Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 15. júlí 2010 13:07
Magnús Már Einarsson
Ólafur Kristjánsson: Tímamót í sögu Breiðabliks
Mynd: Fótbolti.net - Vilhjálmur Siggeirsson
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
,,Þetta eru náttúrulega tímamót í sögu Breiðabliks. Breiðablik er að fara að spila fyrsta Evrópuleikinn í kvöld og það er spennandi og gaman að vera þáttakandi í því. Þegar við förum út í rútu á hótelinu og höldum í leikinn þá er þetta leikur eins og hver annar en í sögulegu samhengi er hann sérstakur fyrir Blika," sagði Ólafur Kristjánsson þjálfari Breiðabliks við Fótbolta.net í dag en liðið mætir Motherwell í Skotlandi í kvöld.

,,Við erum á útivelli á móti ágætlega sterku liði. Við eigum alltaf séns, það er spurning hvernig leikurinn fer í gang og hvernig við erum og hvernig þeir eru. Fyrirfram snýst þetta um að ná góðum úrslitum hérna, þreifa aðeins á þeim og sjá hvað við getum gert heima."

Ólafur horfði á Motherwell leika æfingaleik um síðustu helgi og kynnti sér liðið.

,,Þeir voru að spila dæmigerðan enskan bolta eins og hann var bestur. Þeir voru að spila 4-4-2 en voru líka að prófa aðrar útfærslur með þrjá inni á miðri miðjunni og maður sá að þeir voru að undirbúa sig fyrir að mæta liði sem er með þrjá á miðjunni. Þeir voru líka með þrjá inni á miðjunni í leikjum í deildinni í fyrra. Þessi leikur bar keim af æfingaleik og það var ekki mikið tempó í honum þannig að maður verður að passa sig á því að láta það ekki blöffa sig."

Fjallað hefur verið um leikmenn Breiðabliks í skoskum fjölmiðlum undanfarna daga. Alfreð Finnbogason hefur fengið mikla umfjöllun en honum hefur verið líkt við nokkra þekkta leikmenn. Ólafur hefur trú á að þetta hafi ekki áhrif á Blikaliðið.

,,Alfreð er hógvær og rólegur og hinir líka. Það er helst hann sjálfur sem er að googla þetta og fylgjast með."

,,Þeir hafa verið að spila vel heima margir og eru á þannig aldri að þeir hafa spilað með U21 landsliðinu og sumir verið að þefa af A-landsliðinu. Það er eðlilegt að það er umfjöllun og það er hluti af því að vera í fótboltanum og vera leikmaður að það er umfjöllun."

,,Það reynir á hvort að menn loki á þetta og einbeiti sér að leiknum eða hvort þeir ætli að láta þetta verða til þess að það rignir upp í nefið á þeim. Ég er allavega búinn að láta þá vita að það verður engin stjarna nema í gegnum frammistöðu liðsins."

banner
banner