KR-ingar vilja halda norska markverðinum Andre Hansen áfram í sínum herbúðum. Hansen kom til KR á láni frá Lilleström í lok júlí en á sama tíma fór Stefán Logi Magnússon til norska félagsins á láni.
,,Við ætlum að reyna allt sem við getum til að halda honum. Hann er fyrsti kostur hjá okkur og við viljum halda honum en það verður alls ekkert auðvelt. Við viljum fá hann á láni í eitt ár í viðbót," sagði Rúnar Kristinsson yfirmaður knattspyrnumála hjá KR í samtali við Fótbolta.net í dag.
Lilleström gæti keypt Stefán Loga eftir að tímabilinu lýkur í Noregi og þá vilja KR-ingar halda Hansen.
,,Þetta gengur allt út á að þeir gangi frá kaupum á Stefáni. Það var samkomulag á milli félagana á sínum tíma að skoða málin í lok leigutímans."
Landsliðsmarkvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson hefur verið sterklega orðaður við FH og Kr en Rúnar segir að Vesturbæjarliðið hafi ekki rætt við hann þar sem að Hansen sé fyrsti kostur.
,,Við höfum ekkert talað við Gunnleif og erum ekki búnir að taka ákvörðun um það hvort við tölum um hann. Það getur vel verið að við heyrum í honum hljóðið en það hefur engin ákvörðun verið tekinn um það," sagði Rúnar.
Athugasemdir