Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fim 18. júní 2009 23:31
Alexander Freyr Tamimi
VISA-bikar umfj.: Íslandsmeistararnir sigruðu reynsluboltana
Leikmenn IFC tóku armbeygjur eftir fyrsta markið.
Leikmenn IFC tóku armbeygjur eftir fyrsta markið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tómas Ingi nær að skora en markið var dæmt af vegna rangstöðu.
Tómas Ingi nær að skora en markið var dæmt af vegna rangstöðu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leikmenn IFC tóku magaæfingar eftir annað markið.
Leikmenn IFC tóku magaæfingar eftir annað markið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar Þór Pétursson tók Sverri Sverrisson á háhest til að verjast aukaspyrnu frá Tryggva Guðmundssyni.
Gunnar Þór Pétursson tók Sverri Sverrisson á háhest til að verjast aukaspyrnu frá Tryggva Guðmundssyni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hjörtur Logi Valgarðsson fékk að finna fyrir því eftir þriðja markið.
Hjörtur Logi Valgarðsson fékk að finna fyrir því eftir þriðja markið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tómas Ingi með boltann.
Tómas Ingi með boltann.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Finnur Kolbeinsson á sprettinum.
Finnur Kolbeinsson á sprettinum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
IFC (Carl) 0 – 3 FH
0-1 Hákon Hallfreðsson (´47)
0-2 Freyr Bjarnason (´78)
0-3 Hjörtur Logi Valgarðsson (´90)

Íslandsmeistarar FH unnu sanngjarnan en ekkert allt of sannfærandi 3-0 sigur á utandeildarliði IFC (Carl) í 32 liða úrslitum VISA-bikarsins á Leiknisvelli í kvöld en frammistaða Hafnfirðinganna var þó aldrei sannfærandi og voru þeir fremur slakir stærstan hluta leiksins.

Heimir Guðjónsson þjálfari leyfði mörgum ungum og efnilegum leikmönnum að spreyta sig í stað þess að taka sjálfur upp skóna en það má í raun segja að þeir hafi ekki svarað kallinu því að utandeildarliðinu tókst ágætlega að bregðast við sóknum þeirra oft á tíðum.

Þrátt fyrir að fótboltinn sem boðið var upp á hafi ekki verið hinn skemmtilegasti voru margar stórkostlegar uppákomur í þessum leik, en allur ágóði af miðasölutekjum rann til góðgerðarmála og var aðsókn góð.

FH-ingar voru skiljanlega meira með boltann til að byrja með og tóku þeir strax völdin. Á 6. mínútu átti Matthías Vilhjálmsson skot sem markvörður Carl varði glæsilega. Skömmu síðar átti Björn Daníel Sverrisson skot naumlega yfir og var það ljóst að róðurinn yrði þungur fyrir gömlu kempurnar í Carl.

Það munaði ótrúlega litlu að Carl hefði náð að komast yfir eftir langt innkast frá Tómasi Inga Tómassyni sjónvarpsmanni. Innkast hans barst inn í teiginn og endaði það á kolli eins leikmanns Carl sem skallaði knöttinn naumlega framhjá.

FH-ingarnir voru eins og gefur að skilja með tögl og haldir í leiknum en þeir voru samt sem áður slakir og skorti þá allt frumkvæði fram á við. Þeir virtust vera að reyna að gera hlutina mun flóknari en nauðsyn var og virtust þeir ungu strákar sem fengu tækifæri í leiknum ekki hafa mikinn áhuga á að sanna sig fyrir Heimi.

Þeir voru oft nálægt því að skora og átti Tryggvi Guðmundsson meðal annars skot í þverslána úr aukaspyrnu og auk þess bjargaði varnarmaður Carl á marklínu með kolli sínum þegar rúmur hálftími var liðinn af leiknum.

Stuðningsmenn FH voru orðnir frekar óþreyjufullir þegar líða tók á síðari hálfleikinn en ekkert gerðist. Carl náði nokkrum sinnum að skapa hættu eftir föst atriði og voru þá löng innköst Tómasar Inga hvað mest ógnandi. Gömlu kempurnar notuðu líka hvert tækifærið til að hægja á leiknum og vinna sér inn nokkrar sekúndur og tókst þeim það með prýði.

Augljós munur var á líkamlegu formi liðanna en leikmenn Carl sýndu oft lipra takta og minntu á að þeir kynnu alveg að spila fótbolta. FH-ingarnir, sem áttu að vera að rúlla yfir þá, náðu oft að fara illa með þá með hraða sínum en það náði þó ekki mikið lengra en það.

Staðan var enn markalaus þegar haldið var til búningsklefanna í þessum góðgerðarleik og var það sjálfsagt eitthvað sem fáir bjuggust við. Í hálfleik stóð svo Gunnleifur Gunnleifsson landsliðsmarkvörður á milli stanganna og reyndi að verja vítaspyrnur til góðgerða.

Það var ekki langur tími liðinn af síðari hálfleiknum þegar FH náði forystunni en þar var á ferð Hákon Hallfreðsson eftir klafs í vítateignum. Leikmenn Carl voru klaufalegir í vörninni og tókst Hákoni að nýta sér það. Leikmenn Carl refsuðu sjálfum sér fyrir klaufaskapinn með því að leggjast allir á grasið og gera armbeygjur, áhorfendum til mikillar lukku.
FH efldist örlítið við markið og rúmri mínútu síðar bættu þeir við öðru marki sem dæmt var af vegna rangstöðu. Það var þó enn vart við áhugaleysi innan liðsins og voru það fáir leikmenn sem voru að sýna sínar bestu hliðar inni á vellinum.

Gömlu kempurnar í Carl lögðu oft upp með að dæla boltunum fram á Tómas Inga sem var í fremstu víglínu og sýndi hann oft á tíðum að hann hefði engu gleymt. Móttökur Tómasar voru góðar og hann sýndi oft ágætis boltafimi en hann virkaði þó aðeins þungur á sér við hliðina á ungum og sprækum FH-ingunum.

Heppnin lék stundum við leikmenn utandeildarliðsins og náðu þeir meðal annars að bjarga á marklínu eftir hornspyrnu.

Á 66. mínútu átti sér eitt af mörgum stórskemmtilegum atvikum leiksins þegar FH fékk aukaspyrnu á hættulegum stað. Leikmenn Carl ákváðu að stilla upp heldur óhefðbundnum varnarvegg og tók Sverrir Sverrisson sig til og sat á öxlum Gunnars Péturssonar. Minnstu munaði að aukaspyrnan sem Tryggvi Guðmundsson tók hefði endað í Sverri og hefðu afleiðingarnar þá líklega orðið geigvænlegar. Spyrnan stefndi aftur á móti framhjá veggnum og að markinu en Jörundur í marki Carl varði frábærlega.

Það var óhætt að segja það að leikmenn Carl væru þyngri í sporum en andstæðingar sínir en miðað við líkamlegt form gekk þeim ótrúlega vel að halda Íslandsmeisturunum í skefjum. Jörundur tók sig til á einum tímapunkti og straujaði FH-ing inni í teig eftir að hafa misst hann framhjá sér en dómarinn taldi að um löglega tæklingu hafði verið að ræða og hélt leikurinn því áfram.

Á 76. mínútu ætlaði allt um koll að keyra þegar Tómas Ingi Tómasson skoraði mark eftir frábært þríhyrningsspil með Herði Má Magnússyni. Tómas fékk boltann þá einn á móti Gunnari Sigurðssyni í marki FH og afgreiddi boltann glæsilega í netið líkt og hann hefði engu gleymt. Markið var aftur á móti dæmt af vegna rangstöðu og var það klárlega vafasamt.

Hlutirnir breytast fljótt í fótbolta og það fengu leikmenn Carl að upplifa því að strax í næstu sókn komst FH í 2-0 og gerði nánast út um leikinn. Þar var á ferð Freyr Bjarnason og var mark hans af ódýrari gerðinni eftir klaufaskap í vörn utandeildarliðsins.

Líkt og í fyrra markinu voru leikmenn Carl mjög dómharðir á sjálfa sig og lögðust þeir í grasið og gerðu magaæfingar.

Minnstu munaði að Hörður Már Magnússon hefði minnkað muninn fyrir Carl undir restina þegar hann átti frábæran sprett þar sem hann lék á hvern FH-inginn á eftir öðrum. Hörður fór illa með varnarmenn FH og komst í prýðilegt skotfæri en Gunnar Sigurðsson í markinu varði glæsilega frá honum.

Líkt og þegar Tómas skoraði var Carl fljótlega refsað og skoraði Hjörtur Logi Valgarðsson þriðja mark FH í uppbótartíma. Fagnaðarlætin eftir markið voru vægast sagt sprenghlægileg því leikmenn IFC (Carl) fögnuðu eins og óðir væru, hlupu allir að Hirti Loga og drógu hann í grasið þar sem þeir kysstu hann og knúsuðu. Enn eitt skemmtilegt atvikið í leiknum og var greinilegt að leikmenn Carl tóku þessu öllu á léttu nótunum.

Skömmu síðar var flautað til leiksloka og voru lokatölur því 3-0 fyrir FH gegn IFC (Carl) í fremur slökum fótboltaleik en jafnframt skemmtilegum. Létt var yfir leikmönnum Carl sem reittu af sér brandarana á meðan leik stóð en FH-ingarnir voru oft á tíðum örlítið pirraðri og áttu þeir mjög slakan dag. Það kom þó ekki að sök því að þegar öllu var á botninn hvolft var gæðamunurinn á liðunum talsverður.

Mætingin á völlinn var góð og því ætti að hafa safnast dágóð upphæð til góðgerðarmála. Þessi leikur var fyrst og fremst hugsaður sem skemmtun fyrir áhorfendur og telur undirritaður að það hafi heppnast prýðilega.

Tómas Ingi Tómasson, leikmaður IFC Carl
„Þetta var rosa gaman og það gerði þetta ennþá skemmtilegara að geta haldið þessu í núlli inn í hálfleikinn. Við vorum aðeins of slakir í byrjun og hleyptum þeim strax inn í leikinn en þeir eru bara miklu betri. Við komum inn í þetta til að hafa gaman af þessu og við höfðum það allir og ég vona að áhorfendur og FH-ingar hafi notið þess líka. Menn voru orðnir uppgefnir strax í hálfleik en það kemur alltaf pínu auka kraftur í fótbolta en við fengum svona smá „boost“ í lokin, en í heildina litið var þetta mjög réttlátt allt saman. Mér sýndist vera ágætis mæting og ég vona bara að það hafi komist sem mest í kassann. Svo voru það vítin í hálfleik sem gáfu ennþá meira í kassann fyrir þessi góðu málefni og þetta var bara frábært.“

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH
„Þetta hefði átt að vera formsatriði en var það ekki. Við vorum ljónheppnir að vera ekki undir í hálfleik vegna þess að þeir voru hættulegir í þessum föstu leikatriðum. En svo reynum við að gera þetta eins og menn í seinni hálfleik og ég held að þetta hafi verið sanngjarnt. Þetta var langt frá því að vera glansleikur hjá mínum mönnum og það er oft þannig í svona leikjum að menn detta niður á lægra plan og hugarfarið er ekki í lagi, og þegar hugarfarið er ekki í lagi er FH liðið alveg jafn lélegt og hin. En leikmenn Carl höfðu gaman af þessu. Þeir voru að skemmta sjálfum sér, okkur og áhorfendum og það var bara mjög gaman af þessu. Það er samt pottþétt að við þurfum að vera betri í næstu umferð, ef við spilum svona í næsta leik þá drullutöpum við, sama hverjum við mætum. En það er fínt að vera kominn áfram og vonandi fáum við heimaleik næst.“

Tryggvi Guðmundsson, leikmaður FH
„Þetta var alveg skelfilegur leikur, verð ég að viðurkenna. Þarna fengum við varamennirnir, eða eins og ég vil kalla okkur, pappakassarnir, leik til að sýna hvað í okkur býr og þetta var ekki upp á marga fiska. Auðvitað tala menn um það fyrir leik að þeir verða að mæta með rétt hugarfar í leikinn og við gerðum það klárlega ekki. Fyrri hálfleikurinn var bara afspyrnuslakur og svo fáum við mark snemma í seinni hálfleik. Ég var í raun aldrei smeykur eftir það en ég hefði viljað sjá okkur klára leikinn af einhverju viti. Við gerðum það aldrei og tempoið var fyrir neðan allar hellur. En það er virkilega gaman að þessir drengir, sem maður þekkir nú nokkuð vel suma (IFC Carl), hafi komist svona langt og auðvitað gaman fyrir þá að rifja upp gamla takta á móti Íslandsmeisturunum. Kannski svolítið hættulegt að við duttum inn á sama „level“ og þeir. En þetta var frábært; fínt veður, ágætis völlur og gaman af þessu. Ég vona bara að við fáum einhvern stórleik í 16 liða úrslitum. Stórleikir virðast henta okkur betur en eitthvað svona, við sýndum allavega ekki mikið í kvöld.“

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner