mið 27. október 2010 16:15
Magnús Már Einarsson
Þorvaldur Örlygsson: Ögmundur verður markvörður hjá okkur
Ögmundur Kristinsson.
Ögmundur Kristinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Sigurpáll Árnason
Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram, segist treysta Ögmundi Kristinssyni vel til að taka við markvarðarstöðu liðsins af Hannesi Halldórssyni.

Ljóst er að Hannes mun ekki gera nýjan samning við Framara og Ögmundur fær það verkefni að fylla skarð hans. Ögmundur, sem er 21 árs, hefur verið varamarkvörður hjá Fram undanfarin ár.

,,Ögmundur verður markvörður hjá okkur. Ögmundur er næsti markvörður og hann er að þróast í að verða mjög góður markvörður. Ég treysti honum mjög vel," sagði Þorvaldur við Fótbolta.net í dag.

Hannes hefur varið mark Fram undanfarin fjögur ár og ekki misst úr deildarleik síðustu þrjú ár. Þorvaldur segir slæmt að missa hann.

,,Það er alltaf slæmt að missa góða leikmenn. Það var ekkert ákveðið hvort við myndum bjóða honum nýjan samning eða ekki. Hann er búinn að leita eftir því að fara í burtu og umboðsmaður hans er búinn að leita eftir því lengi. Það er hans val," sagði Þorvaldur.
banner
banner
banner
banner