Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   mið 13. maí 2009 23:44
Fótbolti.net
Umfjöllun: Mark frá Alfreð tryggði Blikum þrjú stig í Eyjum
Einar Kristinn Kárason skrifar frá Vestmannaeyjum
Tonny Mawejje og Kristinn Jónsson í leiknum í kvöld.
Tonny Mawejje og Kristinn Jónsson í leiknum í kvöld.
Mynd: Óskar Pétur Friðriksson/Fréttir
Mynd: Óskar Pétur Friðriksson/Fréttir
Mynd: Óskar Pétur Friðriksson/Fréttir
Mynd: Óskar Pétur Friðriksson/Fréttir
Alfreð skoraði sigurmarkið í kvöld.
Alfreð skoraði sigurmarkið í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
ÍBV 0 - 1 Breiðablik
0-1 Alfreð Finnbogason

Leikurinn fór skemmtilega af stað en það voru gestirnir sem léku undan vindi í fyrri hálfleik. Blikar áttu fyrsta skot leiksins úr aukaspyrnu langt utan af velli en boltinn vel yfir. Á fimmtu mínútu fengu Eyjamenn sitt fyrsta færi en þá fékk Tonny Mawejje boltann fyrir utan teig eftir sendingu utan af kanti frá Þórarni Inga, en skot hans ekki fast og Ingvar Kale í marki blika átti ekki í neinum vandræðum með það.

Mikill vindur var á Hásteinsvelli og áttu bæði lið erfitt með að halda boltanum niðri.
Eftir um 9.mínútna leik fékk Andri Ólafsson gott skotfæri rétt fyrir utan teig en vindurinn greip boltann og hann hátt yfir.

Stuttu síðar fékk Olgeir Sigurgeirsson boltann fyrir utan teig Eyjamanna, fór þar auðveldlega framhjá 2 leikmönnum ÍBV og skaut góðu skoti að marki en Albert Sævarsson í marki ÍBV gerði vel að halda boltanum. Eins gott þar sem Alfreð Finnbogason framherji Blika beið eins og gammur inni í teignum.
Stuttu seinna var Kristinn Steindórsson svo nálægt því að sleppa einn í gegn eftir mistök í Eyjavörninni en Albert var fljótur út að hirða boltann. Strax í næstu sókn var Ajay Leigh-Smith í sömu stöðu en Ingvar, kollegi Alberts, gerði vel með flottu úthlaupi.

Eftir 20. mínútna leik voru Eyjamenn ívið sterkari og beittu öflugum skyndisóknum.. Viðar Örn Kjartansson var einungis hársbreidd frá því að fá boltann í ákjósanlegu færi eftir sendingu Andra en Ingvar samkvæmur sjálfum sér og hirti boltann.
Blikar vildu svo fá víti stuttu seinna þegar Eiður Aron Sigurbjörnsson renndi sér fyrir Alfreð og virtist sópa boltanum undan honum með höndinni, en Kristinn Jakobsson var ekki á sama máli og lét leikinn halda áfram.

Finnur Orri Margeirsson átti svo fínt skot að marki eftir um hálftíma leik en Albert gerði vel í að grípa boltann. Blikar voru duglegir að nýta sér vindinn og á 33. mínútu var Alfreð nálægt því að komast í gegn eftir sendingu frá Kristni en hún örlítið of föst og endaði hjá Albert í markinu.

Gestirnir urðu svo fyrir áfalli þegar fyrirliði þeirra, Arnar Grétarsson, haltraði af leikvelli eftir að hafa fengið högg á vinstra hné, en í hans stað kom Guðmundur Kristjánsson.

Þegar um sjö mínútur voru eftir af fyrri hálfleik átti Ajay, Englendingurinn ungi sem er í láni frá Crewe, fína sendingu inn á Viðar Örn en Ingvar kom út og hrifsaði boltann rétt áður en Viðar komst að honum. Strax í næstu sókn átti Kristinn Steindórsson vægast sagt frábært skot sem hafnaði í þverslá Eyjamanna og fór þaðan í jörðina, aftur upp í slánna og út. Eyjamenn þarna stálheppnir, en það var eiginlega ótrúlegt að boltinn vildi ekki inn.

