Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 20. maí 2008 08:00
Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Berg: Frá Chelsea og Fulham í byrjunarlið Breiðabliks
Jóhann í leik með Breiðablik á undirbúningstímabilinu.
Jóhann í leik með Breiðablik á undirbúningstímabilinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Í leik Breiðabliks gegn Þrótti í annarri umferð Landsbankadeildarinnar.
Í leik Breiðabliks gegn Þrótti í annarri umferð Landsbankadeildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Þór Veruson
Sigri fagnað með Breiðablik í Lengjubikarnum í vor.
Sigri fagnað með Breiðablik í Lengjubikarnum í vor.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Í leiknum gegn Þrótti sem endaði með jafntefli.
Í leiknum gegn Þrótti sem endaði með jafntefli.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Þór Veruson
Jóhann Berg Guðmundsson er aðeins 17 ára gamall en hefur unnið sér fast sæti í liði Breiðabliks þar sem hann hefur átt tvö mjög góða leiki í fyrstu tveimur umferðum Landsbankadeildarinnar. Jóhann Berg er uppalinn hjá Breiðablik en hefur undanfarin ár verið hjá ensku stórfélögunum Chelsea og Fulham og sneri aftur heim til Íslands um áramótin.

Við ræddum við hann um hvað hann hefur verið að aðhafast undanfarin ár en þrátt fyrir að vera ungur að árum hefur hann komið við hjá stórum félögum en einnig lent í erfiðum meiðslum sem tóku sinn toll.

,,Ég flutti til Englands fyrir tveimur og hálfu ári síðan með foreldrum mínum,” sagði Jóhann Berg í samtali við Fótbolta.net í gærkvöld. ,,Þar var ég meðal annars hjá Chelsea í stuttan tíma og svo lengi hjá Fulham. Ég sleit svo krossbönd og var frá keppni í ár og var því hjá Fulham í sjúkraþjálfun á meðan ég var að koma mér í stand aftur. Svo flutti ég heim til Íslands og er núna kominn í Breiðablik,” bætti hann við.

Hjá Chelsea lék hann með undir 16 ára liði félagsins en eftir að hafa farið til Fulham var hann fyrst í undir 16 ára liðinu og síðar í undir 18 ára liðinu. Hann spilaði með báðum liðum en var þó ekki á samning. En hvernig kom það til að hann komst að hjá svona stórum félögum?

,,Þegar ég flutti út vantaði mig að komast að hjá fótboltaliði og maður sem er tengdur Breiðablik aðstoðaði mig að komast að hjá Chelsea. Svo þegar ég fór til Fulham þá var það í gegnum Heiðar Helguson leikmann liðsins,” sagði Jóhann Berg en á þeim tíma sem hann var úti missti hann nokkuð úr vegna meiðsla. Hann kynntist því þó að spila gegn stórstjörnum er hann var hjá Fulham.

,,Ég spilaði tvo leiki með undir 18 ára liði Fulham gegn varaliði félagsins. Í fyrri leiknum spilaði ég gegn Michael Brown þegar hann var alveg að fara frá félaginu og í seinna skiptið spilaði ég gegn Liam Rosenior. Þetta var mjög mikil reynsla sem ég fékk út úr þessu og ég mun byggja að henni mjög lengi,” sagði hann.

Hann lenti svo í einhverjum verstu meiðslum sem íþróttamenn lenda í þegar hann sleit krossbönd er hann var hjá Fulham og varð frá æfingum og keppni í heilt ár.

,,Það var mjög mikið áfall, þetta gerðist á æfingu á gervigrasi hjá Fulham. Ég var að teygja mig í boltann og heyrði einhvern smell,” sagði hann. ,,Þeir vissu það strax hjá Fulham að ég væri með slitin krossbönd en vildu ekki segja mér það fyrst. Svo kom ég til Íslands og fór í myndatöku og þurfti að bíða eftir aðgerð því ég var ekki nógu stór og þurfti að bíða eftir að stækka aðeins. Ég fór í tvær aðgerðir, til að fjarlægja krossbandið fyrst, og til að búa til nýtt í seinna skiptið. Ég var frá keppni í ár vegna þessa.”

Eftir að hafa jafnað sig af meiðslunum gat hann hafið æfingar að nýju hjá Fulham. Breytingar hjá félaginu urðu til þess að ekkert varð úr því að hann fengi samning hjá Fulham. ,,Síðustu þrjú árin hafði liðið verið í neðstu sætunum og þegar ég var að detta inn aftur eftir meiðslin kom nýr þjálfari með meiri kröfur. Hann breytti liðinu gjörsamlega og þeir lentu núna í þriðja sæti. Eftir það var mjög erfitt fyrir mig að fá samning hjá þeim,” sagði hann.

Ekki leið á löngu þar til hann var kominn til Íslands að nýju en hann sagði að sér hafi ekki líkað lífið í Lundúnum þar sem foreldrar hans búa ennþá. Hann býr því í íbúð hér á landi með systur sinni og er í skóla yfir veturinn en vinur á golfvellinum yfir sumartímann og þarf að mæta til vinnu klukkan 06:00 á morgnanna.

,,Mér fannst hundleiðinlegt að búa í London og mig langaði bara að koma til Íslands og vera hérna í fótbolta og í skóla og að vera með vinunum. Mér finnst London of stór borg og leiðinleg. Maður nennir ekki alltaf að fara inn í borgina að gera eitthvað því hún er svo mikil ferðamannaborg. Mig langaði bara ekki að búa þarna lengur,” sagði hann.

,,Það var samt gríðarleg reynsla fyrir mig að fara þarna út og ég er mjög ánægður með að hafa gert það og prófað þetta allt, enda tel ég það hafa hagnast mér núna. Ég lærði að spila hraðann fótbolta og það þurfti að gera allt fljótt án þess að hika. Þegar ég var í 16 ára liðinu var ég í skóla á daginn og æfði á kvöldin en eftir að ég kom í 18 ára liðið var ég á æfingasvæðinu allan daginn..”

Eftir krossbandsmeiðslin hafði hann farið á fullt í ágúst á síðasta ári og hann gekk svo í raðir Breiðabliks að nýju í desember og eftir að hafa byrjað í 2. flokknum er hann orðinn byrjunarliðsmaður í meistaraflokknum núna í maí. ,,Breiðablik var eina félagið sem kom til greina hjá mér,” sagði hann.

,,Ég byrjaði bara með öðrum flokki og hef svo unnið mig upp. Svo fór ég með meistaraflokki til Spánar í byrjun mars og þar stimplaði ég mig inn í liðið og hef eftir það æft með meistaraflokki. Það var alltaf ætlunin hjá mér að vera í hóp en þetta var ansi fljótt að gerast hjá mér,” bætti hann við.

Hjá Breiðablik hefur hann leikið á vinstri kantinum og fékk mikið hrós fyrir báða leiki sína með liðinu í Landsbankadeildinni til þessa en liðið gerði jafntefli í þeim báðum, fyrst gegn ÍA og svo gegn Þrótti.

,,Ég er mjög sóknarsinnaður og ekki mikið fyrir að bakka. Ég er búinn að spila núna tvo leiki með Breiðablik og hef verið mjög sáttur með þá,” sagði hann. ,,Fyrsti leikurinn var erfiður, mikið tempó og svona. Annar leikurinn var tómt vesen, við áttum að klára hann.”

Þrátt fyrir að vera kantmaður í dag og hafa verið það að upplagi fékk Jóhann Berg mikið hrós fyrir frammistöðu sína sem varnarmaður því er hann lék í 5. flokki lék hann í vörn liðsins með Viktori Unnari Illugasyni framherja Reading og var á lokahófi valinn besti leikmaðurinn.

,,Ég var alltaf framherji og svo ákváðum við Viktor að prófa eina æfingu sem varnarmenn og stóðum okkur ansi vel,” sagði hann. ,,Við vorum settir í vörnina í leik gegn ÍA sem var ansi skemmtilegt og krefjandi verkefni. Þegar ég var búinn með fimmta flokkinn var ég svo settur á vinstri kantinn og ég hef verið þar síðan. Reyndar spilaði ég aðeins á miðjunni í fjórða flokki en ég hef annars bara verið á vinstri kantinum.”
Athugasemdir
banner
banner
banner