Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
Breiðablik
3
2
Þór
Elfar Árni Aðalsteinsson '23 1-0
1-1 Sveinn Elías Jónsson '37
Elfar Freyr Helgason '45 2-1
Árni Vilhjálmsson '52 3-1
3-2 Þórður Birgisson '92
02.07.2014  -  19:15
Kópavogsvöllur
Pepsi-deild karla 2014
Aðstæður: Gráskýjað og skarpur vindur í átt að Sporthúsinu.
Dómari: Vilhjálmur Alvar Þórarinsson
Byrjunarlið:
Gunnleifur Gunnleifsson
Olgeir Sigurgeirsson
2. Gísli Páll Helgason
5. Elfar Freyr Helgason
5. Arnór Sveinn Aðalsteinsson
9. Elfar Árni Aðalsteinsson
10. Árni Vilhjálmsson ('80)
17. Elvar Páll Sigurðsson
18. Finnur Orri Margeirsson
30. Andri Rafn Yeoman
45. Guðjón Pétur Lýðsson ('87)

Varamenn:
24. Arnór Bjarki Hafsteinsson (m)
7. Höskuldur Gunnlaugsson ('80)
7. Stefán Gíslason
15. Davíð Kristján Ólafsson
21. Guðmundur Friðriksson
26. Páll Olgeir Þorsteinsson ('87)
27. Tómas Óli Garðarsson

Liðsstjórn:

Gul spjöld:
Gísli Páll Helgason ('56)

Rauð spjöld:
@jedissson Jóhann Óli Eiðsson
Þungu fargi létt af Blikum eftir sigur á Þór
Það var sannkallaður botnbaráttuslagur þegar Breiðablik tók á móti Þór í tíundu umferð Pepsi-deildar karla. Aðeins eitt stig skildi liðin af fyrir leikinn en Blikar voru í tíunda sæti meðan Þórsarar voru í því ellefta.

Vankantar hafa verið á leikjum beggja liða það sem af er sumri. Breiðablik hafði ekki enn unnið leik en hafði hins vegar glutrað mörgum niður í jafntefli. Markaskorun hafði verið hausverkur en liðið hafði skorað minna en mark í leik að meðaltali fyrir leikinn.

Hausverkur Þórs var á hinum enda vallarins. Liðinu hefur gengið sæmilega að skora inn á milli en vörnin hefur aftur á móti hríðlekið og liðið fengið að meðaltali tvö mörk á sig í leik hverjum. Á því varð engin breyting í kvöld.

Kópavogsvöllur var blautur í kjölfar vætunnar undanfarna daga og hafði það nokkur áhrif á leikinn. Leikmenn runnu meir en þeir eru vanir og oft skapaðist hætta í kjölfar þess að boltinn skoppaði á annan hátt en þegar völlurinn er þurr.

Í upphafi leiksins fékk Jóhann Þórhallsson tækifæri til að skora er Gunnleifur Gunnleifsson varði boltann til hans. Jóhanni tókst hins vegar ekki að koma boltanum framhjá liggjandi markverðinum og gott færi fór í súginn.

Fyrsta mark leiksins var heimamanna er Elfar Árni Aðalsteinsson náði að böðla boltanum yfir marklínuna. Undirbúningurinn hafði verið í boði Árna Vilhjálmssonar en hann hafði fengið stórgóða sendingu innfyrir vörn gestanna. Tíu mínútum eftir markið jafnaði fyrirliði Þórs, Sveinn Elías Jónsson, með skoti sem hafði viðkomu í varnarmanni.

Páll Viðar Gíslason hefur líklega þurft að breyta hálfleiksræðu sinni töluvert því rétt áður en flautað var til hálfleiks skoraði Elfar Freyr Helgason er hann fylgdi eftir aukaspyrnu Guðjóns Péturs Lýðssonar sem hafnað hafði í slánni. Fjórir Blikar hefðu getað skallað boltann en Elfar var fyrstur til hans.

