Þá er komið að liðnum "Hvað er að frétta?" hér á Fótbolti.net en þar tökum við púlsinn hjá liðum í fyrstu, annarri og þriðju deild en á næstunni verður liðurinn á dagskrá tvisvar í viku.
Nágrannaliðin Reynir Sandgerði og Víðir Garði eigast við í annarri deild karla í kvöld en tíu ár eru liðin síðan að þessi lið mættust síðast í formlegum kappleik.
Því er ekki úr vegi að kíkja á stemninguna í Garðinum en Knútur Rúnar Jónsson fyirliði Víðis svaraði nokkrum spurningum.
Hvernig er stemmningin í Garðinum þessa dagana?
Stemmingin í Garðinum er góð þessa dagana enda er liðið komið aftur í aðra deild eftir þriggja ára fjarveru. Undirbúnings tímabiliðhefur gengið nokkuð vel en við komumst í undanúrslit í lengjubikarnum, þar sem við töpuðum fyrir Hvöt. Það voru vissulega vonbrigði að komast ekki í úrslitin en við erum löngu búnir að leggja það til hliðar og farnir að einbeita okkur að Íslandsmótinu.
Það var mjög góð stemming á okkar fyrsta leik og sennilega hafa ekki verið jafn margir áhorfendur á deildarleik í langan tíma. Nýja stuðningsmannasveitinn kom sterk inn og má búast við því að hún eigi eftir að gera góða hluti á pöllunum í sumar.
Er mikill rígur á milli Víðis og Reynis?
Já, það hefur alltaf verið mikill rígur á milli þessara liða en hann hefur sennilega breyst aðeins frá því sem áður var. Miðað við sögurnar sem maður heyrir frá heldri borgurum í Garðinum þá gátu Garðmenn varla farið einir sins liðs í Sandgerði án þess að lenda í stympingum hér áður fyrr og það sama var uppi á teningnum ef Sandgerðingar komu í Garðinn. Núna er þetta breytt og eiga þessi sveitarfélög og íbúar þeirra mjög gott samstarf á ýmsum sviðum. Rígurinn núna snýst eingöngu um það hverjir eigi betra fótboltalið. Fólk í Garðinum hefur fengið að heyra það ansi oft undanfarin ár í hvaða deild Reynir er. Þannig að það má búast við hörkuleik í kvöld.
Má búast við mikilli stemningu á leiknum í kvöld?
Já ég held að það megi búast við mjög mikilli stemmingu í kvöld. Ég man það frá því að maður var gutti, að það voru alltaf tvöfalt til þrefalt fleiri áhorfendur á þessum leikjum og stemmingin var alveg mögnuð. Það er líka það sem gerir þennan nágrannaslag svo skemmtilegan. Fólk er búið að bíða mjög lengi eftir þessum leik og maður hefur heyrt talað um hann reglulega frá því við komumst upp síðasta haust. Þannig að eftirvæntingin er mikill og margir eflaust farnir að iða í skinninu.
Er leikmannahópurinn mikið breyttur frá því í fyrra?
Nei hann er mjög svipaður en við höfum nánast haldið öllum okkar leikmönnum. Það hafa orðið smá róteringar á útlendingunum hjá okkur og einnig höfum við fengið nokkra unga Víðsstráka til baka frá öðrum félögum og eru þeir mjög góð viðbót við annars góðan hóp. Einnig kom Þorsteinn Þorsteinsson frá Keflavík.
Er mikill fótboltaáhugi í Garðinum?
Já það er mikil stemming fyrir liðinu ef marka má mætinguna á fyrsta deildarleikinn og ég vona svo sannarlega að mætingin eigi eftir að vera svona góð í allt sumar. Knattspyrnan er náttúrulega aðal íþróttin í Garðinum og það hafa flestir íbúar Garðsins einhvern tíman spreytt sig með félaginu annaðhvort í yngri flokkum eða meistaraflokki. Þannig að fólk ber hlýjan hug til félagsins og fylgist með félaginu hvort sem það mæti á leiki eða ekki.
Hver er helsti styrkleiki ykkar?
Ég tel að styrkleikar okkar felist í því að við erum mjög samstilltur hópur sem hefur verið lengi saman. Menn hafa mjög gaman af því sem þeir eru að gera og leggja sig alla fram við það að ná góðum úrslitum.
Hvert er markmið liðsins í sumar?
Við höfum náttúrulega sett okkur viss markmið en það er kannski ekki rétt að fara að básúna þeim hér en við stefnum að því að sanna það að við séum með frambærilegt 2. deildar sem eigi heima í alvöru deild.
Hvernig finnst þér 2.deildin, nú þegar tólf lið leika þar?
Maður getur nú kannski ekki sagt mikið eftir einn leik en ég held að þetta eigi eftir að verða hörku barátta í sumar. Það er mikið af fínum fótboltaliðum í deildinni og þetta eru því 22 alvöru leikir sem er töluvert annað en var í 3. deildinni. Það er sjálfsagt ekkert grín að spila 22 leiki og halda alltaf sama dampi. Ég tel að það verði gulls ígildi að vera með þéttan og breiðan leikmannahóp í sumar og að úrslitin muni að mestu ráðast á því.
Er einhver leikmaður úr ykkar liði sem þú telur að eigi eftir að springa út í sumar?
Það eru nokkrir ungir strákar í liðinu sem eru líklegir til þess að springa út í sumar en það veltur allt á þeim hvað þeir eru tilbúnir að leggja í sölurnar til þess að verða betri en þeir eru í dag. Ég hef fulla trú á því að þeir eigi eftir að standa sig vel í sumar.
Hvaða lið telur þú að sé sigurstranglegast í 2. deildinni í sumar?
Það búast náttúrulega allir við því að ÍR-ingar endi í toppsætinu. Það er mikil pressa á þeirra liði og þeir hafa verið mikið í sviðsljósinu. Það verður því fróðlegt að fylgjast með því hvernig þeir höndla þær væntingar sem til þeirra eru gerðar í deildinni í sumar.
Eitthvað að lokum?
Ég vill hvetja alla Garðmenn til þess að mæta á þennan stórleik í kvöld og hvetja liðið áfram í baráttunni við erkifjendurnar úr Sandgerði.
Eldra úr liðnum hvað er að frétta?
1.deild:
KS/Leiftur(3.apríl)
Njarðvík (13.mars)
2.deild:
Hamar (15.maí)
Höttur (29.apríl)
Hvöt (27.mars)
Reynir Sandgerði (23.maí)
Tindastóll (15.apríl)
Völsungur (6.mars)
3.deild:
Árborg (17.apríl)
Berserkir (8.apríl)
KB (13.maí)
KFR (24.apríl)
KFS (22.apríl)
Knattspyrnufélag Garðabæjar (19.mars)
Skallagrímur (20.maí)
Þróttur Vogum (6.maí)
Athugasemdir