Breiðablik mætir Motherwell í Evrópudeildinni í kvöld. Þeir unnu Keflavík 2-0 í seinasta leik sínum.
Alfreð Finnbogason er búinn að vera ein skærasta stjarna Pepsi deildarinnar í sumar. Mun hann skjóta Blikum áfram í Evrópudeildinni í kvöld?
Breiðablik 0 - 1 Motherwell
0-1 Jamie Murphy ('42)
0-1 Jamie Murphy ('42)
Leik lokið: Leik Breiðabliks og Motherwell í Evrópudeildinni í lokið og þar með þátttöku þeirra í Evrópudeildinni í ár. Lélegt lið Motherwell vann 1-0 sigur og 2-0 samtals. Án gríns voru Blikarnir samt mun betri og þetta eru alveg grátleg úrslit. Viðtöl og umfjöllun væntanleg, ekki láta ykkur koma það á óvart ef að smá biturleiki verður í þeirri umfjöllun.
88. mín: Neyðist nú til að srkfia um þetta. Steven Hammell tekur þrumuskot utan teigs og Ingvar Kale blakar boltanum glæsilega yfir markið. Hann hirðir síðan boltann upp úr hornspyrnunni.
87. mín: Maður er svona eiginlega hættur að nenna að skrifa. Kannski er ég bara svona tapsár, eða kannski er ekkert að gerast í þessum leik. Sitt lítið af hvoru.
83. mín: Motherwell gerir skiptingu. John Sutton fer af velli og inn kemur Jamie Pollock.
80. mín: Blikar hafa fengið tvö ágætis færi með skömmu millibili en sem fyrr varð lítið úr því. Tíu mínútur til stefnu og er útlitið orðið heldur svart fyrir Blika, því miður.
78. mín: Blikar gera sína síðustu skiptingu. Kristinn Jónsson fer af velli fyrir Árna Kristinn Gunnarsson.
76. mín: Steven Saunders fær gult spjald fyrir að tefja aukaspyrnu Blika. Lítill tími til stefnu fyrir Kópavogsdrengina því miður, en þeir halda áfram að reyna.
74. mín: Blikarnir halda áfram að reyna. Alfreð Finnbogason á skot rétt yfir. Í kjölfarið gerir Motherwell skiptingu, Ross Forbes fer út af fyrir Chris Humphrey.
73. mín: HVÍLÍK ÓHEPPNI! Boltinn ætlar ekki inn hjá Blikum!! Þeir fá hornspyrnu sem berst inn í teiginn og þar á Elfar Freyr Helgason (eða Kári Ársælsson) skalla sem leikmenn Motherwell bjarga á línu! Ekkert að falla með blessuðum Blikunum!
72. mín: Blikarnir gera skiptingu. Haukur Baldvinsson kemur inn á fyrir Finn Orra Margeirsson. Fínt að fá smá sóknarsinnaða skiptingu inn í þetta.
71. mín: Lítið í spilunum eins og er. Það væri gaman ef Blikunum tækist að skora eins og eitt mark en fátt bendir til þess í augnablikinu.
65. mín: Samkvæmt fjölmiðlafulltrúa Breiðabliks eru 1700 áhorfendur mættir á svæðið.
61. mín: Blikar gera sína fyrstu skiptingu. Guðmundur Pétursson fer út af og Andri Rafn Yeoman kemur inn á.
56. mín: Ross Forbes var hársbreidd frá því að skora úr aukaspyrnu þegar skot hans fór í stöngina og þaðan í Ingvar Kale markvörð. Hann hélt þó boltanum vel og staðan enn einungis 0-1. Ætti að vera svona 5-1...eða 5-2 kannski.
52. mín: Guðmundur Pétursson kemst í ákjósanlegt skotfæri en honum tekst ekki að ná skotinu og reynir hann að rekja boltann í gegnum varnarmenn en það gengur ekki upp. Hann gefur síðan boltann frá sér og sóknin rennur út í sandinn. Stuðningsmenn lýsa yfir óánægju sinni og Ólafur Kristjánsson þjálfari snýr sér við og skammar þá.
48. mín: Dauðafæri!!! Guðmundur Kristjánsson á gott hlaup inn í teig og kemst framhjá markverðinum og þarf einungis að koma knettinum í autt markið en skot hans fer í hliðarnetið. Smá þröngt færi en ef .eir vija eiga einhvern minnsta séns, þá verða þeir að nýta þetta! Grátlegt hvað dauðafærin hafa verið illa nýtt.
46. mín: Síðari hálfleikur er hafinn. Þrjú mörk frá Breiðablik í vændum?
Hálfleikur: Er Ísland að kveðja Evrópukeppnina í ár? Blikarnir voru okkar eina von og nú þurfa þeir að skora þrjú mörk í síðari hálfleiknum. Ef þeir halda samt áfram að fá færi líkt og þeir gerðu í fyrri hálfleik, þá ættu þeir að eiga örlítinn séns, en það er þá eins gott að nýta þetta allt.
Hálfleikur: Ég er með óbragð í munninum, svo einfalt er það. Staðan er 1-0 fyrir Motherwell og Breiðablik þarf að skora þrjú mörk í síðari hálfleiknum ef þeir ætla að jafna metin. Rétt áður en flautað var til leikhlés fékk Guðmundur Pétursson gult spjald fyrir uppsöfnuð brot en hann átti að vera búinn að koma Blikunum yfir, ekki spurning. Stephen Craigan fyrirliði Motherwell fékk einnig gult spjald fyrir að taka aukaspyrnuna áður en dómarinn flautaði. En samt sem áður, gríðarlega svekkjandi að Blikarnir séu undir því að þeir voru alls ekki síðri í þessum hálfleik, jafnvel betri ef eitthvað er. En þetta gerist þegar menn nýta ekki færin sín.
42. mín: Mark! Motherwell kemst yfir eftir klaufagang í vörn Blikanna!! Jamie Murphy fékk stungusendingu inn og var ekki rangstæður og hann tók vel á móti boltanum og kláraði vel. Ingvar Kale náði til boltans en hann lak samt sem áður inn í fjærhornið. Er þetta búið núna?
40. mín: Aukaspyrna Motherwell fer af leikmanni Breiðabliks og í horn. Munu Skotarnir refsa Blikunum fyrir að hafa klúðrað sínum færum? Vonandi ekki!
38. mín: Af hverju var þetta ekki gult spjald?? Steven Jennings gersamlega straujar Alfreð Finnbogason á la Skotland en dómarinn veitir Jennings einungis tiltal. Skömmu síðar brjóta Motherwell aftur illa af sér en ekkert er dæmt. Þeir fá síðan aukaspyrnu skömmu síðar.
36. mín: Dauðafæri hjá Blikum!! Boltinn berst upp á hægri kantinn til Arnórs Sveins Aðalsteinssonar sem á fína fyrirgjöf inn í teig. Varnarmaður Motherwell reynir að hreinsa boltann en hann fer á Guðmund Pétursson sem hefur nægan tíma rétt fyrir utan markteiginn. Skot Guðmundar fer þó beint í varnarmann Motherwell og að lokum ná Skotarnir að bægja sókninni frá. Ótrúlegt að Blikar séu ekki komnir yfir! Gummi Pé verður að nýta færin sín!
33. mín: Guðmundur Pétursson kemst í dauðafæri einn á móti markverði eftir að Kristinn Steindórsson á frábæra stungusendingu en Guðmundur gerir illa og hittir ekki einu sinni á rammann. Vissulega var færið örlítið þröngt en Gummi Pé átti að minnsta kosti að láta markvörðinn hafa fyrir þessu.
31. mín: Ekki mikið að gerast í leiknum undanfarið. Motherwell skora þarna eitt mark en það var búið að dæma rangstöðu fyrir átján árum.
25. mín: Motherwell eiga ágætis sókn sem endar með skoti yfir markið. Blikarnir þurfa að vera aðeins meira á tánum í vörninni, því ein lítil mistök geta kostað þá farmiðann í næstu umferð.
21. mín: Aukaspyrnan frá Kristni Jónssyni er fín en varnarmaður Motherwell skallar knöttinn út úr teignum. Þar berst hann til Jökuls Elísabetarsonar sem á skot rétt yfir markið. Fínasta tilraun hjá Blikunum sem gætu alveg hafa verið búnir að skora með smá snefil af heppni.
19. mín: Leikmaður Motherwell fellur inni í vítateig Blika þegar langt innkast berst þar inn en dómarinn er ekki á þeim buxunum að dæma eitt né neitt þrátt fyrir augljósan vilja Skotans um að fá vítaspyrnu. Annars hefur fátt verið um fína drætti í leiknum seinustu mínúturnar og hafa Motherwell aðeins verið að vinna sig inn í leikinn. Blikarnir hafa samt ekkert gefið eftir og fá hér aukaspyrnu á hættulegum stað á 20. mínútunni.
13. mín: Rangstæður leikmaður Motherwell kemst einn í gegn en Ingvar Kale nær að bjarga. Ekkert var flaggað, hreint með ólíkindum.
12. mín: Ross Forbes tekur aukaspyrnu af talsvert löngu færi fyrir Motherwell en skot hans fer framhjá markinu. Blikarnir eru einfaldlega betri fyrstu mínúturnar og eru meira með boltann.
11. mín: Guðmundur Kristjánsson fær háa sendingu inn í teiginn og nær að taka á móti knettinum en hann fer illa að ráði sínu og reynir að skalla hann í netið, allt of laust, og ekki er Darren Randolph í marki Motherwell í miklum vandræðum.
7. mín: Blikarnir eru bara ferskir til að byrja með! Þeir eiga frambærilega sókn sem endar á því að Guðmundur Pétursson fær knöttinn vel utan teigs og ákveður að láta skotið ríða af en það fer töluvert yfir markið. Gott að ljúka sóknum samt með skoti.
5. mín: Blikar fá aukaspyrnu á ágætis stað fyrir utan teig og hana tekur Jökull Elísabetarson. Hann gefur knöttinn út á hægri kantinn þar sem fyrirgjöf kemur inn í teiginn. Þar er Kári Ársælsson mættur á fjærstöngina og hann nær skallanum sem fer hársbreidd framhjá markinu. Kristinn Steindórsson átti að vera þarna mættur á fjær til að pota knettinum inn en hann var aðeins of seinn. Dauðafæri!
2. mín: Motherwell á fyrstu alvöru sókn leiksins þar sem Ross Forbes gerir ágætlega og kemur knettinum fyrir en þar er enginn gulklæddur í teignum til að klára dæmið.
1. mín: Dömur mínar og herrar, drengir mínar og stúlkur, afar og ömmur, leikurinn er hafinn!! Breiðablik byrjar með knöttinn hér á Kópavogsvelli í kvöld.
19.12: Breiðablik mun spila í sínum hefðbundnu grænu búningum en Motherwell mun aftur á móti klæðast gulum treyjum og vínrauðum stuttbuxum líkt og sjást hér á myndinni sem fylgir með fréttinni. Phil O'Donnell heitinn er einmitt einn þeirra sem eru á þeirri mynd, blessuð sé minning hans. En vonandi verður þetta síðasti leikur Motherwell í Evrópukeppni í ár, þess er óskandi!
19.10: Vallarkynnirinn kynnir liðin af mikilli snilld. Hann les Skotana upp með ágætis látbragði en það eru svo Blikarnir sem eru lesnir upp með stæl. Áhorfendur standa allir upp og klappa sínum leikmönnum lof í lofa. Þeir ganga út á völlinn með portúgalska dómarann Carlos Miguel Taborda Xistra (sem verður héðan í frá bara kallaður Carlos) í fararbroddi. LEIKURINN FER AÐ HEFJAST!
19.08: Önnur athyglisverð staðreynd, en samt frekar leiðinleg, um Motherwell. Árið 2007 lést fyrirliði liðsins úr hjartaáfalli en fréttina frá Fótbolta.net um það leiðinlega atvik má sjá hér: http://www.fotbolti.net/fullStory.php?id=56479
Maðurinn hét Phil O'Donnel en hann hné niður þegar verið var að skipta honum út af í leik gegn Dundee United.
19.05: Hvað segið þið um smá fróðleik um skosku andstæðinga Blikanna í kvöld til að stytta ykkur stundir, svona tíu mínútum fyrir leik? Motherwell (ísl: Mæðrarbrunnur) var stofnað í Skotlandi þann 17. maí árið 1886. Liðið hefur spilað á sama heimavelli, Fir Park Stadium, síðan árið 1896. Ég get þó fullyrt að enginn leikmanna liðsins í dag var í liðinu sem lék fyrsta heimaleikinn á sínum tíma. Ég leyfi mér jafnvel að fullyrða að enginn þeirra hafi verið fæddur. Ég fullyrði það jafnvel í leiðinni að foreldrar þeirra voru ekki heldur fæddir og mjög ólíklega afar þeirra og ömmur. En allavega, Motherwell lenti í 5. sæti skosku deildarinnar á seinasta tímabili en þeir eru í sumarfríi eins og er.
18.57: Augu margra verða sjálfsagt á Alfreð Finnbogasyni í kvöld en drengurinn hefur vakið gríðarlega athygli fyrir frammistöðu sína í Pepsi deildinni í sumar. Spurningin er þó hvort að þessi knái framherji muni standa sig í kvöld á stóra sviðinu, en ljóst er að möguleikar Blika velta að stórum hluta á því hvort að hann eigi góðan leik eða ekki.
18.52: Lið Motherwell samanstendur að mesta leiti af leikmönnum frá Skotlandi en þó eru einhverjir Englendingar, Írar og Norður Írar í liðinu. John Sutton er líkast til frægasti leikmaður liðsins, fyrir það eitt að vera bróðir Chris Sutton, sem er ekki einu sinni það frægur.
