Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   lau 11. október 2008 07:00
Þórður Már Sigfússon
Heimild: AD Sportwereld 
Prince Rajcomar vill yfirgefa Breiðablik
Prince Rajcomar í leik með Breiðablik
Prince Rajcomar í leik með Breiðablik
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Mynd: Fótbolti.net - Vilbogi M. Einarsson
Hollendingurinn Prince Rajcomar, leikmaður Breiðabliks, vill yfirgefa herbúðir félagsins fyrir næsta keppnistímabil og útilokar ekki að spila með öðru félagi á Íslandi. Frá þessu er greint í hollenskum fjölmiðlum.

Hins vegar, vegna horfa í efnahagsmálum hér á landi, verður að teljast ólíklegt að íslensk félög beri víurnar í hann.

,,Sænskt lið sýndi mér áhuga á síðasta keppnistímabili en Breiðablik hafði engan áhuga að láta mig fara. Hins vegar þar sem samningur minn rennur út eftir næsta tímabil vonast ég til þess að félagið verði liðlegra nú. Ég er þó ekkert frekar að leitast eftir því að fara frá Íslandi, sagði Rajcomar í samtali við íþróttablaðið AD Sportwereld.

Hann kannar nú þann möguleika að komast að hjá liði í Hollandi eða Belgíu til þess að getað stundað æfingar yfir vetrarmánuðina.

,,Ég get ekki spilað með öðru félagi á veturna þar sem Breiðablik greiðir launin mín. Því hef ég yfirleitt æft einn míns liðs yfir vetrarmánuðina. Hins vegar hef ég beðið umboðsmann minn að kanna þann möguleika að geta stundað æfingar hjá hollensku eða belgísku liði í vetur.“

Rajcomar segist muni snúa aftur til æfinga hjá Kópavogsliðinu á tilsettum tíma fari svo að ekkert gerist í hans málum fyrir þann tíma.

,,Ég sneri aftur til Hollands í síðasta mánuði og þarf að verða mættur aftur til æfinga (hjá Breiðablik) 1. mars. Þá er ætlunin að fara í æfingabúðir til Spánar.“

Efnahagskreppan hér á landi er á allra vörum um gervalla Evrópu og gerir Rajcomar sér grein fyrir því að knattspyrnan mun verða fyrir miklum áhrifum. Hann segir að félögin muni fara illa út úr þessu ástandi. Sjálfur hafi hann t.a.m. ekki enn fengið útborgað fyrir síðasta mánuð en hefur þó engar áhyggjur af því.

Rajcomar, sem á nokkra landsleiki að baki með yngri landsliðum Hollands, gerir sér ennþá vonir um að spila fyrir A-landsliðið. Hann er einnig gjaldgengur í landslið Vestur-Indía.

,,Ég hef tvisvar neitað að spila fyrir Vestur-Indíur þar sem ég á þá ósk heita að spila fyrir Holland. Maður má dreyma og hver veit nema að breyting sé í vændum á mínum ferli,“ sagði Rajcomar sem dásamar land og þjóð.

,,Ég verð að segja að Ísland er frábært land sem vert er að upplifa. Fólkið þar er vingjarnlegt og afslappað. Mér gekk auðveldlega að aðlagast landinu. Erfiðast var þó að venjast löngu sumardögunum en þá er dagsbirta nánast allan sólarhringinn.“

Rajcomar ætlar að fylgjast með landsleiknum í kvöld í sjónvarpi og segir hann Íslendinga vera sýnd veiði en ekki gefin. Hann tippar á nauman sigur Hollendinga.

,,Ég þekki til margra íslensku leikmannanna en því miður er enginn leikmaður frá Breiðablik í hópnum,“ sagði Rajcomar sem telur Eið Smára Guðjohnsen og Heiðar Helguson vera hættulegustu leikmenn liðsins.

,,Íslendingar verjast ekki eingöngu. Þeir eru með frábært hugarfar og spila góðan fótbolta þegar svo ber undir."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner