City vill Guehi - Rashford orðaður við Atletico og Arabíu - Real Madrid hyggst funda með Trent í janúar
Stjarnan
0
1
Breiðablik
0-1 Fanndís Friðriksdóttir '49
21.08.2015  -  18:00
Samsung völlurinn
Pepsi-deild kvenna 2015
Dómari: Guðmundur Ársæll Guðmundsson
Byrjunarlið:
1. Sandra Sigurðardóttir (m)
Harpa Þorsteinsdóttir
Ana Victoria Cate
5. Írunn Þorbjörg Aradóttir
6. Lára Kristín Pedersen ('72)
7. Ásgerður Stefanía Baldursdóttir (f)
9. Kristrún Kristjánsdóttir
15. Rachel S. Pitman ('86)
19. Anna Björk Kristjánsdóttir
21. Francielle Manoel Alberto
22. Poliana Barbosa Medeiros

Varamenn:
Theodóra Dís Agnarsdóttir
1. Berglind Hrund Jónasdóttir
4. Björk Gunnarsdóttir
11. Guðrún Karítas Sigurðardóttir ('86)
17. Rúna Sif Stefánsdóttir ('72)
24. Bryndís Björnsdóttir

Liðsstjórn:

Gul spjöld:

Rauð spjöld:
Leik lokið!
BREIÐABLIK TEKUR STIGIN ÞRJÚ!!!! Þær eru með sjö stiga forskot á toppi deildarinnar þegar fjórir leikir eru eftir! Það þarf eitthvað ævintýralegt að gerast til að þeir verði ekki Íslandsmeistarar, og þær eiga það einfaldlega skilið! Hafa unnið báða leikina gegn Stjörnunni og áttu sannarlega skilið að taka þrjú stig í kvöld! Þær hafa ekki fengið á sig mark í yfir 1000 mínútur!
90. mín
Inn:Ingibjörg Sigurðardóttir (Breiðablik) Út:Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir (Breiðablik)
Síðasta skipting Blika.
90. mín
Við erum komin í uppbótartíma, Blikarnir eru að sigla sigrinum og þá líklega titlinum í hús!!
90. mín
Inn:Hildur Sif Hauksdóttir (Breiðablik) Út:Svava Rós Guðmundsdóttir (Breiðablik)
Hildur Sif kemur inn á fyrir Svövu. Þetta fer að verða búið.
86. mín
Inn:Guðrún Karítas Sigurðardóttir (Stjarnan) Út:Rachel S. Pitman (Stjarnan)
Guðrún Karítas kemur inn fyrir Rachel.
85. mín Gult spjald: Málfríður Erna Sigurðardóttir (Breiðablik)
Rachel Pitman á frábæran sprett en Málfríður klippir hana niður örfáum millimetrum fyrir utan teiginn. Stjarnan fær aukaspyrnu á hættulegum stað.
83. mín
Blikastelpur eru búnar að halda hreinu í yfir 1000 mínútur!!! Geri aðrir betur!!
76. mín
Dauðafæri hjá Stjörnunni! Koma boltanum inn í teiginn, boltinn endar hjá Rachel Pitman sem er í fínu skotfæri, kannski svolítið þröngu, en skot hennar fer beint á Sonnýu sem heldur boltanum!
73. mín
Fátt sem bendir til þess að Stjarnan fái neitt úr þessum leik. Blikar eru gjörsamlega að halda þeim í skefjum. Það finnast engar glufur, þær eru allar að berjast eins og ljón. Ég held við séum að horfa á mjög verðuga Íslandsmeistara í liði Blika.
72. mín
Inn:Rúna Sif Stefánsdóttir (Stjarnan) Út:Lára Kristín Pedersen (Stjarnan)
Stjarnan gerir sína fyrstu breytingu, Rúna Sif kemur inn á fyrir Láru Kristínu. Öskufljót og gæti valdið usla.
69. mín
Þarna munar litlu!!! Stjarnan með fína sókn, boltinn berst til Poliönu sem lætur vaða utan teigs en boltinn fer rétt rétt framhjá!
60. mín
Inn:Telma Hjaltalín Þrastardóttir (Breiðablik) Út:Aldís Kara Lúðvíksdóttir (Breiðablik)
Blikar auka hraða sinn fram á við með þessari skiptingu, Telma Hjaltalín kemur inn fyrir Aldísi Köru.
59. mín
Stjarnan búin að taka yfir leikinn í raun og veru eftir að þær lentu undir. Blikaliðið búið að falla aðeins til baka og ætlar að freista þess að beita skyndisóknum. Stjarnan er samt ekki að finna neinar glufur.
53. mín
Stjarnan fær hornspyrnu og Poliana nær skallanum, en vel yfir.
50. mín