18.48: Breiðablik má ekki fyrir nokkra muni fá á sig mark í þessum leik því þá eru þeir komnir í vandræði. Á sama tíma og þeir verða að skora þurfa þeir því að vera varkárir í sínum leik og passa að opna ekki glufur. Þeir verða að sýna mikla þolinmæði þó svo að þeim takist ekki að skora snemma í leiknum, þó að það væri auðvitað draumurinn. Það skiptir meira máli að spila agaðan varnarleik heldur en að blása til stórsóknar og freista þess að skora, því að eins og við vitum öll, þá er það þolinmæðin sem vinnur þrautir allar. Blikarnir sýndu mikla þolinmæði í seinasta leik gegn Keflavík og uppskáru eftir því og vonandi verður það sama uppi á teningnum í kvöld gegn Motherwell.
18.45: Hálftími í leikinn og spennan magnast. Dómarar leiksins eru frá Portúgal og heita þeir Carlos Miguel Taborda Xistra, Sergio David Gouveia Serrao og Alfredo Augusto Braga.
18.40: Svo við rennum aðeins aftur yfir byrjunarliðin, þá eru Blikarnir með alveg sama byrjunarlið og í fyrri leiknum. Motherwell eru aftur á móti með örlítið breytt lið. Steven Saunders kemur inn á fyrir Chris Humphrey. Stúkan er að fyllast af fólki, góðum hálftíma fyrir leik, og ekkert nema gott um það að segja.
18.36: Leikmenn Motherwell koma skokkandi inn á völlinn í sínum vínrauðu búningum. Skoskir stuðningsmenn eru einnig nokkrir mættir í gömlu stúkuna og þeir setja ótrúlega skemmtilegan svip á þessa viðureign. Skoskir stuðningsmenn eru bara æði, það er staðreynd. Vonandi verða stuðningsmenn Blika samt enn meira æði hér í kvöld.
18.33: Fyrri leik liðanna lauk með 1-0 sigri Motherwell í Skotlandi eins og áður kom fram og eiga Blikarnir því fínasta möguleika. Stemningin í kringum þennan leik er frábær og ég mun reyna að skila henni hingað á tölvuskjáinn hjá ykkur þannig að þið fáið spennuna beint í æð. Sigurvegari þessarar viðureignar, sem verður vonandi Breiðablik, mun mæta Aalesunds FK frá Noregi í næstu umferð undankeppni Evrópudeildarinnar.
18.30: Byrjunarliðin eru komin í hús og þið getið séð þau hér neðst í fréttinni. Blikarnir stilla að sjálfsögðu upp sínu sterkasta liði, eða að minnsta kosti því liði sem Ólafur Kristjánsson þjálfari telur sterkast, og Skotarnir stilla sjálfsagt upp sínu sterkasta liði, ég veit það ekki.
18.27: Stuðningsmenn Breiðabliks eru nokkrir hverjir mættir í stúkuna en talsverður fjöldi var eldhress fyrir utan Players þar sem þeir hafa verið í dágóðan tíma. Mikil spenna er í Kópavoginum fyrir þennan leik, fyrsta Evrópuleik Breiðabliks á Íslandi. Hvort sem liðið vinnur eða tapar, þá eru þetta tímamót í sögu félagsins og ekki annað hægt en að óska þeim til hamingju með þennan áfanga. Vonandi endar þetta kvöld á góðu nótunum fyrir Blikana.
18.15: Góða kvöldið kæru lesendur og verið velkomin á leik Breiðabliks og Motherwell í Evrópudeild UEFA á Kópavogsvelli. Blikarnir eru nú eina íslenska liðið sem getur gert það gott í Evrópu í ár eftir að hafa einungis tapað 1-0 í fyrri leiknum í Skotlandi. Búist er við troðfullum Kópavogsvelli þar sem 200 skoskir stuðningsmenn munu taka yfir gömlu stúkunni. Vonandi munu stuðningsmenn Breiðabliks yfirgnæfa þá gersamlega í kvöld, en þeir hafa verið að hita upp á sportbarnum Players frá því klukkan 12 á hádegi í dag. En við vitum öll hvers Skotar eru megnugir í stúkunni og við vitum að þeir eru með ágætis fótboltalið, en vonandi tekst Blikunum að vinna tvöfaldan sigur í kvöld, bæði í stúku og inni á velli!
Byrjunarlið Breiðabliks: Ingvar Þór Kale (M), Finnur Orri Margeirsson, Elfar Freyr Helgason, Kári Ársælsson (F), Kristinn Steindórsson, Alfreð Finnbogason, Guðmundur Kristjánsson, Jökull Elísabetarson, Kristinn Jónsson, Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Guðmundur Pétursson.
Byrjunarlið Motherwell: Darren Randolph (M), Steven Saunders, Steven Hammell, Mark Reynolds, Stephen Craigan (F), Tom Hateley, Steven Jennings, Jamie Murphy, John Sutton, Keith Lasley, Ross Forbes.