Wolves reynir við Sancho - Arsenal skoðar aðra kosti - Garnacho á förum?
   þri 12. maí 2009 13:01
Magnús Már Einarsson
LU 1.umf. Pepsi-deild: ,,Með miklu sterkara byrjunarlið en í fyrra''
Tómas Joð Þorsteinsson (Fylki) er leikmaður 1.umferðar í Pepsi-deild karla
Tómas í leiknum í fyrradag.
Tómas í leiknum í fyrradag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tómas Joð Þorsteinsson, vinstri bakvörður Fylkis, er leikmaður 1.umferðar í Pepsi-deilda karla hér á Fótbolta.net. Tómas átti góðan leik þegar að Fylkir lagði Val 1-0 í fyrstu umferðinni.

Tómas Joð Þorsteinsson
Tómas Joð Þorsteinsson er tvítugur vinstri bakvörður. Tómas er uppalinn í Fylki en í fyrra var hann í láni hjá Aftureldingu. Þá lék Tómas á vinstri kantinum með liðinu en hann var valinn í lið ársins í annarri deildinni eftir góða frammistöðu. Á undirbúningstímabilinu hefur Tómas síðan verið fastamaður í liði Fylkis en leikurinn gegn Val var hans fyrsti leikur í efstu deild.
,,Þetta var frábær byrjun á mótinu og þetta hefði ekki getað verið betra," sagði Tómas við Fótbolta.net í dag.

,,Við kepptum við Val á undirbúningstímabilinu og unnum þá þannig að ég vissi alveg að við gætum unnið þá þrátt fyrir að við værum ekki líklegri. Við vorum að berjast allan tímann og uppskárum eins og við sáðum."

Í fyrra enduðu Fylkismenn í níunda sæti deildarinnar en Tómas telur að byrjunarliðið sé sterkara í ár.

,,Við eigum klárlega að geta verið ofar en í fyrrasumar því að við erum með miklu sterkara byrjunarlið heldur en í fyrra. Breiddin er ekki nægilega góð hjá okkur núna en fyrstu 11 eru sterkari en í fyrra að mínu mati."

Dönsku leikmennirnir Allan Dyring og Peter Gravesen yfirgáfu báðir Fylki í vetur sem og fleiri leikmenn eins og Ian Jeffs og Haukur Ingi Guðnason.

,,Ég vil meina að þetta hafi verið jákvætt skref fyrir liðið að missa Danina tvo, bæði fóboltalega séð og fjárhagslega séð fyrir félagið. Þeir voru örugglega á fáránlegum launum og þeir voru ekkert að gera."

,,Haukur Ingi er líklega mikilvægasti maðurinn sem hefur farið en við erum með góða menn sem hafa komið inn í hans stað og við fyllum upp í þetta."


Tómas er einn af nokkrum ungum leikmönnum sem eru í byrjunarliðinu hjá Fylki en hann segir að stemningin í hópnum sé góð.

,,Við þekkjumst mjög vel. Við höfum spilað saman í gegnum tíðina og stemningin er mjög góð. Við erum með reynslubolta inn á milli eins og Valur, Óli Stígs og Fjalar og þeir halda manni gangandi," sagði Tómas en Fylkismenn hafa sýnt mikla baráttu í leikjum sínum í vor og ekki gefið þumlung eftir.

,,Það á enginn skilið virðingu frá okkur í þessari deild þannig að við ætlum ekki að sýna neina virðingu. Við mætum bara í hvern leik til að vinna hann."

Í fyrra var Tómas í láni hjá Aftureldingu í annarri deildinni og hann telur að það hafi hjálpað sér.

,,Ég fékk að spila fáránlega mikið hjá Aftureldingu í góðu liði. Ég fékk að spila í liði sem var að spila góðan fótbolta og gekk vel. Við enduðum í 2.sæti í 2.deildinni og unnum flesta leikina. Að fá sigurtilfinninguna er gríðarlega mikilvægt fyrir mann. Ég held að maður þroskist rosalega mikið á því."

Tómas kom síðan aftur til Fylkis í vetur en hann bjóst þó ekki við að vinna sér strax sæti í byrjunarliðinu.

,,Nei, satt að segja ekki. Ég bjóst við því að þetta myndi kannski koma einhverntímann í sumar. Ég bjóst við að vera vara vinstri bakvöðrður og síðan myndi ég kannski detta inn ef einhver færi í leikbann."

,,Ég náði sem betur fer að standa mig vel á undirbúningstímabilinu og ég er kominn til að vera. Ég er sem betur fer mjög sjaldan meiddur þannig að ég ætti að geta verið þarna áfram ef ég spila minn leik,"
sagði Tómas að lokum við Fótbolta.net.
Athugasemdir