið hefur misst nokkra leikmenn en aftur á móti fengið til sín fleiri leikmenn. Segja má að Skallagrímur hafi notið góðs af því að Kári frá Akranesi sendir ekki lið til leiks í sumar þar sem nokkrir Káramenn hafa komið til liðsins. Þá hafa leikmenn komið frá öðrum liðum. Í heildina má segja að meiri breidd sé í liðinu núna en í fyrra og undanfarin ár. Það hefur nokkrum sinnum komið fyrir á síðustu árum að liðið hefur ekki náð að manna 16 manna hóp í leiki en það ætti ekki að vera vandamál í sumar.

Er mikill fótboltaáhugi í Borgarnesi?
Það er mikill fótboltaáhugi í Borgarnesi þó svo að Borgarnes sé þekktari sem körfuboltabær. Til dæmis er fjöldi iðkenda í yngri flokkum í knattspyrnu meiri en í körfubolta. Mikill fótboltaáhugi í bænum birtist hins vegar ekki fjölda áhorfenda á leikjum sem má fyrst og fremst rekja til þess að liðið er að leika í 3.deild. Þegar liðið lék í efstu og næst efstu deild fyrir rúmum 10 árum síðan þá voru áhorfendur taldir í hundruðum og fór jafnvel yfir þúsund. Í dag má hins vegar telja þá á fingrum annarar handar og jafnvel nafngreina þá. Það er vonandi að þetta breytist með betri árangri inná vellinum.

Valdimar K. Sigurðsson, markahæsti maður Íslandsmótsins frá upphafi er ennþá að. Er hann líklegur til að lauma inn fleiri mörkum í sumar?
Valdi Kriss á pottþétt eftir að setja nokkur mörk í sumar. Þess má geta að Valdi mun halda uppá 40 ára stórafmæli í leiknum gegn Ými í sumar en allt er fertugum fært segir einhversstaðar og ég held að það eigi vel við Valdimar. Það segir í raun allt um hæfileika Valda á fótboltavellinum að hann skuli eiga markametið á Íslandi þar sem hann hefur lengstum leikið sem kantmaður. Þá hefur Valdi jafnframt spilað og skorað í öllum deildum Íslandsmótsins með sama liðinu. Það eru ekki margir sem hafa leikið það eftir, ef nokkur knattspyrnumaður á Íslandi. Svo er Valdi náttúrulega frábær félagi og hann er ekkert á leiðinni að hætta. Eini galli Valda er að hann er skelfilegur party-dj.

Hvernig hefur undirbúningstímabilinu verið háttað hjá ykkur?
Það hefur gengið á ýmsu á undirbúningstímabilinu. Liðið var lengi vel án þjálfara, slök mæting var á æfingar og öll stjórnin lét af störfum í febrúar. Ný stjórn var mynduð og í mars var gamli Borgnesingurinn Jakob Hallgeirsson fyrrum fyrirliði ÍR ráðinn þjálfari liðsins. Síðan þá hefur verið stígandi í þessu og liðið hefur verið að æfa tvisvar sinnum í viku upp á Akranesi og reynt að spila einn æfingaleik með.

Ertu sáttur við árangur og spilamennsku liðsins í æfingaleikjum og Lengjubikar?
Já og nei. Ég er sáttur við framlag kjúklinganna í liðinu í þessum leikjum. Síðan höfum við náð ágætum köflum í þeim leikjum sem við höfum spilað. Við höfum hins vegar verið mjög óstöðugir og spilamennskan hefur oft dottið niður á mjög lágt plan hjá okkur. Menn hafa verið að pirra sig á því hlutirnir hafa ekki verið að ganga 100% upp og hafa í kjölfarið farið að reyna gera hlutina uppá eigin spýtur. Um leið og menn gera sér grein fyrir hvar takmörk og hæfileikar þeirra liggja, þá fer liðið að spila betur og hlutirnir fara að ganga upp. Menn verða gera sér grein fyrir því ef að við ætlum að ná árangri þá gerum við það sem lið.

