City vill Guehi - Rashford orðaður við Atletico og Arabíu - Real Madrid hyggst funda með Trent í janúar
Breiðablik
3
2
Þór
Elfar Árni Aðalsteinsson '23 1-0
1-1 Sveinn Elías Jónsson '37
Elfar Freyr Helgason '45 2-1
Árni Vilhjálmsson '52 3-1
3-2 Þórður Birgisson '92
02.07.2014  -  19:15
Kópavogsvöllur
Pepsi-deild karla 2014
Aðstæður: Gráskýjað og skarpur vindur í átt að Sporthúsinu.
Dómari: Vilhjálmur Alvar Þórarinsson
Byrjunarlið:
Gunnleifur Gunnleifsson
Olgeir Sigurgeirsson
2. Gísli Páll Helgason
5. Elfar Freyr Helgason
5. Arnór Sveinn Aðalsteinsson
9. Elfar Árni Aðalsteinsson
10. Árni Vilhjálmsson ('80)
17. Elvar Páll Sigurðsson
18. Finnur Orri Margeirsson
30. Andri Rafn Yeoman
45. Guðjón Pétur Lýðsson ('87)

Varamenn:
24. Arnór Bjarki Hafsteinsson (m)
7. Höskuldur Gunnlaugsson ('80)
7. Stefán Gíslason
15. Davíð Kristján Ólafsson
21. Guðmundur Friðriksson
26. Páll Olgeir Þorsteinsson ('87)
27. Tómas Óli Garðarsson

Liðsstjórn:

Gul spjöld:
Gísli Páll Helgason ('56)

Rauð spjöld:
Fyrir leik
Tíundu umferð Pepsi-deildar karla lýkur í kvöld með fjórum leikjum. Einn leikja kvöldsins er barátta Breiðabliks og Þórs en bæði lið þurfa á stigum að halda hér í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:15 og verður Fótbolti.net auðvitað á staðnum og segir frá gangi mála.
Fyrir leik
Hvorugt liðanna hefði neitt á móti því að fara úr þessum leik með þrjú stig í farteskinu en aðeins stig skilur á milli þeirra í töflunni fyrir leikinn.

Heimamenn hafa tapað þremur leikjum það sem af er tímabili en aðeins FH, Stjarnan og Keflavík hafa tapað færri leikjum. Hins vegar hefur Blikum gengið illa að landa sigrum, í raun ekki neitt og er liðið án þeirra nú þegar mótið er næstum hálfnað.

Þórsarar eru hins vegar það lið sem hefur tapað flestum leikjum, sex talsins, og fengið á sig flest mörk, alls átján en þessum titlum báðum deilir liðið með Fylki. Eini sigurleikur norðanmanna kom einmitt gegn Fylki. Þórsarar eru fyrir leikinn í ellefta sæti með fimm stig en Blikar eru sæti ofar með stigi meir.
Fyrir leik
Bæði lið töpuðu leikjum sínum í síðustu umferð. Þór fékk Val í heimsókn og skoraði Haukur Páll Sigurðsson markið sem skildi liðin að. Blikar heimsóttu Víkinga og var sigurmarkið þar í boði Pape Mamadou Faye en Víkingar luku leik tveimur mönnum færri.
Fyrir leik
Þórsurum hefur gengið ágætlega að koma knettinum í netið það sem af er tímabili en þeir hafa skorað alls fjórtán mörk. Því miður fyrir þá þá hafa þeir verið enn iðnari við að sækja boltann í eigið net en þeir hafa fengið tvö mörk á sig í leik að meðaltali.

