Marel Baldvinsson skoraði eitt mark og lagði upp annað þegar að Valur sigraði Fjölni 3-1 í 2.umferð Pepsi-deildar karla í dag. Marel lét varnarmenn Fjölnis hafa mikið fyrir hlutunum allan leikinn en hann er leikmaður umferðarinnar hér á Fótbolta.net.

Marel Baldvinsson er uppalinn Bliki. Hann fór í atvinnumennsku árið 2000 og lék með Stabæk í Noregi og Lokeren í Belgíu áður en hann kom aftur til Blika árið 2006. Hann lék vel sumarið 2006 og var í kjölfarið keyptur til Molde. Marel lék þar sumarið 2007 en fyrir síðasta tímabil gekk hann aftur til liðs við Blika. Á vordögum gekk Marel síðan til liðs við Val.
Valsarar léku vel í gær og annað var sjá til liðsins en gegn Fylki í fyrstu umferðinni.
,,Þetta var annað hugarfar. Við vorum hræðslulausir, við vorum svolítið hikandi og til baka á sunnudaginn en í gær var kýlt á þetta frá fyrstu sekúndu. Allir lögðust á eitt í að gefa sig alla í þetta og fyrsti hálftíminn í gær var alveg frábær hjá okkur."
Marel byrjaði á varamannabekknum gegn Fylki en hann er að jafna sig af meiðslum.
,,Ég kom til Vals tveimur vikum fyrir mót og var að komast inn í hlutina. Síðan tognaði ég á liðbandi í hægra hné og var ekki alveg heill. Ég er í raun ennþá að basla með það en það skánar með degi hverjum."
Marel kom til Vals frá Breiðablik á dögunum en hann hefur lítið spilað fótbolta í allan vetur.
,,Ég hef aðallega verið að hlaupa úti á Álftanesi. Ég var að hlaupa strandlengjuna þar og síðan kíkti ég í ræktina líka. Það er skemmtilegra í fótbolta en við skulum vona að þetta hafi verið góður undirbúningur fyrir sumarið."
,,Það var kannski extra hungur í gær af því að maður er búinn að vera svona lítið í bolta síðan í fyrra. Það var extra spenningur í manni, það er ekki hægt að neita því."
Í leiknum í gær átti Marel magnaðan sprett í síðari hálfleik þar sem hann lék á nokkra varnarmenn áður en Fjölnismenn hreinsuðu í horn. Marel sýndi þarna á sér nýja hlið enda ekki þekktur fyrir að leika á marga andstæðinga í einu.
,,Það kom eitthvað yfir mig og það var gaman að því að sýna sparihliðarnar. Það er alltaf gaman að brydda upp á einhverjum nýju," sagði Marel sem kunni vel við að leika með Helga Sigurðssyni í framlínunni í gær.
,,Það var draumur að spila með honum frammi í gær. Það er gott að spila með gæa sem er á hreyfingu hverja einustu sekúndu og gefur varnarmönnum aldrei frið. Þetta skapar svæði fyrir aðra og Helgi var að spila mjög vel í gær. Mér fannst við ná vel saman, við erum ólíkar týpur og ég held að það passi vel."
Fáir dagar eru á milli leikja í fyrstu umferðunum og Valsarar eiga næst leik á mánudag þegar að þeir heimsækja Keflavík.
,,Það verður erfiður leikur og við verðum að koma okkur niður á jörðina eftir fínan leik í gær og einbeita okkur að því. Þetta verður erfiður leikur, Keflavík er með hörkulið og það verður gaman að glíma við þá," sagði Marel að lokum.
Sjá einnig:
Leikmaður 1.umferðar - Tómas Joð Þorsteinsson (Fylkir)
Athugasemdir