Þrátt fyrir að fyrri hálfleikur hafi verið lítið fyrir augað þá litu þrjú mörk dagsins ljós. Sá síðari var öllu skemmtilegri áhorfs en þrátt fyrir það voru aðeins tvö mörk skoruð. Það fyrra skoraði Árni Vilhjálmsson með stórgóðum skalla eftir fyrirgjöf Andra Rafns Yeoman. Boltinn sveif í fallegum boga inn í teiginn og enn fallegri boga yfir Sandor Matus í markinu.

Í kjölfar marksins færðist meiri hiti og harka í leikinn og hann opnaðist töluvert. Það var helst að dómari leiksins, Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dræpi hann niður. Fimm mínútum var bætt við leikinn og virtust þær allar vera tilkomnar eftir löng tiltöl og fjölda aukaspyrna sem Vilhjálmur dæmdi og öll áttu sameiginlegt að drepa niður allt tempó í leiknum.

Í uppbótartíma náðu Þórsarar svo að laga stöðuna aðeins er Þórður Birgisson náði að koma boltanum í netið eftir að Jóhann Helgi Hannesson hafði skallað hornspyrnu Shawn Nicklaw fyrir fætur hans.

Blikar fögnuðu vel og innilega er lokaflautið gall enda höfðu þeir beðið lengur en góðu hófi gegnir eftir þessum sigri. Ljóst var á bæði þjálfara og fyrirliða í viðtölum eftir leikinn að það var gott að vera laus við pressuna sem fylgdi þessum fyrsta sigri.

Útséð er með að Þórsarar verða í fallsæti þegar mótið er hálfnað og ljóst að þeir eru í bullandi vandræðum. Batamerki mátti þó sjá á ýmsu í leik þeirra. Fyrirgjafir þeirra voru betri en þær höfðu oft áður verið og vantaði ekki nema örlítið upp á ákveðni og staðsetningar til að klára dæmið. Í raun var það sem að skildi á milli að Blikar voru ákveðnari í flestum sínum aðgerðum og gerðu þær af meiri festu.

Bakvarðavandræði Þórs halda áfram og ljóst að Páll Viðar hlýtur að líta eftir nýjum mönnum í þær stöður þegar glugginn opnar enda ekki hægt að hafa endalaust rót á þeim. Sveinn Elías Jónsson og Kristinn Þór Björnsson, sem eru að upplagi vængmenn, leystu þær stöður af hólmi í dag.

Vörnin verður líka að hætta að leka mörkum ef Þór ætlar sér að vera áfram meðal þeirra bestu. Annaðhvort það eða framherjar þeirra verða að taka upp á því að skora minnst þrjú mörk í leik hverjum.

Úrslitin þýða að Þórsarar sitja eftir neðstir allra liða og borin von að komast úr fallsæti í næstu umferð er liðið tekur á móti KR. Einhverstaðar segir þó að auðveldast sé að spyrna sér upp þegar maður kemst ekki dýpra og spurning hvort liðið fari að taka sig á í næstu leikjum.

Næsti leikur Breiðabliks er útileikur gegn Val. Liðið er enn nálægt fallsvæðinu en spurning hvort að það að losna við pressuna sem fylgir því að vera án sigurs muni breyta spilamennsku liðsins til hins betra.
Byrjunarlið:
Sveinn Elías Jónsson
Orri Freyr Hjaltalín
Orri Sigurjónsson
Sandor Matus
4. Shawn Robert Nicklaw
5. Atli Jens Albertsson
8. Jónas Björgvin Sigurbergsson ('89)
9. Jóhann Helgi Hannesson (f)
11. Kristinn Þór Björnsson ('87)
12. Þórður Birgisson
20. Jóhann Þórhallsson ('66)

Varamenn:
1. Hjörtur Geir Heimisson
14. Hlynur Atli Magnússon ('66)
15. Arnþór Hermannsson
17. Halldór Orri Hjaltason ('87)
21. Bergvin Jóhannsson ('89)
23. Chukwudi Chijindu
30. Bjarki Þór Jónasson

Liðsstjórn:

Gul spjöld:
Kristinn Þór Björnsson ('73)
Shawn Robert Nicklaw ('50)
Jóhann Helgi Hannesson ('21)

Rauð spjöld: