Heimild: Sky
Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United hefur sakað Fernando Torres um að reyna að fiska varnarmanninn John O‘Shea af velli í 3-2 sigri sinna manna gegn erkifjendunum í Liverpool.
Allt stefndi í auðveldan sigur Manchester United eftir að Dimitar Berbatov hafði komið liðinu í 2-0 en skyndilega hafði Liverpool jafnað. Fyrst skoraði Steven Gerrard úr vítaspyrnu sem Torres fiskaði og síðan skoraði fyrirliðinn annað mark úr aukaspyrnu eftir að John O‘Shea braut á Spánverjanum.
O‘Shea fékk gult spjald fyrir brot sitt á Torres en Ferguson telur að framherjinn hafi reynt að sannfæra dómarann Howard Webb um að gefa O‘Shea rautt spjald, sem hefði mögulega verið réttur dómur því að Torres var aftasti maður þegar brotið átti sér stað.
„Liverpool stólaði á tvær ákvarðanir frá dómaranum og aðstoðardómaranum til að komast aftur inn í leikinn. Aukaspyrna og vítaspyrna. Þeir buðu ekki upp á neitt,“ sagði Ferguson.
„Ég er búinn að horfa á endursýningu af aukaspyrnunni og Torres ýkti klárlega tæklinguna hans John O‘Shea. Það er alls enginn vafi, hann reyndi að fiska manninn okkar út af.“