Guðmundur Pétursson er genginn til liðs við Breiðablik og skrifaði undir þriggja ára samning við félagið í kvöld. Þetta staðfesti Einar Kristján Jónsson formaður knattspyrnudeildar félagsins við Fótbolta.net í kvöld.
Guðmundur hafði fyrr í kvöld hafnað FH um að ganga til liðs við félagið frá KR og valdi Breiðablik sem hann hafði leikið með á láni á seinni hluta síðustu leiktíðar.
Hann skoraði fjögur mörk í 10 deildarleikjum með Breiðablik á síðustu leiktíð auk tveggja marka í þremur bikarleikjum. Hann varð bikarmeistari með Breiðablik á síðustu leiktíð.
Guðmundur Pétursson er 23 ára gamall. Hann hóf meistaraflokksferil sinn með ÍR árið 2004.
Teitur Þórðarson þáverandi þjálfari KR sá hann í leikjum með ÍR í 2. deildinni og fékk hann á láni til KR sumarið 2006 og síðar samdi hann við félagið.
Þar var Guðmundur oftast varamaður en lék í heildina 48 leiki og skoraði í þeim fimm mörk. Hann á að baki einn leik með U21 árs landsliði Íslands.