Fyrir leik
Komið sælir lesendur góðir og verið velkomnir í beina textalýsingu Fótbolta.net frá leik KR og Breiðabliks. Það má segja að leikurinn sé lokaleikur 13. umferðar en boltinn fer síðast af stað hér í kvöld.
Fyrir leik
Leikurinn verður jafnframt í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Fyrir leik
Byrjunarliðin eru væntanleg von bráðar og ég mun flytja ykkur fréttir af þeim jafnharðan og þau berast.
Fyrir leik
Breytingarnar á byrjunarliðunum eru alls þrjár, ein hjá heimamönnum en tvær hjá gestunum.
Óskar Örn Hauksson byrjar í stað Emils Atlasonar hjá KR en hjá gestunum detta Elfar Árni Aðalsteinnson og Elvar Páll Sigurðsson á bekkinn. Stefán Gíslason og Ellert Hreinsson taka þeirra stöður.
#fotboltinet #krbre
Endilega taktu þátt í umræðunni um leikinn með því að nota annað hvort hashtagið hér að ofan. Ef tístið er áhugavert þá er líklegt að ég þefi það uppi og birti það í lýsingunni.
Fyrir leik
Síðustu fimm ár hafa þessi lið att kappi alls tuttugu sinnum. KR-ingar hafa unnið ellefu leiki og Blikar sjö. Tveir hafa endað með jafntefli. Markatalan er 35 mörk fyrir KR og 28 fyrir Breiðablik. Ég ætla því að lofa alls þremur mörkum hér í dag.
Liðin hafa mætt hvort öðru tvisvar það sem af er sumri. Í bikarnum vann KR 2-0 með mörkum frá Óskari Erni Haukssyni og Baldri Sigurðssyni. Í deildinni fóru leikar 1-2. Haukur Heiðar Hauksson skoraði í upphafi leiksins og Elfar Árni Aðalsteinsson jafnaði. Sigurmarkið var síðan í boði Óskars Arnar Haukssonar.
Fyrir leik
Tölfræðin frá upphafi er KR einnig í hag. 76 leikir og 40 þeirra hafa þeir sigrað. Átján hafa endað jafntefli og átján hafa Kópavogsbúar sigrað.
Fyrir leik
Það er hægt að parkera allri umræðu um hvar besti playlisti landins er. Frostaskjólið ber af allavega á þeim völlum sem ég hef sótt heim í sumar. Dawid Bowie, Nirvana, Rammstein og þetta batnar bara og batnar.
Fyrir leik
Garðar Örn Hinriksson fer fyrir dómaratríói þessa leiks og því má gera ráð fyrir að einhver spjöld fari á loft. Honum til halds og trausts verða Sigurður Óli Þorleifsson og Frosti Viðar Gunnarsson. Varadómari er Valgeir Valgeirsson og Ólafur Ragnarsson mun fylgjast með leiknum og hafa eftirlit með því að allt fari ásættanlega fram.
Fyrir leik
Leikmenn og dómarar eru úti á velli að hita upp á fullu við fagra, en ofspilaða, tóna Daft Punk. Tuttugu mínútur í að leikurinn verði flautaður á.
Fyrir leik
Hér var verið að henda í gang laginu Song in A með hljómsveitinni Url. Ein driffjaðra þeirrar hljómsveitar var Garðar Örn Hinriksson dómari þessa leiks en hann söng í henni.
Viðbrögð Garðars voru að senda thumbs up í átt að búrinu hérna á meðan annar aðstoðardómaranna bað um að þetta yrði stöðvað hið snarasta.
Fyrir leik
Bjarni Fel er mættur og mun lýsa leiknum þráðbeint í KR-útvarpinu. Það er vel.
Fyrir leik
Áhorfendur eru að tínast í stúkuna smám saman og það er allavega bókað að hér verða fleiri en á Fjölnir - Þór þar sem aðeins 325 mættu í stúkuna.
#fotboltinet #krbre
Svona rétt áður en boltinn byrjar að rúlla þá vil ég minna á hashtögin sem lesendur geta nýtt sér vilji þeir koma einhverju áleiðis.
Fyrir leik
Liðin eru að ganga út á völlinn á eftir dómurum og fyrirliðum. Leikmenn númer átta eru fyrirliðar hér í dag, Baldur Sigurðsson og Finnur Orri Margeirsson.
Að sjálfsögðu er íslenska útgáfan af sigurlagi Eurovision 1964 leikið undir. Heyr mína bæn í flutningi Ellýar Vilhjálms. Upphaflega var það flutt af ítölsku söngkonunni Gigliola Cinquetti og hét Non ho l'etá.
1. mín
Leikurinn er hafinn. KR byrjar með boltann. Markmannstreyja Gunnleifs er eilítið lík KR-treyjunni. Áhugavert.
2. mín
KR:
Haukur - Aron - Grétar - Guðmundur
Jónas - Baldur
Kjartan - Almarr - Óskar
Martin
Breiðablik:
Gísli - Elfar - Finnur - Arnór
Stefán - Andri
Ellert - Guðjón - Höskuldur
Árni
7. mín
ARON BJARKI BJARGAR Á LÍNU!!!
Höskuldur Gunnarsson náði að leika á Hauk Heiðar og komast upp að endamörkum og sendi fyrir markið. Árni Vilhjálms náði skallanum og Aron Bjarki skemmdi markið fyrir honum með því að skalla frá.
8. mín
MARK!Árni Vilhjálmsson (Breiðablik)
Stoðsending: Guðjón Pétur Lýðsson
Guðmundur Benediktsson er kominn yfir gegn sínu gamla liði!
Guðjón Pétur átti einfalda en góða sendingu á Árna sem tók boltann bara með sér, fór framhjá Aroni Bjarka og böðlaði boltanum í fjærhornið í stöngina og inn.
10. mín
Grétar Sigfinnur togar Guðjón Pétur niður bóksstaflega á vítateigslínunni. Eða svo vill Garðar meina. Einhverjir Blikar vildu víti. Stórhættulegur staður.
11. mín
Ellert Hreinsson þrumaði beint í vegginn úr spyrnunni. Sem var ágætt fyrir Stefán Loga því hann var fáránlega staðsettur.
12. mín
Það er eilítill blástur hérna á móti Blikum. Spurning hvort það háir þeim eða hjálpar.
15. mín
Blæstrinum virðist fylgja einhver væta. Þrumustuð.
16. mín
Sendingar hafsentanna Grétar og Arons hafa ekki verið til útflutnings hérna fyrsta korterið. Verið arfaslakar. Bæði Mummi og Haukur fara langt upp á völlinn og oftar en ekki hafa þeir þurft að keyra til baka sökum skelfilegra sendinga.
25. mín
Hér er mest fátt að frétta. Nema það rignir.
28. mín
Árni Vilhjálmsson er utan vallar að fá aðhlynningu.
30. mín
Árni kom inn á, lenti saman við Grétar Sigfinn og er búinn. Kallar eftir skiptingu. Slæmar fréttir fyrir Breiðablik. Heldur um nárann.
32. mín
Inn:Elfar Árni Aðalsteinsson (Breiðablik)
Út:Árni Vilhjálmsson (Breiðablik)
Læri eða nári að angra Árna.
33. mín
Óskar Örn með aukaspyrnu sem ratar á Gary á fjær. Hann klafsar boltanum fyrir þar sem Grétar kemst í hann en nær ekki skoti. Varnarmaður Blika sem var að dekka Gary togaði reyndar all duglega í hann.
38. mín
Þetta er svoooooo ófrjótt hjá KR. Blikar eru meira og minna mættir alltaf og stöðva tilburði þeirra strax.
42. mín
Elfar Árni klobbar Aron Bjarka félaga sinn frá Húsavík en brýtur svo á honum í kjölfarið að mati Garðars. Erfitt að meta hvor braut á hvorum en ljóst er að Aron fær seint að gleyma þessum klobba.
45. mín
Venjulegum leiktíma lokið. Mínútu bætt við.
45. mín
Fyrsta almennilega tilraun KR. Skot frá Gary Martin sem fór rétt framhjá.
45. mín
Búið að flauta til hálfleiks. Höskuldur hafði unnið hornspyrnu fyrir Breiðablik en Garðar Örn gaf Blikum ekki færi á að taka hornið heldur flautaði strax til hálfleiks.
45. mín
Leikurinn byrjaði sæmilega fyrir KR-inga. Þeir pressuðu og virtust líklegri. En eftir að markið kom þá hefur ekkert verið að frétta hjá þeim. Það gerist ekki neitt og þegar eitthvað gerist þá eru Blikar mættir og drepa það niður. Vel skipulagt hjá Gumma Ben.
45. mín
Farid-Zato er farinn úr æfingagallanum og kemur líklega inn á von bráðar.
46. mín
Inn:Abdel-Farid Zato-Arouna (KR)
Út:Almarr Ormarsson (KR)
Síðari hálfleikur farinn af stað. Farid kemur inn á fyrir Almarr sem var næsta ósýnilegur í fyrri hálfleik.
48. mín
Elfar Árni komst framhjá Guðmundi Reyni og hafði allan tíma heimsins til að finna samherja. Veðjaði á rangan hest og færið rann út í sandinn.
50. mín
Völlurinn töluvert blautur og margir leikmenn virðast eiga erfitt með að fóta sig. Nokkrir Blikar verið að fljúga á hausinn.
52. mín
MARK!Kjartan Henry Finnbogason (KR)
Stoðsending: Haukur Heiðar Hauksson
Það þarf svo lítið til. Augnabliks gleymska í vinstri bakverðinum hjá Breiðabliki og Haukur Heiðar fékk að senda fyrir. Á markteigshorninu var Kjartan Henry og náði að setja boltann í netið.
53. mín
Blikar fóru beint í sókn eftir markið og áttu hættulega fyrirgjöf. Hún var skölluð frá en beint á Ellert Hreins að mér sýndist. Hann átti skot sem fór beint í hausinn eða kassann á Aroni Bjarka. Blikar vildu fá hendi víti en þetta var nokkuð greinilega ekki hendi.
55. mín
Guðmundur Reynir með stórhættulega fyrirgjöf sem Kjartan Henry var hársbreidd frá því að tengja við.
57. mín
Garðar Örn sleppir Elfari Árna við spjald og sleppti Mumma við spjald áðan. Við erum að gera því í skóna að þetta sé glæsilegt tónlistarval í upphituninni.
58. mín
Grétar Sigfinnur liggur eftir að Elfar Árni fór undir hann og lét hann missa jafnvægið. Lenti illa. Elfar fór svo í hressilega tæklingu. Hlýtur að fara að fá spjald.
60. mín
Menn héldu að þessi hefði farið inn. Hornspyrna tekin stutt og Óskar Örn senti fyrir. Beint á kollinn á Hauki Heiðari sem átti þrumuskalla rétt framhjá. Hefði þessi farið á markið hefði enginn stöðvað hann.
61. mín
Guðjón Pétur reynir skot af löngu færi úr aukaspyrnu. Jarðarbolti sem Stefán Logi þarf þó að kasta sér til hliðar til að verja.
62. mín
Óskar Örn reynir skot með hægri eftir fyrirgjöf Hauks Heiðar. Vonlaust skot.
63. mín
Þarna átti Elfar Árni að gera miklu, miklu betur. Var kominn í ákjósanlegt færi og hafði mikinn tíma en skotið var bara vonlaust í alla staði. Skóflaði boltanum framhjá. Langt framhjá.
64. mín
Gult spjald: Kjartan Henry Finnbogason (KR)
Kjartan Henry fyrsti maðurinn til að fara í svörtu bókina. Tæklaði Andra Yeoman sem liggur eftir og líður ekki mjög vel.
67. mín
Rautt spjald: Stefán Logi Magnússon (KR)
Húsvíkingarnir Elfar Árni og Aron Bjarki voru í kapphlaupi og Stefán Logi tók ákvörðun um að fara úr markinu. Sýndist hann ná boltanum en tók Elfar Árna niður. Baróninn ráðfærir sig við aðstoðardómarann og fær fyrir vikið rautt spjald.
Ég þekki ekki reglurnar nógu vel en mér fannst þetta hálf ódýrt eitthvað. Ég veit náttúrulega ekki rassgat. Kannski var þetta bara hárrétt.
69. mín
Inn:Sindri Snær Jensson (KR)
Út:Jónas Guðni Sævarsson (KR)
Fyrsti leikur Sindra í Pepsi-deildinni fyrir KR. Stuðningsmenn KR alls ekki hrifnir með þessa þróun mála.
73. mín
Elfar Árni prófar nýja markvörðinn. Klobbar Mumma með skoti en Sindri Snær er vel á verði og ekki í neinu veseni.
77. mín
Baldur Sigurðsson tók Elfar Árna niður á miðjum vellinum. Guðjón Pétur tók spyrnuna snöggt og Ellert Hreinsson fékk boltann. Skaut að marki en eilítið yfir.
78. mín
Aukaspyrna á stórhættulegum stað fyrir KR. Bara á sama stað og Breiðablik fékk aukaspyrnu í fyrri hálfleik. Elfar Freyr fór með sólann nokkuð hátt. Þetta er á vítateigslínunni.
79. mín
Spyrnan tekin stutt af Kjartani og Óskar tók skotið. Yfir markið.
84. mín
Inn:Elvar Páll Sigurðsson (Breiðablik)
Út:Ellert Hreinsson (Breiðablik)
84. mín
Inn:Baldvin Sturluson (Breiðablik)
Út:Andri Rafn Yeoman (Breiðablik)
Hans fyrsti leikur fyrir Breiðablik.
84. mín
Inn:Gonzalo Balbi Lorenzo (KR)
Út:Óskar Örn Hauksson (KR)
Skiptingar þessa leiks kláraðar á einu bretti.
87. mín
Gary Martin virðist hafa fært lögheimi sitt í rangstöðuna. Flaggaður rangur ítrekað.
90. mín
Uppbótartími verður fimm mínútur hið minnsta.
90. mín
Höskuldur með skalla yfir markið af vítapunktinum. Fyrirgjöfin frá Elvari Páli.
90. mín
Það er nánast orðið of dimmt úti til að spila knattspyrnu. Þungskýjað og dimmt. Ekki spennandi kokteill.
90. mín
Hvað var Gary Martin að spá? Blikar unnu boltann og voru með grimma yfirtölu og hann henti bara í skelfingar sendingu til að láta færið renna út í sandinn.
Leik lokið!
Eitt eitt jafntefli öllum til mikillar gremju.