Þá er komið að liðnum "Hvað er að frétta?" hér á Fótbolti.net en þar tökum við púlsinn hjá liðum í fyrstu, annarri og þriðju deild en á næstunni verður liðurinn á dagskrá tvisvar í viku.
Selfyssingar unnu sér síðastliðið haust sæti í fyrstu deild karla eftir margra ára fjarveru. Byrjun liðsins í fyrstu deildinni hefur verið eftirtektarverð en liðið er taplaust eftir þrjá leiki.
Því er ekki úr vegi að kíkja á stemninguna hjá Selfyssingum en Jón Steindór Sveinsson fyrirliði liðsins svaraði nokkrum spurningum.
Hvernig er stemmningin hjá Selfyssingum þessa dagana?
Stemmningin er alltaf mjög góð hjá okkur Selfyssingum. Við komumst loksins upp í fyrstu deild í fyrrasumar eftir nokkuð margar tilraunir og erum mjög sáttir við það. Áhuginn hjá bæjarbúum hefur aukist gríðarlega við það og nú er lítið annað rætt á kaffistofum bæjarins en fótbolti.
Er leikmannahópurinn mikið breyttur frá því í fyrra?
Nei ekki mjög. Við höfum haldið að mestu sama grunnkjarnanum, en bætt við okkur sterkum leikmönnum og gríðarlega efnilegum strákum sem eru að koma upp í meistaraflokk. Við misstum Bretann Andy Pew sem var okkur mikilvægur í fyrra en fengum í staðinn hinn stóra og stæðilega Dusan Ivcovic sem var einn besti varnarmaður 2. deildar í fyrra. Ásgeir Ásgeirs er farinn aftur í Fylki en Boban Jovic kom til okkar frá Völsung. Gunnar Rafn kom frá Aftureldingu, Arnar Þór og Agnar Bragi úr Fylki og Henning frá KR.
Er mikill fótboltaáhugi á Selfossi?
Það er mjög mikill fótboltaáhugi á Selfossi. Yngri flokka starfið er mjög öflugt og það er að skila efnilegum krökkum upp. Það var gríðarmikilvægt fyrir okkur að fá Knattspyrnuakademíu á Selfoss og hefur það sýnt sig að krakkarnir í akademíunni hafa tekið miklum framförum jafnt innan sem utan vallar. En allt þetta byggir á því að góð aðstaða sé fyrir hendi og menn hafa því miður verið frekar seinir til að bæta hana hjá bæjarfélaginu. Gervigrasið var ekki almennilega tilbúið fyrr en í vetur og þar sem við höfum ekki knattspyrnuhöll á Selfossi fóru nokkuð margar æfingar forgörðum í vetur sökum veðurs. Á planinu er reyndar mikil uppbygging á íþróttasvæðinu okkar og vonum við að það verði til að bæta getu allra og stuðla að því að klúbburinn styrkist enn frekar.
Þið hafið sjö stig eftir þrjá leiki í fyrstu deild, óraði þig fyrir þessari byrjun í deildinni?
Já alveg eins. Við erum með sterkan leikmannahóp sem hefur æft vel saman og fengið sterka stráka til okkar. Zoran eyðir ómældum tíma í að kenna okkur fótbolta og þegar við hlustum á hann og gerum eins og fyrir er lagt erum við til alls líklegir.
Gamla kempan Zoran Miljkovic tók liðinu í fyrra og hefur náð góðum árangri með liðið. Hvernig þjálfari er hann?
Hann er mjög fær þjálfari, atvinnumaður. Hann hefur menntað sig talsvert í þjálfun í Serbíu og við fáum að njóta góðs af því. Zoran er verulega metnaðarfullur og hugsar um fátt annað en fótbolta. Hann hefur kennt okkur mikið og reynir að ná því besta út úr hverjum og einum. Það fer mikill tími í að horfa á krítartöfluna og við höfum lært mikið af því.
Hver er helsti styrkleiki ykkar?
Sterkur og góður samheldinn hópur vel spilandi leikmanna.
Hvert er markmið liðsins í sumar?
Markmið liðsins fyrir þetta tímabil er að halda sætinu í deildinni.
Er einhver leikmaður úr ykkar liði sem þú telur að eigi eftir að springa út í sumar?
Það er frekar erfitt að pikka einhver nöfn út úr góðum hóp. Við erum með markakóng síðan í fyrra og besta varnarmann deildarinnar. Ég tel að ungu strákarnir eigi einnig eftir að koma sterkir inn.
Hvaða lið telur þú að sé sigurstranglegast í 1. deildinni í sumar?
Mér sýnist deildin vera nokkuð jöfn og ég tel að liðin eigi eftir að reyta stig hvert af öðru. ÍBV virka nokkuð sterkir og ég tel að Fjarðabyggð, Haukar og Stjarnan verði ofarlega. Annars virðist allt opið og ég vona bara að deildin verði jöfn og spennandi.
Eitthvað að lokum?
Bestu kveðjur til allra fótboltaáhugamanna frá okkur á Selfossi og vonandi sjáum við mikið af fólki á vellinum í sumar. Við viljum þakka Fótbolti.net fyrir greinargóða og heiðarlega umfjöllun um knattspyrnu á Íslandi. Verð einnig að minnast á útvarp Sögu sem sendir beint út frá 1.deildar leikjum í sumar, frábært framtak. Einnig viljum við strákarnir þakka öllum fyrirtækjum sem hafa stutt okkur í fjáröflunum kærlega fyrir þeirra stuðning, því án þeirra væri þetta ekki hægt.
Eldra úr liðnum hvað er að frétta?
1.deild:
KS/Leiftur(3.apríl)
Njarðvík (13.mars)
2.deild:
Hamar (15.maí)
Höttur (29.apríl)
Hvöt (27.mars)
Reynir Sandgerði (23.maí)
Tindastóll (15.apríl)
Víðir Garði (23.maí)
Völsungur (6.mars)
3.deild:
Árborg (17.apríl)
Berserkir (8.apríl)
KB (13.maí)
KFR (24.apríl)
KFS (22.apríl)
Knattspyrnufélag Garðabæjar (19.mars)
Skallagrímur (20.maí)
Þróttur Vogum (6.maí)
Athugasemdir