- Aðalbjörn Hannesson ritar frá Akureyri
KA-menn tóku á móti Gróttu á Þórsvelli í kvöld. Mikið hafði rignt á Akureyri um daginn og rigndi einnig á meðan leik stóð. Grótta tapaði fyrsta leik sínum í deildinni á meðan KA unnu útisigur á Þrótturum.
KA 1 - 1 Grótta
1-0 Haukur Hinriksson ('70)
1-1 Magnús Gíslason ('73)
Leikurinn fór fram á Þórsvelli þar sem Akureyrarvöllur er ekki orðinn klár eftir veturinn. Ekki er að sjá á vellinum hvort sé 14. maí eða 14. júlí svo góður er hann.
Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik, KA-menn voru mun meira með boltann en náðu ekki að skapa sér eitt einasta færi. Grótta fékk aftur á móti færin en markið virtist vera á vitlausum stað í þrígang. Sigurvin Ólafsson skaut rétt framhjá tvisvar sinnum og Magnús Gíslason einu sinni eftir að hann fór lipurlega framhjá einum varnarmanni KA. Markmennirnir vörðu samtals eitt skot en var það Kristján Finnbogason eftir bjartsýnistilraun Daniel Stubbs af 40 metra færi.
Markalaust í hálfleik. KA-menn byrjuðu seinni hálfleikinn af meiri krafti og áttu nokkrar fyrirgjafir inn í teiginn og einnig átti Andri Fannar laglegan sprett upp vinstri kantinn en varnarmaður Gróttu náði að bægja hættunni frá.
Fyrstu alvöru færin komu síðan eftir um klukkutíma leik. Fyrst var Grótta nálægt því að skora úr horni en skallinn fór rétt framhjá. Strax í næstu sókn fékk Daniel Stubbs ágætt færi en Kristján í marki Gróttu sýndi að hann hefur litlu sem engu gleymt og varði boltann vel.
Stuttu síðar átti Dean Martin mjög góðan bolta á David Disztl sem var í markteig gestanna en hitti boltann svo illa að hann endaði í andlitinu á framherjanum en ekki netinu.
Á 71. mínútu dróg til tíðinda þegar Dean Martin tók hornspyrnu beint á kollin á Hauki Hinrikssyni sem skallaði hann óverjandi í mark Gróttu.
KA var ekki lengi yfir en Sigurjón Fannar í vörn KA gaf boltann á besta mann Gróttu í leiknum, Magnús Gíslason, sem lék á einn og skoraði af mikilli yfirvegun. Einungis rúmri mínútu eftir mark Hauks.
Seinasta færi leiksins kom eftir góðan samleik hjá Stubbs og Hallgrími á kantinum sem endaði með að Stubbs sendi boltann inn í á Guðmund Óla sem átti misheppnað skot framhjá á teigslínunni og í kjölfarið flautaði Þóroddur Hjaltalín til leiksloka.