Rétt fyrir hálfleik var Matt Garner nálægt því að koma Eyjamönnum yfir þegar hann potaði boltanum undan tánum á Guðmanni Þórissyni eftir fyrirgjöf Arnórs Eyvars Ólafssonar en Ingvar Kale var vel vakandi. Þetta reyndist það síðasta sem gerðist áður en liðin gengu til búningsherbergja. Ekkert var um breytingar í hálfleik fyrir utan að kannski bætti aðeins í vind.

Strax í byrjun seinni hálfleiks átti Olgeir hörkuskot að marki en Albert gerði frábærlega í að verja og halda boltanum. Strax í næstu sókn fékk Alfreð boltann inn fyrir vörn Eyjamanna og setti boltann auðveldlega framhjá Albert í marki ÍBV. Það var sem heimamenn væru búnir að ákveða að um rangstöðu væri að ræða en þeir einfaldlega hættu og leyfðu Alfreð að klára færið án nokkurar truflunar. Það virtist þó að aðstoðardómarinn hefði rétt fyrir sér og að Kristinn, samherji Alfreðs í framlínunni hefði verið rangstæður, en ekki Alfreð sjálfur. Blikar þar með komnir yfir á Hásteinsvelli eftir um 10. mínútna leik í seinni hálfleik.

Lítið markvert gerðist þangað til eftir um klukkustundar leik þegar Ajay átti flotta sendingu fyrir mark Blika og þar var mættur Pétur Runólfsson, en hann náði ekki til boltans en það gerði Viðar Örn, en skot hans laflaust. Heimamenn töldu að brotið hefði verið á Viðari en Kristinn dómari var ekki á sama máli. ÍBV sóttu meira eftir að hafa lent undir, án þess þó að skapa sér nein alvöru færi.

Á 70. mínútu gerði Heimir Hallgrímsson þjálfari ÍBV svo sína fyrstu skiptingu en útaf fór Pétur Runólfsson og inn kom Augustine ,,Gústi” Nsumba, einn þriggja Úganda manna í liði Eyjamanna. Heimir að gera sókndjarfa skiptingu í von um að setja jöfnunarmarkið.
Andrew ,,Siggi” Mwesigwa nældi sér svo í gult spjald stuttu seinna er hann tók Kristinn Jónsson niður en hann var á góðri leið með að sleppa einn upp kantinn.

Eyjamenn áttu, eins og áður sagði, í töluverðum erfiðleikum með að skapa sér færi en tilraunir þeirra voru mestmegnis fyrirgjafir og Ingvar í engum vandræðum. Elías Ingi Árnason kom svo inn fyrir Eið Aron, og þarna fór út miðvörður fyrir framherja í liði heimamanna.

Mínútu síðar kom seinasta skipting ÍBV en þá kom Ingi Rafn Ingibergsson inn fyrir Viðar Örn Kjartansson, sem hafði ekki úr miklu að moða þessar 85. mínútur sem hann spilaði.

Á lokamínútu leiksins fékk Elías Ingi boltann fyrir utan teig og skaut ágætisskoti að marki Blika en beint á Ingvar.

Í uppbótatíma kom Andrew Mwesigwa boltanum framhjá Ingvari og í mark, en það var réttlega dæmt af þar sem Andrew tók svokallaða ,,hönd Guðs”. Kristinn Jakobsson var ekki í neinum vafa og sýndi Andrew sitt annað gula spjald og þar með rauða.
Andri Ólafsson fékk hálffæri strax í næstu sókn en það kom með skalla eftir hornspyrnu, en boltinn yfir markið.

Þá flautaði Kristinn Jakobsson leikinn af og Blikar hér að vinna sterkan sigur á Eyjamönnum í frekar daufum leik.
Athugasemdir
banner
banner