Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 19. júní 2008 23:51
Fótbolti.net
Umfjöllun og viðtöl: Fertugur Boban Ristic skaut Hamar áfram
Leikmenn Hamars fagna í kvöld.
Leikmenn Hamars fagna í kvöld.
Mynd: Vignir Egill
Boban Ristic skaut Hamar áfram.
Boban Ristic skaut Hamar áfram.
Mynd: Vignir Egill
Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld.
Mynd: Guðmundur Karl
Boban Jovic og  Milan Nikolic eigast við.
Boban Jovic og Milan Nikolic eigast við.
Mynd: Guðmundur Karl
Hamar 2 - 1 Selfoss
0-1 Ingþór Jóhann Guðmundsson
1-1 Boban Ristic
2-1 Boban Ristic

Það var sannkallaður nágranaslagur á Grýluvelli í Hveragerði í kvöld. Þar tóku heimamenn í Hamri á móti nágrönum sínum frá Selfossi. Selfyssingar gerðu sjö breytingar á sínu liði frá síðasta deildarleik og Hamarsmenn hvíldu tvo leikmenn sem voru tæpir fyrir leikinn.

Hvergerðingar og Selfyssingar áttust síðast við í alvöru leik fyrir 22 árum, en þá voru Hvergerðingar í gömlu 4. deildinni og Selfyssingar voru með sterkt lið í gömlu 2. deildinni. Skemmst er frá því að segja Hvergerðingar, leiddir áfram af fyrirliða sínum Ólafi Ragnarssyni núverandi dómara, fóru þá með sigur af hólmi 4-3.

Það sama var upp á teningnum í kvöld, Hvergerðingar komu á óvart og unnu Selfyssinga 2-1. Selfyssingar byrjuðu mun betur í leiknum og áttu nokkur góð færi fyrstu 25 mínútunar, en þó vantaði einhvern neista til að klára færin. Fyrsta markið kom svo á 29. mínútu eftir fallega sókn Selfoss sem endaði með því að Arilíus stakk boltanum inn á Ingþór og hann lagði boltann framhjá markmanni Hamars. Staðan orðin 0-1 fyrir Selfoss.

Eftir markið rifu Hamarsmenn sig upp og börðust um alla bolta og endaði það með því að tveir leikmenn Selfoss þurftu að fara af leikvelli meiddir. En Hamarsmenn uppskáru mark á 42. mínútu þegar Boban Ristic tók stutt horn, fékk boltann aftur lek að vítateigslínu og hamraði boltann efst í markhornið. Staðan orðin 1-1 og ekkert markvert gerðist svo fram að hlé.

Lítið gerðist fyrstu tíu mínútur seinni hálfleiks, en þá átti Predrag Milosavljevic fyrirliði hamars gott skot sem Jóhann varði vel. Mínútu seinna virtist Viðar rifinn niður inn í teig en ekkert dæmt. Næstu mínútur voru Selfyssingar mun líklegri og áttu nokkrar góðar hornspyrnur, en eitthvað vantaði til að koma boltanum í netið. Eftir eitt slíkt horn náðu Hvergerðingar skyndisókn og voru þrír á móti þrem, en sókn þeirra rann út í sandinn.

Þegar um tuttugu mínútur voru eftir fékk Viðar tvö alveg eins færi og bæði eftir stungu sendingu frá Andra, en markmaður Hamars varði vel í bæði skiptin. Á 73 mínútu björguðu Hvergerðingar svo á línu skalla frá Dusan. Ingólfur Þórarinsson átti svo góða sendingu inn á Viðar en skot hans var varið.

Þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum, komust Hamarsmenn í hraða sókn og leikmaður þeirra gaf boltann fyrir á Boban Ristic og hann var einn á auðum sjó og skallaði boltann auðveldlega í netið. Staðan orðin 2-1 fyrir Hamar og lítið eftir. Eftir markið áttu Selfyssingar nokkra krossa fyrir en ekkert alvöru marktækifæri skapaðist og leiktíminn rann út.

Hamar því komnir áfram í sextán liða úrslitin eftir þennan góða sigur á nágrönum sínum.

Hamar ( 4-1-4-1 ): Ekki er hægt að gefa upp byrjunarlið Hamars því þeir gátu ekki gefið heimildarmanni afrit af leikskýrslu.

Selfoss ( 4-4-2 ): Jóhann Ólafur Sigurðsson, Stefán Ragnar Guðlaugsson, Dusan Ivkovic, Agnar Bragi Magnússon, Andri Freyr Björnsson, Gunnar Borgþórsson, Boban Jovic (Sigurður Eyberg Guðlaugsson 55mín), Arilíus Marteinsson, Ingólfur Þórarinsson, Guðmundur Þórarinsson(Viðar Örn Kjartansson 37mín), Ingþór Jóhann Guðmundsson (Henning Eyþór Jónasson 42mín).
Ónotaðir varamenn: Elías Örn Einarsson, Árni Páll Hafþórsson, Ólafur Tryggvi Pálsson, Jón Daði Böðvarsson.

Ummæli eftir leik:

Predrag Milosavljevic fyrirliði Hamars
,,Ég er mjög ánægður, við höfðum alltaf trú á að við gætum sigrað Selfoss, svona er bikarkeppnin. Við erum með góðan hóp og þessi sigur gefur okkur vonandi byr í seglin fyrir deildina”

Boban Ristic þjálfari Hamars og maður leiksins
,,Við vorum heppnir gegn Selfoss, því auðvitað eru Selfyssingar betri. En við börðumst meira í þessum leik. Ég héf séð Selfoss spila mun betur í sumar, en í þessum leik. Þessi sigur er góður fyrir sjálfstraustið hjá okkur. Við eigum mjög erfiðan leik gegn ÍH í næsta deildarleik og nú verðum við bara að spila með hjatanu áfram,"

Zoran Miljkovic þjálfari Selfoss
,,Ég er ekki ánægður með tapið, en þetta setur okkur niður á jörðina. Ég er einmitt búinn að vera vinna í því, en hefði viljað fara aðra leið að ná mönnum niður á jörðina. Við spiluðum aldrei fótbolta og fengum því það sem við áttum skilið. Fyrstu 30 mínútunar fengum við færi til að klára leikinn nokkrum sinnum en höfðum ekki einbeitingu til að skora. Mínir menn heldu að þeir væru betri en Hamar og þess vegna skora þeir ekki. Við þurfum nú allir að taka til hjá okkur og byrja að spila aftur eins og við gerum best. Ef þú nærð ekki að stjórna hugsun þinni fyrir leik nærðu aldrei að stjórna leik."
Athugasemdir
banner
banner