Helena Ólafsdóttir fyrrverandi þjálfari kvennalandsliðs Íslands er snúin aftur í þjálfun en hún skrifaði rétt í þessu undir tveggja samning þess efnis að þjálfa lið Selfoss sem leikur í 1. deild kvenna.
Helena hefur ekkert þjálfað síðan hún hætti með KR fyrir rúmu ári síðan en hún kvaddi liðið með bikarmeistaratitli eftir að hafa rúllað yfir Íslandsmeistara Vals í úrslitaleik á Laugardalsvelli.
Eftir það ákvað hún að taka sér hlé frá þjálfun en nú ári síðar snýr hún aftur og tekur við ungu og efnilegu liði Selfoss.
Helena var þjálfari A-landsliðs kvenna árin 2003 og 2004 en hafði fyrir það verið þjálfari Vals 2002 og 2003. Hún tók svo við KR í ágúst 2005 þegar Íris Björk Eysteinsdóttir varð að taka sér hlé vegna barneignar.
Þar var hún svo þar til síðasta haust er hún ákvað að taka sér hlé frá þjálfun.
Selfoss var að leika í fyrsta sinn í meistaraflokki kvenna í sumar og endaði í 3. sæti A-riðils. Liðið tapaði svo samanlagt 5-4 í umspili gegn 1. deildarmeisturum Hauka en sigurmarkið þar kom í uppbótartíma.
Athugasemdir