Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   þri 12. maí 2009 11:14
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 2.deild karla: 5. sæti
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Víðir
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í fimmta sæti í þessari spá var Víðir Garði sem fékk 150 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Víðil.


5. Víðir
Búningar: Blá og hvít treyja, bláar buxur, bláir sokkar.
Heimasíða:

Víðir frá Garði náði glæsilegum árangri í fyrra þegar liðið hafnaði í 3. sæti deildarinnar eftir að hafa barist við Aftureldingu lengi vel um að komast upp í 1. deild. Árangur var samt sem áður glæsilegur enda liðið nýkomið upp úr 3. deildinni og félagið náði að festa sig í sessi í 2. deildinni. Það eru nýjar væntingar til liðsins í sumar en gárungarnir hafa ekki sömu trú á Víði og á síðustu leiktíð og spá liðinu rétt fyrir ofan miðja deild.

Steinar Ingimundarson framlengdi samning sinn við Víði en hann hefur náð afar góðum árangri með liðið. Liðið komst upp úr 3. deildinni undir hans stjórn og á síðustu leiktíð skellti liðið sér beint í toppbaráttuna eins og áður segir. Hans bíður mun erfiðara og meira krefjandi verkefni í ár þar sem liðið hefur misst nokkra afar öfluga leikmenn.

Fyrirliði liðsins, Knútur Rúnar Jónsson, ákvað eftir tímabilið í fyrra að söðla um og ganga í raðir Víkings Reykjavíkur. Þetta er mikil blóðtaka fyrir Víði enda var Knútur markahæsti leikmaður liðsins þrátt fyrir að spila sem miðjumaður en hann gerði 12 mörk í 20 leikjum. Annar öflugur leikmaður, Björn Bergmann Vilhjálmsson, hélt til Noregs og mun hann ekki leika með Víði í sumar. Einar Karl Vilhjálmsson hefur ekkert leikið með liðinu í vetur og þá er spurning hvort útlendingarnir frá því í fyrra komi aftur. Þeir Marko Blagojevic og Slavisa Mitic léku stórt hlutverk á síðustu leiktíð og það eru því ansi stór skörðin sem Steinar Ingimundarson þarf að fylla upp í.

Til að styrkja liðið hefur Steinar fengið nokkra leikmenn sem við fyrstu sýn virðast ekki hafa sömu gæði og þeir sem hafa yfirgefið liðið. Fyrstan ber að nefna Jóhann Helga Aðalgeirsson en hann kemur frá GG. Jóhann hefur leikið með Grindavík í efstu deild og einnig leikið með Njarðvík. Hann kemur til með að styrkja liðið í baráttunni í sumar. Björn Ingvar Björnsson kemur frá Reyni Sandgerði en hann lék alla leiki liðsins í Lengjubikarnum og skoraði í þeim tvö mörk. Garpur Elísabetarson kemur frá KV en hann er bróðir Jökuls Elísabetarsonar. Steinar hefur einnig náð í nokkra unga leikmenn frá Fjölni og Fylki. Matthías Björnsson og Trausti Friðbertsson koma frá Fjölni og þá kemur Ottó Marínó Ingason frá Fylki.

Árangur Víðis í Lengjubikarnum var mjög slakur. Liðið fékk aðeins fjögur stig úr 5 leikjum og skoraði aðeins þrjú mörk í fimm leikjum. Hlutskipti liðsins er ólíkt því sem var á síðustu leiktíð þegar liðið vann sinn riðil örugglega með fullu húsi stiga. Steinars Ingimundarsonar bíður því erfitt verkefni að púsla saman öflugri liðsheild fyrir sumarið.

Styrkleikar: Heimavöllurinn er mikil gryfja en völlurinn er einn skemmtilegast og besti völlur landsins. Liðið halaði 24 stigum þar í fyrra af 33 mögulegum og í sumar verður annað eins að vera upp á teningnum. Víðir er stemningslið og það getur fleytt liðinu langt í sumar.

Veikleikar: Sóknarleikurinn virðist vera ákveðinn höfuðverkur fyrir Steinar Ingimundarson. Liðið er búið að missa Slavisa Mitic og Björn Bergmann úr framlínunni og þá er Knútur Rúnar Jónsson horfinn á braut. Þessir leikmenn skoruðu tæplega helming marka liðsins í fyrra og það er vandséð hvernig þetta verður leyst í sumar. Lengjubikarinn gefur í það minnsta ekki góð fyrirheit hvað sóknarleikinn varðar.

Þjálfari: Steinar Ingimundarson hefur náð afar góðum árangri með Víði en hann er margreyndur þjálfari og leikmaður. Lék með Leiftri og KR meðal annars á sínum tíma en komst fyrst á sjónarsviðið sem þjálfari þegar hann kom Fjölni upp í 1. deild á sínum tíma. Hefur sannað ágæti sitt sem þjálfari og fær krefjandi verkefni í sumar.

Lykilmenn: Atli Rúnar Hólmbergsson, Haraldur Axel Einarsson og Rúnar Dór Daníelsson.

Komnir: Andri Þór Guðjónsson frá Þrótti V, Björn Ingvar Björnsson frá Reyni, Garpur I Elísabetarson frá KV, Gísli Örn Gíslason frá Keflavík, Helgi Eggertsson frá Keflavík, Jóhann Helgi Aðalgeirsson frá GG, Matthías Björnsson frá Fjölni, Ottó Marinó Ingason frá Fjölni, Trausti Friðbertsson frá Fjölni.

Farnir: Björn Bergmann Vilhjálmsson til Noregs, Bojan Djordjevic til Serbíu, Bojan Jovanovic til Serbíu, Knútur Rúnar Jónsson til Víkings R., Marko Blagojevic til Serbíu, Nebojsa Stankovic til Serbíu, Ragnar Smári Guðmundsson í Víking Ó., Slavisa Mitic til Serbíu,


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. Víðir Garði 150 stig
6. Tindastóll 127 stig
7. Höttur 126 stig
8. Magni 100 stig
9. KS/Leiftur 85 stig
10. BÍ/Bolungarvík 83 stig
11. ÍH/HV 63 stig
12. Hamar 51 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner