Jordao Diogo, vinstri bakvörður KR, er á leið til gríska félagsins Panserraikos á láni en lánssamningurinn gildir til 1.maí næstkomandi. Þetta staðfesti Baldur Stefánsson varaformaður knattspyrnudeildar KR í samtali við Fótbolta.net í kvöld.
Diogo lék því sinn síðasta leik með KR í bili að minnsta kosti í 4-1 sigrinum á Val í kvöld.
Diogo var sjálfur samningsbundinn KR út keppnistímabilið 2011 en hann gerði á dögunum nýjan samning sem þýðir að hann er samningsbundinn liðinu út tímabilið 2012.
Það var þrettándi leikur Diogo með KR í Pepsi-deildinni í sumar en alls hefur hann spilað 50 leiki í deild og bikar síðan hann kom til Vesturbæjarliðsins árið 2008.
Panserraikos mætir PAOK í fyrstu umferð í grísku úrvalsdeildinni um næstu helgi en liðið tryggði sér sæti í úrvalsdeildinni síðastliðið vor eftir sigur í umspili.