Hver er helsti styrkleiki ykkar?
Persónulega á ég erfitt með að meta það þar sem að endanlegur hópur er loksins þessa daganna farinn að æfa saman. Ef mannskapurinn helst heill og allir æfa af heilum hug erum við með góðan jafnan og breiðan hóp. Undanfarin ár hefur sóknarleikur liðsins verið styrkleiki liðsins en ef við ætlum að ná einhverjum árangri verðum við bæta varnarleik alls liðsins.

Hvert er markmið liðsins í sumar?
Satt best að segja rennur liðið tiltölulega blint í sjóinn þetta árið þar sem að allur hópurinn hefur aldrei komið saman í einn leik. Liðið hefur verið töluvert breytt milli leikja og í flestum leikjum hefur vantað 4-5 sterka leikmenn. Þá hefur Jakob aðeins verið með liðið í tvo mánuði þannig að áherslur hans eiga enn eftir að komast til skila til leikmanna. Markmiðið er hins vegar er að gera betur en í fyrra og blanda sér í toppbaráttuna í riðlinum. Nú hefur liðið leikið í 6 ár í 3.deild og aðeins einu sinni hefur því tekist að komast í úrslitakeppnina. Frá því að hætt var að handsauma fótboltana þá hefur liðið aldrei verið svo lengi í neðstu deild, þannig er alveg kominn tími á að liðið fari að láta meira af sér kveða og komist á hærri stall.

Er einhver leikmaður úr ykkar liði sem þú telur að eigi eftir að springa út í sumar?
Valdi Kriss.....Það eru þó nokkrir efnilegir leikmenn sem gætu látið til sín taka í sumar, annars vona ég bara að liðið í heild nái að springa út í sumar.

Hvaða lið telur þú að sé sigurstranglegast í 3. deildinni í sumar?
Í A-riðlinum tel ég að Ægir, KFS og KV muni koma til með að berjast um tvö efstu sætin. Ægir hefur verið að bæta við sig miklum mannskap og KFS eru erfiðir heim að sækja. KV tel ég að geti verið spútnik lið sumarsins í sumar. Það má þó ekki afskrifa Berserki sem geta unnið öll þessi lið þegar liðið hittir á góðan dag.

Í B-riðlinum fara BÍ/Bolungarvík örugglega áfram og Hamrarnir/Vinir munu fylgja þeim. Bæði lið eru skipuð vel spilandi fótboltamönnum. Ef Álftanes nær að sýna stöðugleika gætu þeir blandað sér í baráttuna um annað sætið. KFG er svo óskrifað blað og gæti komið á óvart.

Í C-riðlinum tel ég að það verði fjögurra liða barátta milli Skallagríms, Augnabliks, Ýmis og KB. Á pappírnum myndi ég telja að Ýmir væri með sterkasta liðið, enda liðið búið að fá til sín marga leikmenn og nýbúið að vinna Lengjubikarinn.

Ég held að Dalvík/Reynir sigri D-riðilinn örugglega og hörð barátta verður á milli Hugins og Sindra um annað sætið. Þessi þrjú lið hafa ekki verið lengi í 3.deild og stefna eflaust upp í aðra deild að ári.

Sigurstranglegustu liðin í deildinni tel ég vera Dalvík/Reynir og Ægir.

Eitthvað að lokum?
Fyrir hönd Skallagríms vil ég koma á framfæri þökkum til fótbolta.net fyrir góða umfjöllun um neðri deildirnar í fótboltanum, frábært framtak hjá þeim sem halda þessari síðu úti. Þá vil ég óska hinum liðunum í 3.deildinni góðs gengis í sumar sem og dómurum, sem skila ómetanlegu og vanmetnu starfi.



Eldra úr liðnum hvað er að frétta?

1.deild:
KS/Leiftur(3.apríl)
Njarðvík (13.mars)

2.deild:
Hamar (15.maí)
Höttur (29.apríl)
Hvöt (27.mars)
Tindastóll (15.apríl)
Völsungur (6.mars)

3.deild:
Árborg (17.apríl)
Berserkir (8.apríl)
KB (13.maí)
KFR (24.apríl)
KFS (22.apríl)
Knattspyrnufélag Garðabæjar (19.mars)
Þróttur Vogum (6.maí)
Athugasemdir
banner
banner