City vill Guehi - Rashford orðaður við Atletico og Arabíu - Real Madrid hyggst funda með Trent í janúar
KR
0
1
FH
0-1 Kristján Gauti Emilsson '39
Haukur Heiðar Hauksson '80
12.05.2014  -  20:30
Gervigrasvöllur Laugardal
Pepsi-deild karla 2014
Dómari: Garðar Örn Hinriksson
Byrjunarlið:
1. Stefán Logi Magnússon (m)
2. Grétar Sigfinnur Sigurðarson
3. Haukur Heiðar Hauksson
5. Egill Jónsson ('77)
7. Gary Martin
8. Baldur Sigurðsson
11. Almarr Ormarsson ('68)
18. Aron Bjarki Jósepsson
22. Óskar Örn Hauksson (f)
24. Abdel-Farid Zato-Arouna
28. Ivar Furu

Varamenn:
13. Sindri Snær Jensson (m)
6. Gunnar Þór Gunnarsson
8. Þorsteinn Már Ragnarsson
9. Kjartan Henry Finnbogason ('77)
11. Emil Atlason ('68)
19. Baldvin Benediktsson
23. Atli Sigurjónsson

Liðsstjórn:

Gul spjöld:
Haukur Heiðar Hauksson ('70)
Egill Jónsson ('69)

Rauð spjöld:
Haukur Heiðar Hauksson ('80)
Fyrir leik
Velkomin í beina textalýsingu frá stórleik umferðarinnar í Pepsi deild karla, viðureign KR og FH. Eins og svo margir aðrir leikir í sumar til þessa verður þessi stórleikur háður á hinu græna og fallega gervigrasi í Laugardal.
Fyrir leik
Það eru KR-ingar sem eru "á heimavelli" í dag. Þeir hafa ekki sælar minningar frá þessum velli eftir 2-1 tap gegn Val í fyrstu umferð. Þar var það sjálf sólin sem spilaði aðalhlutverk og hún er enn hátt á lofti hér í kvöld. KR-ingar munu því klárlega vilja vinna hlutkestið.
Fyrir leik
Hér til hliðar má sjá bæði lið. Hjá FH er Atli Guðnason á bekknum og Sam Hewson fer einnig á bekkinn. Albert Brynjar byrjar frammi og hinn ungi Böðvar Böðvarsson byrjar í vinstri bakverðinum. Ólafur Páll og Ingimundur eru á köntunum og Kristján Gauti í holunni. Þeir Pétur Viðarsson og Kassim Doumbia eru í miðverðinum. Jón Ragnar Jónsson er í hægri bakverðinum.
Fyrir leik
Hjá KR-ingum er Egill Jónsson kominn í byrjunarliðið. Gary Martin byrjar frammi og Óskr Örn Hauksson og Almarr Ormarsson líklega á sitt hvorum kantinum. Farid Zato er með Agli á miðjunni og Baldur Sigurðsson fyrir framan þá. Þeir Ivar Furu, Grétar Sigfinnur Sigurðarson, Aron Bjarki Jósepsson og Haukur Heiðar Hauksson mynda svo varnarlínuna.
Fyrir leik
KR er með þrjú stig eftir fyrstu tvo leikina sína. Þeir töpuðu gegn Val og unnu svo Breiðablik.
FH er með fjögur stig eftir að hafa byrjað á jafntefli gegn Blikum en unnið svo sannfærandi gegn Fylki.
Fyrir leik
Hálfgerð ReyCup stemning hérna á gervigrasinu í Laugardal. Leikur Fram og Þórs er enn í fullum gangi og þegar hann er búinn geta KR-ingar og FH-ingar kannski fengið að hita aðeins upp á gervigrasinu áður en þeirra leikur byrjar.
Fyrir leik
Annars virðast aðstæður til knattspyrnuiðkunnar vera svo gott sem fullkomnar miðað við árstíma. Það er létt gola hérna í Laugardalnum en annars er ágætlega hlýtt í veðri og miðað við hversu heiðskýrt er, þá verður að teljast ansi ólíklegt að rigningin muni láta sjá sig.
Fyrir leik
Ólíkt öðrum fótboltaleikjum, þá vilja bæði lið að sjálfsögðu vinna þennan leik. Fyrir það lið sem tapar er hægt að tala um vonbrigðabyrjun á tímabilinu. Ríkjandi meistarar KR gætu aldrei verið sáttir með það að taka einungis þrjú stig úr fyrstu þremur umferðunum, og FH myndi ekki heldur fagna því að fá einungis fjögur stig úr fyrstu þremur umferðunum.
Fyrir leik
Sem maður fólksins, þá vil ég endilega heyra hvað fólk hefur um leikinn að segja á Twitter. Endilega tjáið ykkur um leikinn, og hendið jafnvel í eina spá, og notið hashtaggið #fotbolti. Ég mun birta vel valdar færslur hér í textalýsingunni, með bros á vör!
Fyrir leik
Dómari leiksins í kvöld er sjálfur rauði baróninn, Garðar Örn Hinriksson. Hann verður ekki lengi að henda mönnum í sturtu ef það hitnar of fljótt í kolunum í þessum risaleik.
Fyrir leik
Líkt og Víðir Sigurðsson hjá Morgunblaðinu bendir á, þá er þetta fyrsti leikur Egils Jónssonar í tæp tvö ár. Hann lofaði gríðarlega góðu á sínum tíma en hefur verið virkilega óheppinn með meiðsli. Vonandi fyrir hann er það versta að baki.
Fyrir leik
Völlurinn var vökvaður fyrir leik Fram og Þórs, en er löngu orðinn skraufþurr. Það var enginn tími til að vökva á milli leikja, svo það verður spilað á þurru teppi hér í Laugardalnum í kvöld. En þetta verður þó í öllu falli mun betra en sand-viðbjóðurinn sem var hérna í mörg ár, þar á meðal þegar ég var að brillera með C-liðinu hérna.
Fyrir leik
FH-ingar eru á útivelli að nafninu til og spila því í sínum bláu varabúningum. KR spilar í svart-hvítu með splunkunýja gula Alvogen merkinu framan á.
Björn Daníel Sverrisson, leikmaður Viking og fyrrum leikmaður FH:
Böddi er í bakverðinum í dag og hann á það til að sveifla löppinni í andstæðinginn þegar hann reiðist. Passaðu þig Óskar. #BöddiLöpp
Einar Lövdahl, tónlistarmaður og ritstjóri:
Kemst ekki yfir það að hvorki Valur né FH mæti í Frostaskjólið í sumar. Liggur við að maður biðji um annað hvort liðið í bikar. #fotbolti
Fyrir leik
Þá fer heldur betur að styttast í leikinn. Rétt rúmar fimm mínútur í þessa veislu og allt til reiðu. Það eru talsvert fleiri áhorfendur núna en á leiknum áðan og þétt setið í stúkunni.
Fyrir leik
Leikmennirnir koma inn á völlinn með dómarann í fararbroddi. "Heyr mína bæn" er ekki spilað hérna í Laugardalnum, þó svo að KR-ingar séu á heimavelli. Þeir náðu ekki að plögga því hjá annars fyrirmyndar gestgjöfum Þróttara.
Fyrir leik
Rífandi stemning hér í Laugardalnum þegar flautað er til leiks!! Stórleikurinn er hafinn og það eru "gestirnir" sem byrja með boltann!
Fyrir leik
Jæja, smá líf í KR-ingunum. Þeir fá hérna hornspyrnu eftir ágætis sókn. Óskar Örn gerir sig tilbúinn að taka spyrnuna, lætur lausan og háan bolta fara inn í teiginn og Doumbia skallar út.
Orri Freyr Rúnarsson, X-inu:
Hefði búist við Baldri Sig utan hóps vegna meiðsla í kvöld enda glampandi sól úti #fotbolti
3. mín
Kristján Gauti með fyrsta skot leiksins, komst í sæmilegt skotfæri og lét vaða, beint á Stefán Loga.
5. mín
Kassim Doumbia hoppar upp á Baldur, einkar klaufalega gert, og KR-ingar fá aukaspyrnu á mjög hættulegum stað, sirka 7 metra fyrir utan teig, nánast fyrir framan mitt markið.
5. mín
Boltanum var rennt ut á Óskar Örn sem þrumaði beint í FH-ing. KR-ingar héldu boltanum en misstu hann svo klaufalega út af.
8. mín
Gary Martin kemur askvaðandi fram en Róbert Örn keyrir út úr markinu og kemur með A-klassa tæklingu og bægir hættunni frá.
11. mín
KR-ingar skapa ágætis hættu upp úr aukaspyrnu sem endar með því að Ivar Furu þrumar boltanum í varnarmann FH. Einhverjir KR-ingar vilja meina að þetta sé hendi en rauði baróninn hlustar ekki á slíkt, og hefur líklega hárrétt fyrir sér.
Pétur Sæmundsen:
Getur einhver útskýrt þetta hár hjá Róbert? Eins og ódýrt hairpiece #fotbolti #krfh
17. mín
Hætta við mark KR! FH-ingar spila vel og koma boltanum út á kantinn á Ingimund Níels, sem kemur með baneitraða lága fyrirgjöf, sem endar í fanginu á Stefáni Loga. Kristján Gauti var nálægt því að komast í boltann.
22. mín
Haukur Heiðar með frábæra sendingu inn fyrir á Gary Martin, sem er kominn einn í gegn, en er dæmdur rangstæður. Virðist hafa verið hárréttur dómur.
23. mín
Ólafur Páll lætur til sín taka á hinum endanum og er með skot fyrir utan teig, en hann hittir boltann ekki alveg nógu vel og hann siglir framhjá.
26. mín
Þarna munaði nánast engu!!! FH-ingar fá hornspyrnu, Ólafur Páll smyr boltanum á hausinn á Kristján Gauta sem skallar rétt framhjá! Nokkuð frír skalli og ég sá þennan inni, en framhjá fór hann. Líklega besta færi leiksins til þessa, að vísu ekki mikið sagt þar.
29. mín
FH-ingar aðeins að taka stjórnina finnst manni. Fengu þarna annað horn og eru betri að halda boltanum, þó lítið sé í gangi. KR-ingar hafa svo gott sem ekkert gert af viti fyrsta hálftímann.
35. mín
FH-ingar eru bara miklu betri núna. Ætla að leyfa mér að spá því að þeir lúðri inn einu fyrir leikhlé. Þeir eru alveg með tögl og hagldir í þessum leik en vantar örlítið upp á.
39. mín MARK!
Kristján Gauti Emilsson (FH)
Stoðsending: Böðvar Böðvarsson
FH-ingar eru komnir yfir og það fullkomlega verðskuldað!!!! Kristján Gauti kemur boltanum í netið með skalla eftir frábæra fyrirgjöf frá hinum unga og efnilega Böðvari Böðvarssyni!!
40. mín
KR-ingar fá aukaspyrnu á stórhættulegum stað, rétt fyrir utan teiginn! Gary Martin tekur spyrnuna en hún er skelfileg og fer vel yfir markið. Þarna átti hann að gera betur!
45. mín
Flautað hefur verið til leikhlés í Laugardalnum og staðan 1-0 fyrir FH í hálfleik. Fyllilega verðskuldað, eftir slaka byrjun hjá báðum liðum tóku Hafnfirðingarnir algerlega völdin og komust verðskuldað yfir. Frábær fyrirgjöf frá Böðvari, sem er víst kallaður Böddi löpp, og Kristján Gauti gerði vel. Vonandi verður fjör í seinni.
Stefán Pálsson:
Mætir baldur sig með edgar davids sólgleraugun í seinni? #fotbolti #pepsi365
46. mín
Seinni hálfleikurinn er hafinn og það eru KR-ingar sem hefja leik.
50. mín
Hræðileg mistök hjá Furu!!! Hann missir boltann hrikalega klaufalega frá sér og Albert Brynjar nær af honum boltanum og keyrir að marki. Hins vegar slakt skot sem Stefán Logi ver í horn!
51. mín
Hornspyrnan endar með því að Hólmar Örn tekur þrumuskot fyrir utan teig sem fer rétt framhjá! FH-ingar að byrja seinni hálfleik eins og þeir enduðu fyrri.
56. mín
Hörkusókn hjá KR!! Haukur Heiðar kemur með fyrirgjöf, Baldur tekur boltann en er tæklaður. Egill Jónsson fær boltann, kemur sér í gott skotfæri en þrumar í varnarmann FH og aftur fyrir. KR-ingar fá hornspyrnu sem ekkert verður úr.
58. mín
Inn:Atli Guðnason (FH) Út:Ingimundur Níels Óskarsson (FH)
FH-ingar gera sína fyrstu breytingu. Ingimundur Níels fer af velli og varamaðurinn er í dýrari kantinum, Atli Guðnason.
65. mín
Aðeins að lifna yfir KR-ingum, þeir eru farnir að færa sig framar og freista þess að jafna, en vörn FH-inga er traust og stendur af sér flest áhlaupin.
68. mín
Inn:Emil Atlason (KR) Út:Almarr Ormarsson (KR)
KR-ingar gera sína fyrstu breytingu. Emil kemur inn fyrir Almarr.
69. mín Gult spjald: Egill Jónsson (KR)
Egill Jónsson fær að líta fyrsta gula spjald leiksins fyrir glæfralega tæklingu á Atla Guðna á miðjum velli.
70. mín Gult spjald: Haukur Heiðar Hauksson (KR)
Þegar rauði baróninn dregur upp spjald, þá fylgja önnur í kjölfarið. Þetta var reyndar fullkomlega verðskuldað gult á Hauk, sem tók boltann me´höndinni.
72. mín
Kristján Gauti í góðu færi eftir laglega sendingu frá Atla Guðna! Hann missir boltann hins vegar örlítið of langt frá sér þegar hann er að fara framhjá varnarmanninum og skot hans er laflaust og beint á Stefán Loga.
75. mín
Inn:Emil Pálsson (FH) Út:Albert Brynjar Ingason (FH)
FH-ingar gera aðra skiptingu. Emil Pálsson kemur inn fyrir Albert Brynjar Ingason.
Sindri Sigurjónsson:
Óskar Örn búinn að vera hörmulegur í kvöld #RealTalk #fotbolti
77. mín
Inn:Kjartan Henry Finnbogason (KR) Út:Egill Jónsson (KR)
Rúnar freistar þess að glæða sóknarleikinn meira lífi og setur Kjartan Henry inn fyrir Egil Jónsson. Hrósa Agli fyrir frammistöðu sína í kvöld, hefur verið lengi frá en kom fínn inn í þennan leik.
79. mín
Rúnar Kristinsson fær gult spjald fyrir kjaft. Var brjálaður þegar sinn maður fór niður. Aukaspyrna var dæmd en ekkert meira.
80. mín Rautt spjald: Haukur Heiðar Hauksson (KR)
Haukur Heiðar er rekinn af velli með sitt annað gula spjald!! Atli Guðna var kominn einn í gegn en Haukur togaði í hann og stöðvaði sóknina. Hárrétt hjá Garðari að reka hann af velli, hefði jafnvel getað gefið honum beint rautt! Það var alltaf að fara að gerast að rauði baróninn myndi henda einum út af, en allir góðir dómarar hefðu gert það sama.
81. mín
Kristján Gauti tekur aukaspyrnuna, hún flýgur yfir varnarvegginn en beint á Stefán Loga.
82. mín
Farid kemur með banvæna fyrirgjöf og fjórir menn detta í teignum. KR-ingar brjálaðir og vilja víti en ekkert er dæmt.
85. mín
Þarna munaði litlu að FH kláraði leikinn!! Emil Pálsson komst í gott skotfæri í teignum en boltinn framhjá!
Halldór Gröndal:
Áttum algerlega fyrstu 30 min og lágum á teignum hjá fh en lélegur varnarleikur hjá tveimur leikmönnum = mark breytir leiknum #fótbolti
88. mín
KR skorar mark!! En það er dæmt af vegna brots!! Óskar Örn kom með aukaspyrnu inn í teig, sýndist Baldur skalla hann og og Grétar Sigfinnur fylgdi eftir í netið, en Kjartan Henry á að hafa brotið á Róberti í markinu.
89. mín
Inn:Sam Hewson (FH) Út:Ólafur Páll Snorrason (FH)
Síðasta skipting FH.
90. mín
Við erum komin í uppbótartíma, sem er þrjár mínútur! Það fer hver að verða síðastur til að tryggja KR stig.
90. mín
FH-ingar geysast upp í fína skyndisókn en Kristján Gauti á skot/fyrirgjöf beint á Stefán Loga. Emil Pálsson var að koma á harðaspretti og var frír í teignum.
90. mín Gult spjald: Kristján Gauti Emilsson (FH)
Kristján Gauti fær gult fyrir að blokka útspark Stefáns Loga. Rétt rúm mínúta eftir.
Leik lokið!
Leiknum er lokið með 1-0 sigri FH!! Gríðarlega sterkur sigur fyrir Hafnfirðingana, sem eru nú með 7 stig. Íslandsmeistararnir hefja titilvörnina hins vegar ekki vel og hafa einungis 3 stig eftir þrjár umferðir!!
Byrjunarlið:
1. Róbert Örn Óskarsson (m)
Ólafur Páll Snorrason ('89)
Davíð Þór Viðarsson
4. Pétur Viðarsson
7. Ingimundur Níels Óskarsson ('58)
13. Kristján Gauti Emilsson
14. Albert Brynjar Ingason ('75)
16. Jón Ragnar Jónsson
20. Kassim Doumbia
21. Böðvar Böðvarsson
25. Hólmar Örn Rúnarsson

Varamenn:
2. Sean Michael Reynolds
6. Sam Hewson ('89)
11. Atli Guðnason ('58)
17. Atli Viðar Björnsson
28. Sigurður Gísli Snorrason

Liðsstjórn:
Emil Pálsson
Kristján Finnbogi Finnbogason

Gul spjöld:
Kristján Gauti Emilsson ('90)

Rauð spjöld: