Breiðablik mætir skoska liðinu Motherwell á Kópavogsvelli klukkan 19:15 í kvöld í síðari leik liðanna í Evrópudeildinni. Blikar þurfa að vinna upp 1-0 forskot Motherwell til að komast áfram.
,,Það er hálfleikur og Skotarnir eru yfir. Ef við náum að halda þeim frá því að skora þá þurfum við eitt mark til að jafna leikinn. Lykillinn er að þeir skori ekki mark því að þá þurfum við strax að gera þrjú og þá er þetta þrautin þyngri," sagði Ólafur Kristjánsson þjálfari Blika við Fótbolta.net í gær.
,,Það er fínt "run" á liðinu. Þó að leikurinn úti hafi tapast þá er engin ástæða til þess að sjálfstraustið fari að minnka. Við nýtum okkur þann meðbyr sem við höfum í augnablikinu til að fá allt það besta út úr þessum leik."
Breiðablik er á toppnum í Pepsi-deildinni en þrátt fyrir þétt leikjaprógram eru engin meiðsli í hópnum.
,,Það eru allir klárir, það er það besta við þetta. Þrátt fyrir mikið leikjaálag þá eru menn frískir og kvarta ekkert," sagði Ólafur sem vonast eftir góðum stuðningi í kvöld.
,,Stúkan hérna í Kópavogi er þekkt fyrir að vera hávaðasöm og með mikinn stuðning. Ég á ekki von á öðru en að það verði á morgun (í dag) líka."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.