Áfall fyrir Stjörnuna, sem byrjaði seinni hálfleikinn ágætlega. Staðan er afskaplega einföld, þær þurfa að skora tvö mörk á 40 mínútum gegn liði sem hefur haldið hreinu í tíu leikjum í röð. Annars er titillinn svo gott sem Blika. Ekki öfundsvert verkefni.
49. mín MARK!
Fanndís Friðriksdóttir (Breiðablik)
Stoðsending: Fjolla Shala
VÁVÁVÁ!!!! MAAAAAAAAAAARK!!! ÞVÍLÍKT MARK!!!! FANNDÍS FÆR BOLTANN, LEIKUR SÉR AÐ ÞVÍ AÐ KOMA SÉR Í SKOTFÆRI OG LÚÐRAR BOLTANUM Í FJÆRHORNIÐ MEÐ HNITMIÐUÐU SKOTI UTAN TEIGS!! Titillinn færist nær Blikum!!!
48. mín
Þokkalega spilað hjá Stjörnunni en Francielle ákveður svo að skjóta af 25 metrunum en skot hennar er auðveldlega varið af Sonnýu.
47. mín
Stjarnan byrjar á fínni sókn, Poliana kemur boltanum í teiginn á Hörpu, sem reynir svo að koma boltanum út á Ásgerði Stefaníu en Blikar bjarga.
46. mín
Leikurinn er byrjaður á ný og Blikastúlkur byrja með boltann, sækja í áttina að "skóginum". Vallarklukkunni. Ekki Hofstaðarskóla. Þið fattið mig.
45. mín
Hálfleikur
Hálfleikur! Staðan markalaus en að mínu mati hafa Blikar verið sterkari aðilinn og mun líklegri til að skora! En þetta er spennandi, hörkubarátta!
45. mín
Hörkufæri hjá Blikum!! Svava Rós fær boltann í teignum en hann fer af varnarmanni og Sandra ver.
43. mín
Stjarnan með ágætis sókn en eru allt of lengi að gefa boltann á Önu Cate sem er komin í flott hlaup. Þegar hún fær boltann er hún komin í rangstöðu.
37. mín
ÞARNA MUNAÐI LITLU!! Svava Rós fer illa með Kristrúnu á hægri kantinum, geysist framhjá henni og kemur með stórhættulegan bolta fyrir! Þar er Fanndís ein og yfirgefin, lætur vaða en Sandra ver meistaralega í horn! Þarna sá ég fyrir mér fyrsta mark leiksins detta inn!
34. mín
Fanndís búin að vera stórhættuleg í þessum leik. Tekur flottan sprett og kemur með þrumuskot en það er beint á Söndru sem grípur.
32. mín
Blikar fá hornspyrnu. Stórhættuleg spyrna sem mér sýndist Sandra slá yfir! En hefur farið af slánni greinilega fyrst ekki var dæmt horn.
29. mín
Fín sókn hjá Blikum! Fanndís með frábæran sprett og gullfallega stungusendingu inn á Aldísi, sem lætur vaða. Skotið fer hins vegar beint á Söndru sem heldur boltanum.
28. mín
Frekar lítið að gerast í þessum leik. Stjarnan er samt að fara að vinna sig betur í leikinn og ná betri tökum á boltanum. Lítið að frétta fram á við samt.
22. mín
Þarna munaði litlu!!! Hættulegur bolti berst fyrir og Rachel er nálægt því að skora sjálfsmark, en boltinn lekur rétt framhjá! Vissi ekki alveg hvað hún átti að gera þarna.
16. mín
Þarna var færi hjá Stjörnunni! Poliana gerir vel og kemur með stórhættulega fyrirgjöf fyrir! Ana Cate rétt missir af boltanum sem lekur framhjá.
15. mín
Korter liðið af leiknum. Blikar hafa verið sterkari aðilinn til að byrja með en í sjálfu sér ekki skapað mikið. Þær hafa þó verið að halda boltanum betur og komið nokkrum hættulegum boltum fyrir.
11. mín Gult spjald: Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir (Breiðablik)
Fyrsta spjaldið komið! Það fær Andrea Rán fyrir að taka niður Ásgerði.
9. mín
Ásgerður Stefanía brýtur af sér og Blikar fá aukaspyrnu á hættulegum stað. Hallbera tekur spyrnuna en hún svífur yfir leikmenn og aftur fyrir sig.
7. mín
Ætla nú að gefa ungum Stjörnustúlkum, getum kallað þær Silfurteskeiðina, það að þær láta ágætlega í sér heyra. En rétt í þessu átti Fanndís þrumuskot rétt yfir markið!
5. mín
Naunaunau, stuðningsmannasveit Blika, Kópacopana, er mætt á völlinn! Gæjinn í græna teygjugallanum og allt. Blikar ætla að vera með læti hérna í kvöld, þeir eru að breyta þessu í þeirra heimavöll bara! Gæti gefið Blikastúlkum extra boost.
3. mín
Blikar í góðri sókn og fá hornspyrnu. Hallbera tekur hana og boltinn svífur yfir allan teiginn, endar afturfyrir.
1. mín
Þetta er BYRJAÐ!!! Stærsti leikur sumarsins til þessa í kvennaboltanum, úrslitaleikurinn um titilinn, er farinn af stað! Ég á von á fjöri, dramatík, veislu, spjöldum, mörkum, æsingi.. öllum pakkanum! Það er Stjarnan sem byrjar með boltann!
Fyrir leik
Leikmennirnir mæta inn á með dómarann í fararbroddi. Það er fasteignasalinn Guðmundur Ársæll Guðmundsson sem dæmir hér í kvöld! Honum til aðstoðar eru Guðmundur Ævar Guðmundsson og Hálfdán R. Guðmundsson. Ég get ekki fullyrt að þeir séu bræður. Held meira að segja ekki.
Fyrir leik
Aðeins fleiri að mæta Garðabæjarmegin, en sömuleiðis Blikamegin! Það verður örugglega hörkustemning í stúkunni. Örfáar mínútur í leik.
Fyrir leik
Eins og er, þá eru Blikar að rústa stúkunni. Þeir eru mættir í hrönnum að styðja sínar stelpur. Maður sér varla Garðbæing inni á vellinum. Ef þetta er svona eru það bara Blikar sem eru á heimavelli. Væri frekar lummó ef það mættu ekki fleiri stuðningsmenn Stjörnunnar, verð nú að segja það.
Fyrir leik
Stjarnan hefur styrkt sig talsvert frá því að liðin mættust síðast. Þær hafa fengið tvo ótrúlega góða leikmenn frá Brasilíu, þær Francielle og Poliönu. Poliana skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri Stjörnunnar gegn Apollon og skoraði alls fimm mörk á Kýpur. Hún spilaði með landsliði Brasilíu á HM. Francielle er einnig ansi drjúg á miðjunni og hefur náð að skapa mikinn usla meðal andstæðinganna. Þá hafa Rachel Pitman og Jaclyn Softly komið inn í liðið, en sú síðarnefnda hefur verið mikið meidd og er ekki í hóp í kvöld. En það er ljóst að þessi liðsstyrkur gæti reynst Stjörnunni dýrmætur.
Fyrir leik
20 mínútur í leik og spennan magnast. Liðin eru á fullu að hita upp, grillið er í gangi fyrir utan. Aðstæður til knattspyrnu gerast varla betri, milt veður og bara allt í blóma.
Fyrir leik
Stjarnan hafði betur gegn Blikum fyrir tímabilið, bæði í leiknum um meistara meistaranna og í úrslitaleik Lengjubikarsins. Stjarnan vann svo Blika 2-1 í Borgunarbikarnum í Garðabæ. Hins vegar unnu Blikar góðan 1-0 sigur er liðin mættust á Kópavogsvelli í Pepsi-deildinni þann 9. júní, örfáum dögum eftir bikarleikinn.
Fyrir leik
Þessi lið eru svo sannarlega búin að breytast í alvöru erkifjendur undanfarin ár. Stjarnan hefur vissulega náð mögnuðum árangri á síðustu árum, unnið deildina tvisvar í röð og þrisvar á fjórum árum, og liðið tók bæði deild og bikar á síðustu leiktíð. Blikar hafa verið að berjast um titilinn við Stjörnuna og þær eru orðnar þreyttar á að sjá nágranna sína lyfta bikurum. Nú ætla þær sér að taka gullið. Félagið hefur styrkt sig vel á undanförnum árum og er núna með alveg frábært lið, vel mannað í öllum stöðum. Það er Stjarnan vissulega líka.
Fyrir leik
Fyrir þá sem eru að lesa þetta og eru svona að ííhuga að fara á leikinn, aðeins að pæla í því.. ég á nú ekki að hvetja fólk til að lesa ekki vefsíðuna okkar, en SKELLIÐ ykkur á þennan leik!! Það er enginn annar fótbolti í Pepsi-kvenna, enginn í Pepsi-karla í bænum, þetta er á fínum tíma, þetta er stærsti leikur sumarsins í kvennaboltanum og bara gríðarlega flottur leikur í alla staði. Tvö bestu lið landsins leggja allt að veði í von sinni um að landa meistaratitlinum. Ég titra af spenningi bara við að skrifa þetta! Við þurfum að sýna samstöðu og sýna að kvennaboltinn er mikils virði og vel metinn. Þannig að hvort sem þú ert leikmaður annars liðs, stuðningsmaður annars liðs eða bara áhugamaður/kona um knattspyrnu - skelltu þér í Garðabæinn og njóttu þess að horfa á frábæran fótbolta! Bara smá hugmynd.
Fyrir leik
Breiðablik stillir upp óbreyttu liði frá því í 3-0 sigrinum gegn Fylki í síðasta deildarleik.
Fyrir leik
Stjarnan gerir eina breytingu á sínu byrjunarliði frá því í 4-0 sigri gegn Val í síðasta deildarleik. Rachel Pitman kemur inn í byrjunarliðið fyrir Rúnu Sif Stefánsdóttur. Rachel gegndi mikilvægu hlutverki í hægri bakverðinum á Kýpur, en hún er tiltölulega nýkomin í lið Stjörnunnar.
Fyrir leik
Byrjunarliðin eru komin inn og má sjá hér til hliðar.
Fyrir leik
Tímabil Stjörnunnar er nú heldur ekkert til að skammast sín fyrir. Liðið er komið í bikarúrslit og unnið átta deildarleiki í röð. Stjörnustúlkur voru hins vegar örlítið hikstandi í byrjun tímabils. Þær töpuðu gegn Selfossi í 3. umferð og töpuðu svo gegn Breiðabliki skömmu síðar í deildinni, örfáum dögum eftir að hafa slegið þær út úr bikarnum. Þær hafa verið öflugar síðan þá en hins vegar hafa Blikar ekki gefið þeim nein tækifæri til að saxa á forskot sitt.
Fyrir leik
Blikar hafa átt hreinlega magnað tímabil og ef þær vinna titilinn eru þær svo sannarlega vel að því komnar. Liðið hefur unnið alla leiki nema einn, sem endaði með jafntefli gegn KR. Blikar hafa skorað 37 mörk og einungis fengið tvö á sig. Þær hafa haldið hreinu í tíu deildarleikjum í röð, sem er gjörsamlega magnað. Þetta hljómar eins og tölfræði meistara, getum ekki neitað því.
Fyrir leik
Stjörnustúlkur koma inn í þennan leik eftir góða sólarlandaferð til Kýpurs. Þar tók liðið þátt í undankeppni Meistaradeildarinnar og vann alla þrjá leiki sína. Liðið byrjaði á sigrum gegn Hibernians frá Möltu og KÍ/Klaksvík frá Færeyjum. Stjarnan hafði svo betur, 2-0, gegn heimastúlkum í Apollon Nicosia í sannkölluðum úrslitaleik. Appolon var sterkasta lið allrar undankeppninnar samkvæmt UEFA lista og því um mikið afrek að ræða hjá Stjörnunni, sem mun í haust taka þátt í 32-liða úrslitum Meistaradeildarinnar gegn rússnesku liði Rauðu Stjörnunnar. Það er sama lið og sló Stjörnustúlkur nokkuð auðveldlega úr leik í fyrra.
Fyrir leik
Komið þið sæl og blessuð og verið hjartanlega velkomin í beina textalýsingu frá leik Stjörnunnar og Breiðabliks í Pepsi-deild kvenna. Þetta er leikurinn sem við höfum beðið svo lengi eftir, þetta er hálfgerður úrslitaleikur um titilinn! Ef Breiðablik vinnur þennan leik, þá er Íslandsmeistaratitillinn einfaldlega þeirra. Ef þetta endar sem jafntefli, þá eru Blikastúlkur einnig í frábærum málum. Beri Stjarnan sigur úr bítum munar hins vegar bara stigi á liðunum og þá getur allt gerst! Ég á von á HÖRKULEIK í kvöld!
Byrjunarlið:
1. Rakel Hönnudóttir (m)
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir ('90)
Fjolla Shala
Sonný Lára Þráinsdóttir
2. Svava Rós Guðmundsdóttir ('90)
6. Aldís Kara Lúðvíksdóttir ('60)
8. Málfríður Erna Sigurðardóttir
10. Jóna Kristín Hauksdóttir
14. Hallbera Guðný Gísladóttir
23. Fanndís Friðriksdóttir
28. Guðrún Arnardóttir

Varamenn:
26. Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir (m)
Telma Hjaltalín Þrastardóttir ('60)
7. Hildur Sif Hauksdóttir ('90)
15. Steinunn Sigurjónsdóttir
25. Ingibjörg Sigurðardóttir ('90)

Liðsstjórn:

Gul spjöld:
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir ('11)
Málfríður Erna Sigurðardóttir ('85)

Rauð spjöld: