Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   mið 14. júlí 2010 15:01
Alexander Freyr Tamimi
Heimild: The Sun 
The Sun: Alfreð Finnbogason hinn nýji Eiður Smári
Alfreð Finnbogason fær verðugt verkefni þegar Breiðablik mætir Motherwell í Evrópudeildinni.
Alfreð Finnbogason fær verðugt verkefni þegar Breiðablik mætir Motherwell í Evrópudeildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Alfreð Finnbogason leikmaður Breiðabliks er í viðtali við breska dagblaðið The Sun í dag vegna leiks liðsins gegn skoska liðinu Motherwell í Evrópudeildinni. Segir í frétt The Sun að vonir Skotanna um gott gengi í Evrópu séu í hættu vegna þessa íslenska undrabarns.

Alfreð bjó í Edinborg þegar hann var yngri og var grimmur markaskorari í liði Hutchinson Vale. Gengur The Sun svo langt að segja að Alfreð gæti vel verið hinn nýi Eiður Smári Guðjohnsen.

„Skotland á sér einstakan stað í hjarta mínu og það verður frábært að snúa aftur þangað. Ég flutti til Edinborgar þegar ég var níu ára og bjó þar í tvö ár. Pabbi var að læra í háskólanum þarna og ég átti frábærar stundir í Skotlandi. Ég spilaði fyrir lið Hutchinson Vale og við virtumst vinna allt saman," sagði Alfreð.

„Pabbi fór með mig á völlinn að sjá Hearts og Hibernian spila. Ég studdi Hibs en Henrik Larsson var hetjan mín. Hann spilaði sinn besta fótbolta á ferlinum hjá Celtic og ég elskaði að horfa á hann. Hann var ótrúlegur."

„Við yfirgáfum Skotland eftir tvö ár en ég eignaðist marga vini þar og ég hef farið þangað í heimsókn. Það er frábært að snúa aftur og spila Evrópuleik."


The Sun segir svo frá því þegar Alfreð fór á reynslu til Blackpool og telja þeir að hann muni taka stórt stökk á ferlinum í náinni framtíð. Sjálfur segir Alfreð að hann myndi gjarna vilja ná jafn langt og Eiður Smári.

„Eiður Smári er fyrirmynd fyrir unga leikmenn á Íslandi og ég lít upp til hans. Hann hefur spilað fyrir risastór félög á borð við Chelsea og Barcelona og hann er heimsklassa leikmaður. Það verður erfitt en ég myndi virkilega vilja ná að afreka jafn mikið og Eiður," sagði þessi bráðefnilegi Bliki.
banner
banner