Blikar hafa eingöngu fengið á sig tólf mörk í sumar sem er þriðji besti árangur allra liða í deildinni. Þeim hefur hins vegar gengið verst allra að koma boltanum í markið en Breiðablik er eina liðið sem hefur skorað minna en mark í leik að meðaltali.
Fyrir leik
Nú er rétt rúmur klukkutími í að Vilhjálmur Alvar Þórarinsson flauti leikinn á og ættu byrjunarliðin að vera ljós innan skamms. Ég færi ykkur fréttir af þeim um leið og þær berast mér.
Fyrir leik
Í kallkerfi stúkunnar var verið að auglýsa eftir grasafræðingnum og almenna ljúfmenninu Bö-master. Vonum að hann finnist innan skamms.
Fyrir leik
Guðmundur Benediktsson gerir tvær breytingar á liði sínu er tapaði gegn Víkingi en Elfar Árni Aðalsteinsson og Olgeir Sigurgeirsson koma inn í stað Stefáns Gíslasonar og Tómasar Óla Garðarssonar.

Hjá gestunum detta þeir Atli Jens Albertsson, Þórður Birgisson og Jóhann Þórhallsson inn í liðið en Ármann Pétur Ævarsson, Hlynur Atli Magnússon og Sigurður Marínó fara úr því. Athygli vegur að Jóhann leikur í treyju númer nítján sem Sigurður Marínó hefur venjulega leikið í.
#BREÞOR
Nei, ég er ekki lesblindur að reyna að skrifa Bergþór. Hafi menn eitthvað til málanna að leggja tengt leiknum þá má endilega nýta þetta hashtag til þess.
Fyrir leik
Á undanförnum fimm árum hafa þessi lið mætt hvort öðru átta sinnum og hafa Blikar staðið sig betur í þeim leikjum. Sjö leikir hafa endað með sigri þeirra en einn með jafntefli. Þrjátíu mörk hafa verið skoruð og eru átta þeirra mörk Þórs en tuttuguogtvö koma frá Kópavogsdrengjum.
Fyrir leik
Breiðablik vann báðar viðureignir liðanna í fyrra. Þá fyrri 4-1 á heimavelli þar sem Elfar Árni Aðalsteinsson og Niclas Rodhe komu heimamönnum yfir áður en Árni Vilhjálmsson bætti við tveimur mörkum. Jóhann Helgi Hannesson klóraði í bakkann undir lokin.

Leikur liðanna á Akureyri endaði svo 2-1 fyrir gestunum. Rene Troost skoraði mark úr víti og Árni Vilhjálmsson bætti við marki áður en Chukwudi Chijindu minnkaði muninn.

Einnig er rétt að taka fram að þessi lið mættust í Borgunarbikarnum fyrir rétt tæpum tveimur vikum þar höfðu grænklæddir betur í framlengingu. Guðjón Pétur Lýðsson kom sínu liði yfir en Jóhann Helgi Hannesson jafnaði fyrir Þór. Elfar Freyr Helgason og Árni Vilhjálmsson kláruðu dæmið í framlengingunni með sínu markinu hvor.
Fyrir leik
Fyrst ég er byrjaður að grúska í sögunni þá má koma inn á að þessi lið hafa mætt hvort öðru 38 sinnum frá upphafi. Blikar hafa unnið 23 leiki, níu hafa endað með jafntefli og sex hafa Þórsarar sigrað. Þórsarar hafa skorað fimmtíu mörk í þessum leikjum en Breiðablik 89.
Fyrir leik
Þess má svo til gamans geta að árið 1994 áttust þessi lið við í Trópí-deild karla. Annar leikur liðanna endaði jafntefli en hinn með sigri Breiðabliks. Í liði Þórs voru voru hins vegar báðir þjálfararnir hér í dag. Páll Viðar Gíslason lék í treyju númer fimm og Guðmundur Benediktsson var númer sjö. Fyrirliði Þórs var svo Lárus Orri Sigurðsson sem er í þjálfarateymi Þórs hér í dag.
Fyrir leik
Liðin eru komin út á völl og hita upp. Chukwudi Chijindu er á bekknum og tekur fullan þátt í upphituninni en hann á enn eftir að leika leik á þessu tímabili. Vonandi fyrir Þórsara fer hann að komast í stand og byrja að spila.
Oliver Sigurjónsson, leikmaður AGF
Breiðablik eitthvað að blekkja sjálfan sig með aldur Gunnleifs... Sjá mynd.
Fyrir leik
Himininn er heldur grár og nú virðist vera að styttast í rigninguna. Lægðin sem hefur verið að skemmta okkur að undanförnu virðist ætla að setja sitt mark á þennan leik.
Fyrir leik
Líkt og áður sagði þá sér Vilhjálmur Alvar Þórarinsson um að flauta þennan leik og honum til halds og trausts verða þeir Leiknir Ágústsson og Haukur Erlingsson.
Fyrir leik
Ingvi Þór Sæmundsson, Vísi
Þetta verður jafntefli þar sem bæði lið setja eitt mark. Guðjón Pétur Lýðsson og Jóhann Helgi verða á skotskónum.

Andrarnir tveir frá Morgunblaðinu
Þór fer með eitt núll sigur af hólmi. Jóhann Þórhalls skorar markið sem skilur að. Hinn segir tvö eitt fyrir Þór þar sem Jói Þórhalls og Orri afi skora en Andri Yeoman minnkar muninn.

Jóhann Óli Eiðsson, Fótbolti.net
Ég ætla að tippa á að gestirnir landi sigri. Eins marks sigur. Jóhann Þórhalls skorar eitt eða tvö en ef Bliki skorar þá verður það norðanmaðurinn Elfar Árni.
Fyrir leik
Jóhann Helgi Hannesson er markahæsti maður þeirra leikmanna sem taka þátt hér í dag en hann hefur skorað fimm mörk í sumar og er næst markahæstur á eftir Dananum Jeppe Hansen sem haldið hefur heim á leið.

Markahæstu menn heimaliðsins eru þeir Guðjón Pétur Lýðsson og Árni Vilhjálmsson með tvö mörk hvor en aðrir hafa skorað minna.
Fyrir leik
Það er enginn annar en DJ Óákveðinn. Þrjú lög á innan við mínútu og öll léleg. Ég hélt að það mætti bara spila Sweet Caroline og Life Is Life á handboltaleikjum? Það verður einhver að reporta þetta.
Fyrir leik
Förum svo bara beint úr Sweet Caroline í Ich Will með Rammstein. Hver gerir svona lagað?
Fyrir leik
Liðin eru að ganga inn á völlinn á eftir fyrirliðum og dómurum. Fyrirliðar liðanna eru Finnur Orri Margeirsson og Sveinn Elías Jónsson.

Leikmenn liðanna leika með sorgarbönd í dag til minningar um Þorvald Jónsson sem lést 28. júní síðastliðinn eftir baráttu við krabbamein. Þorvaldur lék á árum áður með bæði Breiðabliki og KA.
Fyrir leik
Ármann Pétur Ævarsson leikur ekki með hér í dag en hann er í leikbanni sökum uppsafnaðra gulra spjalda.
1. mín
Leikurinn er hafinn!

Þórsarar byrja með boltann og sækja í átt að Sporthúsinu.
2. mín
Breiðablik:
Gísli - Elfar Freyr - Finnur - Arnór
Elvar - Olgeir - Andri - Guðjón
Árni - Elfar Árni

Þór:
Sveinn - Atli - Orri - Kristinn
Nicklaw - Orri - Jónas - Jóhann Helgi
Jóhann Þórhalls - Þórður
Andri Yrkill Valsson, Morgunblaðinu
Enn er krísa í bakvörðum hjá Þór. Ég mundi frekar segja þá sóknarmenn ef eitthvað er, en þegar neyðin er mest..
6. mín
Blikar fá hornspyrnu hér í upphafi sem Guðjón Pétur tekur og hittir á kollinn á Elfari Frey. Sandor vel á verði, kastar sér niður og grípur boltann.
9. mín
Jóhann Þórhallsson tekur skot af miðjum vallarhelmingi Blika en það endar beint á Gunnleif sem grípur knöttinn.
11. mín
ÞVÍLÍKT KLÚÐUR!!!! Jóhann Helgi hannesson tók skot af svipuðu færi og nafni sinn áðan, Gunnleifur varði en hélt ekki boltanum. Frákastið fór beint á Þórhallsson sem náði á einhvern undraverðan hátt að skjóta í markvörðinn sem lá varnarlaus í grasinu.
15. mín
Völlurinn ef nokkuð blautur og leikmenn renna nokkuð á honum. Kæmi mér ekki á óvart ef við fengjum að sjá einhverjar hressilegar tæklingar sem skiluðu spjöldum.
17. mín
Jóhann Helgi á í baráttu við fyrrum liðsfélaga sinn Gísla Pál sem lýkur með því að Jóhann danglar eitthvað aftan í Gísla. Fær að launum tiltal frá Vilhjálmi dómara.

"Drullaðu þér til dómarans, þú veist þú ert að fara að fá spjald," heyrist kallað úr stúkunni.
21. mín Gult spjald: Jóhann Helgi Hannesson (Þór )
Fer með takkana full hátt að mati Villa. Gat samt ekki séð að hann hefði farið í manninn nokkuð.

"Þó fyrr hefði verið!!!!! kallað frá sama manni í stúkunni.
23. mín MARK!
Elfar Árni Aðalsteinsson (Breiðablik)
Stoðsending: Árni Vilhjálmsson
Fyrsta mark leiksins komið í hús. Snaggaraleg sending innfyrir vörn Þórs sem Árni Vilhjálmsson náði til. Hann náði að klafsa boltanum fyrir markið og á markteignum stóð Elfar Árni sem kom boltanum í netið. Náði samt ekki að hitta boltann almennilega en inn lak þetta skot.
30. mín
Hér hefur ekkert markvert gerst síðustu mínútur. Mikil barátta og mörg brot. Vilhjálmur Alvar stendur hér fyrir flautukonsert.
31. mín
Blikar áttu tilraun nú rétt áðan. Elfar Árni sendi boltann fyrir og boltinn rataði á Arnór Svein sem tók boltann á lofti og skaut yfir markið. Hátt yfir markið.
37. mín MARK!
Sveinn Elías Jónsson (Þór )
Hægri bakvörðurinn og fyrirliðinn Sveinn Elías að skora þetta mark! Olgeir Sigurgeirsson vann boltann og ætlaði að fara framhjá Svenna. Lyfti boltanum beint í belginn á Þórsaranum sem tók tvö skref með boltann og lét vaða að markinu. Boltinn hafði viðkomu í Arnóri Sveini og breytti aðeins um stefnu en við skráum þetta mark á Svein.
40. mín
Gísli Páll tók langt innkast sem Kristinn skallaði frá en beint á Andra Yeoman. Andri skaut að marki en boltinn fór hins vegar í samherja og þaðan afturfyrir.
42. mín
Jóhann Þórhallsson lúðrar hér boltanum í grímuna á Olgeiri Sigurgeirssyni í miðhringnum sem steinliggur hér í miðhringnum.
45. mín MARK!
Elfar Freyr Helgason (Breiðablik)
Stoðsending: Guðjón Pétur Lýðsson
Blikar fengu aukaspyrnu sem Guðjón Pétur tók. Spyrnan var stórglæsileg en endaði í þverslánni. Þaðan datt boltinn niður í teiginn og fjórir grænklæddir biðu eftir því að skalla hann í netið. Elfar Freyr var fyrstur á hann og kom honum yfir línuna.
45. mín
Hér hefur verið flautað til hálfleiks. Þórsarar gerðu heiðarlega tilraun til að skora hérna undir lok hálfleiksins en fyrirgjafir þeirra náðu ekki að rata á rétta staði.
45. mín
Gísli Páll Helgason var mættur langfyrstur allra inn á völlinn og trítlaði um í góðar fimm mínútur áður en allir aðrir mættu.
45. mín
Síðari hálfleikurinn hafinn. Óbreytt lið sem mæta hér til leiks í síðari hálfleik.
48. mín
Maðurinn á klukkunni þurfti aðeins að gera eitt og honum tókst að klúðra því. Vallarklukkan sýnir hér 00:00 og er ekkert á því að fara af stað.
50. mín Gult spjald: Shawn Robert Nicklaw (Þór )
Andri Yeoman og Shawn Nicklaw fara báðir í tæklingu. Nicklaw er full seinn í hana og þrumar í Andra. Upp hefst smá vitleysa þar sem leikmenn beggja liða hrinda og ýta hver öðrum. Uppskeran er gult spjald á Nicklaw fyrir tæklinguna.
52. mín MARK!
Árni Vilhjálmsson (Breiðablik)
Stoðsending: Andri Rafn Yeoman
Blikar eru að hlaða í sinn fyrsta sigur á tímabilinu ef fram heldur sem horfir. Blikar fengu hornspyrnu sem var skölluð frá og boltinn barst til Blika á vinstri vængnum. Sá ekki hvort það var Guðjón Pétur eða Yeoman. Stoðsendingin er því háð síðari breytingum.

Boltinn sveif allavega í laglegum boga yfir pakkann og rataði á fjærstönginni þar sem Árni Vill náði að skalla boltann yfir Sandor í markinu.
56. mín Gult spjald: Gísli Páll Helgason (Breiðablik)
Gísli Páll nælir sér í spjald gegn sínu gamla liði. Orri Sigurjóns lék á menn á miðjunni og kom boltanum á Jónas Björgvin á harðaspretti. Gísli Páll ákvað að fara svona korteri of seint í tæklingu og fór aftan í Jónas harkalega. Jónas liggur sárþjáður eftir en stendur upp eftir að hafa fengið aðhlynningu. Leit ekki vel út.
Hafþór Steinþórsson, leikmaður Augnabliks
Ef eitthvað er fact þá er það að ArniVill skorar alltaf a móti þór!
59. mín
Árni Vill heldur áfram að ógna. Núna átti hann skalla eftir fyrirgjöf frá Elfari Árna en skallinn var víðsfjarri markinu.
62. mín
Jóhann Helgi er á síðasta séns. Sveinn Elías sendir fyrir og Þórður fleytir boltanum áfram. Boltinn dettur niður á milli Jóhanns Helga og Gunnleifs og Gunnleifur nær til hans á undan. Jóhann fór með báða takka á undan sér og lenti í Gunnleifi sem var ekki ánægður með þessa tæklingu. Ekkert spjald fór á loft.
63. mín
Hiti og harka að færast í leikinn. Árni Vilhjálms liggur eftir viðskipti við andstæðing og strax í kjölfarið er Jóhann Helgi tekinn niður og smá pústrar milli leikmanna í kjölfarið. Ekkert spjald fer þó á loft.
66. mín
Inn:Hlynur Atli Magnússon (Þór ) Út:Jóhann Þórhallsson (Þór )
Hlynur Atli fer í vörnina og Orri Freyr Hjaltalín fer upp á topp. Þetta verður áhugavert.
68. mín
Orri afi strax í séns. Atli Jens sendi langan bolta fram sem vörnin misreiknaði. Orri fékk boltann og hafði ágætan tíma en náði ekki góðu skoti að marki.
71. mín
Atli Jens að ógna fyrir aftan miðju. Eða þannig. Tók langa aukaspyrnu sem skoppaði og var ekkert langt frá því að fara yfir Gunnleif í markinu. Gunnleifur var samt vel á verði og reddaði þessu.

Í kjölfarið á Guðjón Pétur ágætt skot sem fer örfáum sentimetrum framhjá markinu.
73. mín
Þórsarar bjarga á línu eftir skot frá Elvari Páli. Flott skyndisókn Blikanna.
73. mín Gult spjald: Kristinn Þór Björnsson (Þór )
"Kiddi kannski" kominn í svörtu bókina. Hann og Elfar Árni tækluðu saman í aðdraganda færisins hjá Elvari Páli.
74. mín
Lausn Orra Freys Hjaltalín við öllum heimsins vandamálum þessa stundina virðist vera að skjóta að marki. Sama hvar hann er staðsettur eða hve margir leikmenn eru milli hans og marksins. Kanónan er einfaldlega hlaðin og látið vaða að marki. Árangurinn hefur hingað til verið afar lítill.
77. mín
Jóhann Helgi með þrumuskalla eftir fyrirgjöf frá Sveini Elíasi. Þónokkuð yfir markið.
80. mín
Inn:Höskuldur Gunnlaugsson (Breiðablik) Út:Árni Vilhjálmsson (Breiðablik)
Árni hefur skilað fínu dagsverki.
81. mín
Þarna vantaði bara herslumuninn. Nicklaw sendi boltann fyrir markið þar sem Jóhann Helgi var á fjærstönginni og skallaði hann niður fyrir Jónas BJörgvin. Jónas náði ekki að hitta boltann á hættulegum stað.
84. mín
Elvar Páll Reyni skot af nokkuð löngu færi sem Sandor þarf að kasta sér í til að ná. Úr hornspyrnunni verður ekkert.
87. mín
Inn:Halldór Orri Hjaltason (Þór ) Út:Kristinn Þór Björnsson (Þór )
87. mín
Inn:Páll Olgeir Þorsteinsson (Breiðablik) Út:Guðjón Pétur Lýðsson (Breiðablik)
89. mín
Inn:Bergvin Jóhannsson (Þór ) Út:Jónas Björgvin Sigurbergsson (Þór )
Skömmu áður hafði Þórður Birgisson verið í hálfséns og reynt að koma boltanum fyrir á Orra Hjaltalín. Varnarmaður komst í milli og boltinn aftur fyrir af Þórði.
90. mín
Uppbótartími farinn í gang. Stefnir allt í sigur grænklæddra.
92. mín MARK!
Þórður Birgisson (Þór )
Stoðsending: Jóhann Helgi Hannesson
Að sjálfsögðu skora Þórsarar mark svona í lokin til að svekkja sig pínu. Nicklaw tók horn frá vinstri sem Jóhann skallaði niður beint á Þórð. Þórður spólaði í grasinu liggjandi og náði að koma boltanum í markið.
93. mín
Strax í kjölfarið spólar Elfar Árni sig í gegnum vörn Þórs og skýtur framhjá úr góðri stöðu. Hárfínt framhjá. Var nálægt sínu öðru marki og því að gera út um leikinn.
Leik lokið!
Fimm mínútum var bætt ivð en það dugði Þór ekki. Þeir eru núna einir á botninum en Blikar hafa loksins náð sigri.
Byrjunarlið:
Sveinn Elías Jónsson
Orri Freyr Hjaltalín
Orri Sigurjónsson
Sandor Matus
4. Shawn Robert Nicklaw
5. Atli Jens Albertsson
8. Jónas Björgvin Sigurbergsson ('89)
9. Jóhann Helgi Hannesson (f)
11. Kristinn Þór Björnsson ('87)
12. Þórður Birgisson
20. Jóhann Þórhallsson ('66)

Varamenn:
1. Hjörtur Geir Heimisson
14. Hlynur Atli Magnússon ('66)
15. Arnþór Hermannsson
17. Halldór Orri Hjaltason ('87)
21. Bergvin Jóhannsson ('89)
23. Chukwudi Chijindu
30. Bjarki Þór Jónasson

Liðsstjórn:

Gul spjöld:
Kristinn Þór Björnsson ('73)
Shawn Robert Nicklaw ('50)
Jóhann Helgi Hannesson ('21)

Rauð spjöld: