Fyrir leik
Halló Álborg!
Hér verður bein textalýsing frá fyrri leik U21 árs liðs Danmerkur og Íslands í umspili um sæti á EM í Tékklandi á næsta ári.
Ísland endaði í öðru sæti í sínum riðli á eftir Frökkum með 16 stig í átta leikjum.
Danir rúlluðu sínum riðli upp. Danir unnu átta leiki í riðlinum og gerðu tvö jafntefli en þeir enduðu með markatöluna 37-9. Ljóst er að þeir eru með hörkulið!
Leikurinn í dag fer fram á heimavelli Aab í Álaborg en Eyjólfur Sverrisson og Tómas Ingi Tómasson þjálfarar íslenska liðsins þekkja völlinn vel sem og fleiri tengdir liðinu.
Ísland spilaði nefnilega í Álaborg í lokakeppni EM 2011 en margir úr því liði eru í dag í íslenska A-landsliðinu. Við vonum að núverandi lið geti leikið sama leik og farið áfram með hagstæðum úrslitum í dag og í síðari leiknum á Laugardalsvelli á þriðjudag.
Fyrir leik
Alexander Scholz, fyrrum leikmaður Stjörnunnar, er í danska liðinu og mun væntanlega spila í hægri bakverði. Hann er bjartsýnn fyrir leikinn í dag.
,,Við erum líklegri, það er klárt. Ísland er með gott lið og ég kannast við leikmenn síðan ég spilaði þar. Þeir hafa mikil gæði, sérstaklega í byrjunarliðinu."
Fyrir leik
Jón Daði Böðvarsson er ekki með U21 árs landsliði Íslands í dag þar sem hann er í A-landsliðinu sem mætir Lettum í kvöld.
Christian Eriksen (Tottenham), Pierre-Emile Højbjerg (FC Bayern), Nicolai Boilesen (Ajax), Uffe Bech (FC Nordsjælland), Yussuf Poulesen (Leipzig) og Jores Okore (Aston Villa) eru allir í A-landsliðinu en þeir eru líka gjaldgengir í U21 árs liðið. Þeir verða í eldlínunni með A-landsliði Dana gegn Albaníu á morgun.
Fyrir leik
Rúnar Alex Rúnarsson markvörður íslenska liðsins spilar með Nordsjælland í Danmörku og þekkir danska liðið ágætlega. ,,Þeir eru með frábæra einstaklinga sem spila í stórum deildum og eru flestir að fá mínútur með sínum félagsliðum. Þetta eru meira einstaklingar hjá þeim en liðsheild hjá okkur."
Fyrir leik
Takið þátt í umræðunni í kringum leikinn á Twitter með því að nota kassamerkið #fotboltinet
Fyrir leik
Menn í íslenska liðinu eru sammála um að jafntefli væru fín úrslit í dag.
Tómas Ingi Tómasson, aðstoðarþjálfari
,,Ég hugsa að við myndum kaupa það ef það væri til sölu út í búð. Það væru góð úrslit fyrir okkur. Aðalmálið er að fara heim og eiga séns í seinni leiknum. Þetta verður gríðarlega erfitt en við eigum alveg séns."
Fyrir leik
Allt að 100 útsendarar frá félögum í Evrópu verða á leiknum í kvöld. Meðal annars mæta útsendarar frá Manchester United, Chelsea, FC Bayern og Juventus. Það er alveg til verri tími til að eiga stórleik en í dag.
Fyrir leik
Orri Sigurður Ómarsson, AGF
,,Þeir halda að þeir muni koma létt í þetta og taka þetta með annarri. Við erum samt komnir jafn langt og þeir og það er ekkert auðvelt hjá þeim."
Fyrir leik
Liran Liany frá Ísrael dæmir leikinn. David Elias Biton og Dvir Shimon eru honum til aðstoðar. Fjórði dómari verður Erez Papir.
Fyrir leik
Frítt er á leikinn í dag og spennandi er að sjá hvað margir nýta sér það. Leikvangurinn tekur 10.500 manns í sæti og vitað er af hóp Íslendinga sem ætlar að skella sér á völlinn.
Fyrir leik
U21 árs landsliðið fór á EM í Danmörku árið 2011 og Hjörtur Hermannsson vonast til að ná sama árangri. ,,Við lítum upp til þeirra stráka og þeir eru að standa sig vel nú með A-landsliðinu. Við viljum klárlega leika það eftir."
Fyrir leik
Hólmbert Aron Friðjónsson kom til danska félagsins Bröndby á dögunum.
,, Það er búið að fjalla mikið um þennan leik í blöðunum og svona. Það er þokkalegur hroki í þeim og það er bara gott fyrir okkur. Þetta verður hörkuleikur."
Fyrir leik
Byrjunarliðin voru að detta inn.
Hjörtur Hermannsson, varnarmaður PSV Eindhoven, er ekki í hóp vegna meiðsla og sömu sögu er að segja af Kristjáni Gauta Emilssyni framherja NEC Nijmegen. Þeir höfðu verið tæpir fyrir leikinn og náðu ekki heilsu í tæka tíð.
Brynjar Gauti Guðjónsson kemur inn í vörnina og þeir Hólmbert Aron Friðjónsson og Emil Atlason byrja frammi. Emil er markahæstur í íslenska liðinu í undankeppninni en hann byrjaði á bekknum í síðasta leik gegn Frökkum.
Fyrir leik
Fátt óvænt í liði Dana. Jonas Knudsen kemur inn í vinstri bakvörðinn fyrir Riza Rumisi. Alexander Scholz, fyrrum leikmaður Stjörnunnar, er hægri bakvörður og í hjarta varnarinnar eru Frederik Sörensen (Juventus) og Jannik Verstergaard (Hoffenheim).
Fyrir leik
Nikolja Thomsen, leikmaður Álaborgar, og Lasse Vigen Christensen hjá Fulham eru á miðjunni hjá Dönum. Báðir þykja þeir gríðarlega efnilegir. Framtíðarlandsliðsmenn hjá Dönum.
Fyrir leik
Andreas Cornelius leikmaður FCK byrjar frammi en hann er afar kokhraustur fyrir leikinn. ,,Ég ber virðingu fyrir íslensku leikmönnunum en ég reikna ekki með að þetta verði mikið vandamál fyrir okkur," sagði Cornelius í viðtali á Fótbolta.net fyrr í vikunni.
Cornelius kom með skottið á milli lappanna heim í FCK í sumar eftir misheppnaða dvöl hjá Cardiff. Vonandi verður honum ekki að ósk sinni í komandi leikjum.
Fyrir leik
Liðin eru að hita upp á vellinum. Kjöraðstæður. Logn og smá bleyta á vellinum.
Fyrir leik
Hressir stuðningsmenn Íslands eru mættir með trommur á völlinn. Láta strax vel í sér heyra í upphitun. Danskir krakkar reyna að veita þeim keppni en gengur illa.
Fyrir leik
Íslendingarnir láta vel í sér heyra og yfirgnæfa Danina.
Fyrir leik
Leikmennirnir voru að klára upphitun. Þeim er klappað lof í lófa þegar þeir ganga til búningsherbergja.
Fyrir leik
Alexander Scholz og Jannik Westergaard leikmaður Hoffenhem hafa tengingu við Þýskalandi og gætu spilað með þýska landsliðinu.
Fyrir leik
Maður í jakkafötum fer yfir leikplanið með boltastrákunum. Þeir eru allir í litríkum takkaskóm. Ekkert að því.
Fyrir leik
Búið að leika þjóðsöngvana. Liðsmyndataka og svo byrjar ballið.
1. mín
Leikurinn er hafinn hér í Álaborg. Vonandi endurtaka strákarnir okkar glæsilegt afrek forvera þeirra frá EM 2011 og vinna þennan leik!
Alexander Freyr Tamimi
5. mín
Íslenska liðið byrjar þokkalega vel, hefur í tvígang sótt á mörgum mönnum en vantað herslumuninn.
Alexander Freyr Tamimi
7. mín
Janfræði í byrjun leiks. Íslendingar engu síðri.
8. mín
Íslenska liðið verst mjög aftarlega. Emil og Hólmbert koma alveg niður á miðjan vallarhelming og varnarlínan er við vítateiginn.
10. mín
Danir fá fyrstu hornspyrnu leiksins.
12. mín
Gummi Tóta með aukaspyrnu inn á teiginn og Danir skalla boltann aftur fyrir. Hornspyrna.
12. mín
Hættuleg spyrna sem David Jensen kýlir frá. Boltinn fer á Arnór Ingva utarlega í teignum en hann þarf að teygja sig og skotið fer næstum yfir stúkuna.
13. mín
Íslendingar koma Dönum í opna skjöldu með því að pressa eftir markspyrnuna. Emil Atlason leggur boltann á Ólaf Karl Finsen sem á skot úr vítateigsboganum en beint á Jensen. Vel gert hjá íslenska liðinu!
19. mín
Jonas Knudsen með aukaspyrnu frá vítateigshorninu hægra megin en boltinn siglir yfir alla og aftur fyrir endamörk. Döpur spyrna.
20. mín
Íslenska liðið liggur gífurlega aftarlega. Danir eiga engin svör ennþá.
23. mín
Ólafur Karl Finsen leikur í raun sem vinstri bakvörður þegar íslenska liðið er að verjast. Fimm manna lína, þrír þar fyrir framan og síðan koma Emil og Hólmbert.
24. mín
Danny Amankwaa með skot hátt yfir eftir hornspyrnu. Tók boltann á lofti fyrir utan vítateig.
30. mín
Íslensku stuðningsmennirnir eiga stúkuna gjörsamlega. Daninn bregður á það ráð að senda nokkra unga krakka fyrir framan Íslendingana til að reyna að veita þeim keppni í söngnum.
35. mín
,,Tíu mínútur, áfram með okkur," öskrar Sverrir Ingi fyrirliði. Fín frammistaða hingað til. Danir ekki fengið færi.
35. mín
Brynjar Gauti vinnur boltann og reynir skot af 70 metra færi! Vantar kraft í þetta hjá sveitastráknum og skotið ógnar ekkert.
39. mín
LANGBEESTA FÆRI LEIKSINS! Alexander Scholz sendir boltann á milli Harðar og Sverris og Lasse Christensen kemst einn gegn Rúnari Alex. Skotið er sem betur fer yfir markið.
41. mín
,,Strákar, reynum að halda betur í boltann," öskrar Tómas Ingi Tómasson aðstoðarþjálfari á hliðarlínunni.
42. mín
Arnór Ingvi með skot í varnarmann og aftur fyrir. Hornspyrna.
43. mín
Andreas Cornelius skorar með skalla en markið er dæmt af vegna bakhrindingar. Cornelius er brjálaður en þetta var réttur dómur. Hlutlaust mat.
44. mín
Ágætis skyndisókn hjá íslenska liðinu. Gummi Tóta kemur upp með boltann og gefur á Ólaf Karl sem á skot en boltinn fer í Alexander Scholz og þaðan í innkast.
45. mín
Hálfleikur - Danir eiga aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Íslands og eru lengi að athafna sig. Dómarinn frá Ísrael fær nóg og flautar bara til hálfleiks.
Fín frammistaða hjá íslenska liðinu. Varnarleikurinn er í algjöru fyrirrúmi en þetta er í góðu lagi svona. Jafntefli hér væru fín úrslit fyrir síðari leikinn á Laugardalsvelli.
46. mín
Síðari hálfleikurinn er hafinn. Óbreytt liðsskipan. DJ-inn er eitthvað að gleyma sér og lagið ,,waterfalls" hljómar í hátölurum vallarins í byrjun hálfleiksins.
48. mín
Scholz með fyrirgjöf á Nicolaj Thomsen á skalla sem fer beint á Rúnar Alex.
50. mín
Íslenska liðið pressar í markspyrnum. Þröngva markvörðinn David Jensen í erfiða stöðu en hann er ekki með góðar spyrnur. Annars er rútunni lagt ef dönsku varnarmennirnir ná að spila út.
51. mín
Íslensku stuðningsmennirnir syngja Öxar við ána í stúkunni. Hressandi. Stuðningsmennirnir fá toppeinkunn í dag.
54. mín
Danir beittari sem fyrr. Íslenski varnarmúrinn áfram þéttur.
56. mín
Hættuleg sókn hjá Dönum en Hörður setur fyrirgjöf frá Scholz aftur fyrir endamörk á síðustu stundu.
57. mín
Vandræðagangur í íslensku vörninni eftir hornspyrnuna en á endanum líður hættan hjá.
58. mín
,,Ísland á EM" syngja stuðningmsennirnir núna.
66. mín
Sverrir Ingi fer út af með blóðnasir. Doktor Hjalti Kristjánsson græjar málið á engum tíma.
67. mín
Inn:Youssef Toutouh (Danmörk U21)
Út:Lucas Andersen (Danmörk U21)
68. mín
Eyjólfur hefur ekki gert sig líklegan til að gera breytingu ennþá. Árni Vilhjálmsson, Sigurður Egill Lárusson og Emil Pálsson voru þó að byrja að hita upp.
69. mín
Lasse Christensen með hörkuskot en boltinn fer í Arnór og þaðan aftur fyrir endamörk. Hornspyrna.
70. mín
David Jensen, markvörður Dana, er í basli með spyrnurnar. Um að gera að pressa á hann áfram þegar færi gefst.
71. mín
6125 áhorfendur á leiknum í dag þrátt fyrir að það sé frítt inn. Áhuginn ekkert að fara með Danina.
74. mín
Íslenska liðið hefur ekkert ógnað fram á við í síðari hálfleiknum. Framherjarnir virka þreyttir. Spurning um skiptingu fljótlega?
76. mín
Gult spjald: Andreas Cornelius (Danmörk U21)
84. mín
Thomsen með skot sem Rúnar Alex ver vel. Danir að auka pressuna ennþá meira þessar mínúturnar. Koma svo, halda út!
90. mín
Gult spjald: Hörður Björgvin Magnússon (Ísland U21)
Fyrir að tefja. Lengi að taka aukaspyrnu.
90. mín
Tvær mínútur í viðbótartíma.
90. mín
Íslensku áhorfendurnir syngja ,,ole, ole, ole." Of mikið?
Leik lokið!
Sterkt jafntefli á útivelli gegn Dönum. Allt opið fyrir síðari leikinn á Laugardalsvelli á þriðjudag klukkan 16:15. Allir á völlinn!