Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
Stjarnan
2
3
ÍBV
0-1 Cloé Lacasse '4
Agla María Albertsdóttir '41 1-1
Harpa Þorsteinsdóttir '43 2-1
2-2 Kristín Erna Sigurlásdóttir '89
2-3 Sigríður Lára Garðarsdóttir '112
09.09.2017  -  17:00
Laugardalsvöllur
Borgunarbikar kvenna
Dómari: Bríet Bragadóttir
Maður leiksins: Cloé Lacasse
Byrjunarlið:
12. Gemma Fay (m)
Harpa Þorsteinsdóttir
Ana Victoria Cate ('73)
4. Kim Dolstra ('116)
5. Lorina White
6. Lára Kristín Pedersen
9. Kristrún Kristjánsdóttir ('103)
10. Anna María Baldursdóttir (f)
11. Guðmunda Brynja Óladóttir
17. Agla María Albertsdóttir
30. Katrín Ásbjörnsdóttir

Varamenn:
7. Ásgerður Stefanía Baldursdóttir
14. Donna Key Henry ('73)
15. Kolbrún Tinna Eyjólfsdóttir
16. María Eva Eyjólfsdóttir
19. Birna Jóhannsdóttir
24. Bryndís Björnsdóttir ('103)

Liðsstjórn:
Ólafur Þór Guðbjörnsson (Þ)
Inga Birna Friðjónsdóttir
Helga Franklínsdóttir
Þóra Björg Helgadóttir
Andrés Ellert Ólafsson
Eva Linda Annette Persson
Einar Páll Tamimi
Viktoría Valdís Guðrúnardóttir

Gul spjöld:
Lorina White ('51)
Harpa Þorsteinsdóttir ('62)
Agla María Albertsdóttir ('98)
Kristrún Kristjánsdóttir ('99)

Rauð spjöld:
Leik lokið!
ÍBV ER BORGUNARBIKARMEISTARI KVENNA 2017!

Þeim mistókst að vinna úrslitaleikinn í fyrra en þær taka þetta í ár! Þær byrjuðu leikinn frábærlega. Fengu svo blauta tusku í andlitið undir lok fyrri hálfleiks þar sem Stjarnan settir 2 mörk á stuttu tímabili. En þær unnu sig inní þetta aftur og taka þetta svo í framlengingunni.

Til hamingju ÍBV!

Ég þakka fyrir mig í bili en minni á að það koma inn viðtöl og skýrsla seinna í kvöld.
120. mín
Cloé fer með boltann út að hornfána og reynir að skýla honum frá Lorinu. Fær hann svo aftur eftir innkast og fer aftur út að hornfána. ÍBV fær annað innkast. Aftur sama uppskriftin! Þær ætla að sigla þessu heim.
118. mín
Sísí með fast skot en það er rétt framhjá. Clara fékk boltann inná teignum, var nálægt því að snúa á varnarmann en hún þarf að hörfa, sér þá Sísí fyrir utan teiginn og rennir boltanum út í skot fyrir hana.
116. mín
Inn:Viktoría Valdís Guðrúnardóttir (Stjarnan) Út:Kim Dolstra (Stjarnan)
Stjarnan tekur sénsinn og fer í þriggja manna vörn! Eina vitið!
116. mín
Inn:Díana Helga Guðjónsdóttir (ÍBV) Út:Katie Kraeutner (ÍBV)
112. mín MARK!
Sigríður Lára Garðarsdóttir (ÍBV)
Sísí er svellköld!! Setur boltann vinstra megin og sendir Gemmu í hægra hornið!
111. mín
VÍTI!!!

Bríet dæmir víti! Kim brýtur á Cloé!

Ég var að enda við að segja að það virtist sem Cloé ætti nóg inni! Og það sýndi hún hérna! Hún fékk boltann upp vinstra megin frá Sísí. Hún hafði smá pláss og tók á rás í átt að Kim og Katrínu sem stóðu á vítateigshorninu. Hún kemur á mikilli ferð og Kim setur út fótinn, sem er nóg til að Cloé fellur við! Veit ekki hvort að snertingin var mikil en hún var næg fyrir Bríeti til að dæma víti.
109. mín
Cloé setur í fluggírinn og skilur Önnu Maríu eftir í grasinu úti vinstra megin, veður inná teiginn og reynir svo sendingu inn á Clöru á fjær en sendingin er afleit og fer hátt yfir Clöru og aftur fyrir endamörk. En Cloé virðist eiga fullt af orku eftir sem er ekki góðs viti fyrir Stjörnuna!
106. mín
Leikur hafinn
105. mín
Hálfleikur
Vatnspása!
105. mín
ÍBV fá aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Stjörnunnar. Sísí tekur spyrnuna, hún lætur bara vaða á markið en Gemma grípur hann auðveldlega.
103. mín
Inn:Bryndís Björnsdóttir (Stjarnan) Út:Kristrún Kristjánsdóttir (Stjarnan)
Hægri bakvörður inn fyrir vinstri bakvörð. Lorina flytur sig yfir í vinstri bakvörðinn og Bryndís tekur sér stöðu í hægri bakverðinum.
103. mín
Stórsókn hjá Stjörnunni!!!

Kristrún setur boltann upp vinstri kantinn, meðfram hliðarlínunni, Agla María skýlir boltanum frá Ingibjörgu, snýr svo og kemst inn fyrir hana. Hún tekur strauið upp að endalínu og leggur svo boltann út en Adelaide fórnar sér í þetta og ver hann aðeins útí teiginn. Þar verður eitthvað klafs þangað til boltinn berst út á Láru sem tekur skotið en það er í varnarmann og ÍBV stelpur ná svo loksins að koma þessu frá.
100. mín
Agla María með flottan bolta frá vinstri inná teiginn hægra megin. Boltinn fer hárfínt yfir Ingibjörgu og beint í fætur Hörpu en í stað þess að taka við honum og gera eitthvað við hann ákveður hún að reyna að koma honum fyrir í fyrsta en þar eru alltof margir varnarmenn fyrir. Harpa hefði getað gert miklu betur með smá yfirvegun þarna.
99. mín Gult spjald: Kristrún Kristjánsdóttir (Stjarnan)
Fyrir brot á Katie. Hárrétt.
98. mín Gult spjald: Agla María Albertsdóttir (Stjarnan)
Annað ódýrt spjald á Stjörnuna þar sem Agla María stendur fyrir boltanum þegar Rut er að taka aukaspyrnu!
97. mín
Inn:Júlíana Sveinsdóttir (ÍBV) Út:Kristín Erna Sigurlásdóttir (ÍBV)
Kristín Erna þarf að fara af velli eftir að það þurfti að huga að henni útaf krampanum hérna rétt áðan.
96. mín
Clara aftur að fara framhjá Kristrúnu og reynir svo sendingu útí teiginn. En sendingin er of há og of löng og þar er enginn. En virkilega góð innkoma hjá Clöru sem hefur mætt mjög ákveðin til leiks.
95. mín
Agla María gerir mjög vel hérna á vinstri kantinum, fer framhjá Ingibjörgu og setur hann þéttingsfast meðfram jörðinni, beint fyrir fætur Hörpu sem skýtur í fyrsta en skotið hefði eiginlega ekki getað verið auðveldara fyrir Adelaide þar sem það er tiltölulega beint á hana, þó að það hafi verið fast. Harpa er sennilega mjög svekkt með sjálfa sig núna!!
95. mín
Tók smá tíma fyrir ÍBV að taka þetta horn þar sem það þurfti að huga að Kristínu Ernu sem virðist hafa fengið krampa. En Gemma greip svo hornspyrnuna.
93. mín
Clara á hérna frábæran sprett eftir að hún fær langan bolta fram á við frá Cloé. Hún fer framhjá Kristrúnu í vörninni, kemst upp að endamörkum og reynir svo að renna boltanum út á Cloé á fjærstönginni. En þar er Lorina vel vakandi, tekur enga sénsa og setur boltann í horn.
92. mín
Caroline með langan, háan bolta upp hægri kantinn á Cloé sem tekur Kim á. Hún fer útí teiginn, framhjá Kim og lætur vaða með vinstri. Skotið fast en rétt framhjá nærstönginni. Það má ekkert líta af henni Cloé, hún getur alveg klárað svona færi!
91. mín
Framlengingin komin í gang og nú sækir Stjarnan aftur í átt að Laugardalslauginni.
90. mín
VENJULEGUM LEIKTÍMA LOKIÐ - Nei, það verður ekki tími fyrir annað mark innan venjulegs leiktíma því Bríet er búin að flauta til loka þessa leiks. Við erum á leiðinni í framlengingu!
90. mín
90 mínútur komnar á klukkuna en það er allt í "full swing" hér ennþá ef svo má að orði komast. Gumma við það að sleppa í gegnum vörn ÍBV en ÍBV líka að sækja. Ætli það sé eitt mark eftir í þessu?
89. mín MARK!
Kristín Erna Sigurlásdóttir (ÍBV)
Stoðsending: Cloé Lacasse
Þvílík dramatík!!!

Þetta gerðist hratt! Adelaide tekur aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi ÍBV, Agla María kemur boltanum frá, út á vinstri kantinn þar sem Sóley setur hann langan inná teig, Kim skallar boltann frá en skallinn er ekki nægilega fastur og Caroline fylgir þessu vel eftir, skallar hann út vinstra megin í teiginn inná Cloé í hlaupinu, Gemma reynir að loka á hana með því að koma útúr markinu en þá setur Cloé boltann inná markteiginn á Kristínu Ernu sem klárar auðvitað þetta frábæra færi!
88. mín
SVO NÁLÆGT!

ÍBV svo nálægt því að ná að jafna! Sóley tekur aukaspyrnu af vinstri vængnum, Caroline gerir afskaplega vel í að fleyta honum áfram inn fyrir vörnina þar sem Kristín Erna er hársbreidd frá því að ná að pota í boltann áður en Gemma kemur og handsamar hann!
86. mín
HARPA! ADELAIDE!

Harpa í dauðafæri eftir að hafa reynt að senda boltann útí teiginn, en vildi ekki betur til að hún fékk boltann aftur sjálf, inn fyrir vörn ÍBV og var komin ein gegn Adelaide. Færið var þröngt en Adelaide gerði engu að síður frábærlega í að verja þetta!
82. mín
CLOÉ!!!

Cloé er hérna í dauða, dauða, dauðafæri!! Fær boltann eftir að Gemma kýldi fyrirgjöf Clöru útí teiginn. Hún var þarna alein en tekur boltann aðeins of snemma á leið hans niður og skotið hátt yfir! Maður hefur nú margoft séð Cloé gera miklu betur í svona færi! Þarna var sko heldur betur séns fyrir ÍBV að ná að jafna þennan leik!
79. mín
Inn:Clara Sigurðardóttir (ÍBV) Út:Sesselja Líf Valgeirsdóttir (ÍBV)
Ian Jeffs ætlar sennilega að fjölga í sókninni en Clara er sóknarmaður. Þess má til gamans geta að hún er fædd 2002, sem þýðir að hún er í 10. bekk í grunnskóla. En hún er einmitt í U17 ára landsliði Íslands sem var verið að velja á dögunum.
78. mín
Lorina heldur aðgangshörð gegn Kristínu Ernu en hún þarf nú aðeins að passa sig þar sem hún er á gulu spjaldi!
77. mín
Katie með háan bolta inná teiginn frá hægri vængnum. Sísí rís hæst í teignum en nær ekki að stýra boltanum á markið! Hún var í erfiðri stöðu, hefði þurft að sneiða boltann til að koma honum á markið.
75. mín
Cloé fær boltann ofarlega á vellinum, rekur hann meðfram endalínunni í áttina að markinu, fer framhjá Kim en Anna María stoppar hana fyrir rest og kemur boltanum frá. ÍBV stelpur reyna hvað þær geta til að jafna þennan leik.
73. mín
Inn:Donna Key Henry (Stjarnan) Út:Ana Victoria Cate (Stjarnan)
Áhugaverð skipting! Það á greinilega ekkert að leggjast í vörn þar sem Donna er sóknarmaður að upplagi en Ana Cate spilar aftarlega á miðjunni!
70. mín
Cloé sloppin ein í gegn eftir sendingu frá Sísí en rangstæða dæmd!!!
67. mín
STJARNAN Í DAUÐAFÆRI!

Katrín fær sendingu meðfram jörðinni upp völlinn, inná teiginn, frá Lorinu. Ætlar að taka hann með sér en Caroline virðist sjá við henni en það vill ekki betur til en að boltinn fer aftur í Katrínu og skoppar þaðan í átt að markinu þar sem Harpa kemur með varnarmann í bakinu, setur hann aftur út í hlaupaleið Katrínar með hælnum og Katrín komin í dauðafæri! En skotið hennar er rétt framhjá og Adelaide lokaði líka vel á hana.
63. mín
GEMMA!!

Kristín Erna kemst ein inn fyrir vörn Stjörnunnar en Gemma er vel á verði og kemur út fyrir teiginn og rennir sér í boltann. Kemur honum í innkast.

Uppúr innkastinu kemur svo fyrirgjöf þvert yfir teiginn frá Katie inná Cloé, en aftur er Gemma vel á verði og nær að loka á Cloé! Þetta hefði hæglega getað endað öðruvísi.
62. mín Gult spjald: Harpa Þorsteinsdóttir (Stjarnan)
Harpa er í baráttu við Rut sem endar með að þær liggja báðar og Bríet dæmir aukaspyrnu á Hörpu. Harpa stendur svo upp og ákveður að dangla fætinum í boltann og sparka honum í burtu. Fær réttilega gult spjald fyrir vikið. Ódýrt spjald!
61. mín
Katie með skalla í átt að marki Stjörnunnar eftir sendingu frá Kristínu Ernu en skallinn er laus og Gemma ekki í neinum vandræðum með þetta.
60. mín
Gumma gerir sig líklega inná teignum gegn Sóleyju en sú síðarnefnda gerir vel og nær að setja boltann í Gummu og útaf svo að Gummu mistekst að fá hornið.
57. mín
Leikurinn er kominn aftur í gang og Katie og Ana standa báðar úti við hliðarlínu og bíða þess að fá að koma inná. Það er gott að meiðsli þeirra eru ekki alvarleg.
54. mín
ÆJÆJÆJ!

Ana Cate og Katie skalla hér saman þegar þær stökkva uppí skallabolta. Þetta var alveg örugglega ekki þægilegt og þær þurfa aðhlynningu.
52. mín
Lára Kristín sendir háan bolta upp á Gummu í fremstu línu, hún leggur hann út aftur á Hörpu sem hamrar honum í varnarmann. Boltinn berst svo út á Lorinu sem kemur með algjörlega misheppnaða fyrirgjöf sem endar í höndum Adelaide.
51. mín Gult spjald: Lorina White (Stjarnan)
Brýtur á Cloé og fær réttilega gult spjald að launum.
50. mín
VARSLA HJÁ ADELAIDE!

Harpa kemst inn fyrir vörnina í átt að markinu eftir að Caroline rennur á hausinn hérna í varnarlínunni! En Adeladie með klassa markvörslu.

Stjarnan fær horn sem ekkert verður úr.
48. mín
Cloé er að gera sig líklega hægra megin við teiginn, keyrir í áttina að teignum en þar kemur Kristrún á móti henni og brýtur á henni alveg á vítateigslínunni! Bríet dæmir aukaspyrnu en ÍBV leikmennirnir vilja fá víti. En ákvörðun Bríetar verður ekki haggað.

Hætta skapast eftir aukaspyrnuna sem Sóley tekur stutt inná Rut. ÍBV fá horn. En Stjarnan nær svo að losa pressuna.
47. mín
Sóley reynir háa sendingu inná teiginn í átt að Rut í hlaupinu en of löng og Gemma kemur út á móti og grípur hann.
46. mín
Allt til reiðu og leikurinn kominn aftur í gang. Ætli við fáum fleiri mörk í þetta? Það kemur í ljós.
45. mín
Hálfleikur
Það er kominn hálfleikur í Laugardalnum.

ÍBV byrjaði leikinn frábærlega og komst yfir strax á 4. mínútu og eftir það spilaðist leikurinn í raun alveg eins og þær vildu. Stjarnan náði ekki að skapa sér mörg hættulega færi fyrr en þær svo skora þessi 2 mörk á þremur mínútum. Mikill skelllur fyrir ÍBV og verður gaman að sjá hvernig þær ætla að svara þessu í seinni hálfleiknum.
43. mín MARK!
Harpa Þorsteinsdóttir (Stjarnan)
Stoðsending: Guðmunda Brynja Óladóttir
ÍBV taka markspyrnu. Ana Cate vinnur hann á miðjunni, kemur honum í fyrstu snertingu á Gummu sem kemur honum svo líka í fyrstu snertingu í átt að vítateignum þar sem Harpa er gegn Caroline. Harpa notar allan sinn styrk í að halda boltanum frá Caroline og kemur sér inn fyrir hana, ein gegn Adelaide og setur hann snyrtilega framhjá henni!

Þetta hefur heldur betur snúist við hérna í Laugardalnum!
41. mín MARK!
Agla María Albertsdóttir (Stjarnan)
Stoðsending: Harpa Þorsteinsdóttir
Harpa fær boltann frá Önu Cate og tekur á rás með hann í átt að endamörkum. Leggur hann út í markteiginn þar sem Agla María kemur á fleygiferð og smellir honum í markið án þess að Adelaide komi nokkrum vörnum við!
38. mín
Gumma með frábært, fast skot sem Adelaide ver vel en nær ekki að halda, þá mætir Harpa til að fylgja eftir, setur hann í átt að endalínu og ætlar svo að renna honum í markið en skotið laust og varnarmaður kemst fyrir. En það kom ekki að sök því Harpa var dæmd rangstæð, og ég gat ekki séð betur en að það væri rétt.
36. mín
Agla María, sem er búin að skipta um kant við Gummu, fær boltann upp hægri kantinn og reynir fyrirgjöf en hún er beint í hendurnar á Adelaide í markinu. En sóknin var efnilegri en það sem Stjarnan hefur boðið uppá hérna síðustu 20 mínútur.
34. mín
Harpa reynir hér skot af löngu færi en hún hittir boltann ekkert sérstaklega vel og þess utan er skotið langt framhjá. Virkaði svolítið örvæntingarfull tilraun.
33. mín
Katie reynir sendingu inn fyrir vörn Stjörnunnar á Cloé en sendingin aðeins of föst og lendir í öruggum höndum Gemmu í markinu.
28. mín
Lára Kristín fær boltann inná miðsvæðinu og hefur góðan tíma með boltann en hún rekur hann hreinlega bara í áttina að Rut sem hirðir hann svo af henni! ÍBV stelpur komast svo í dauðafæri uppúr þessu þar sem Cloé kemst ein inná teiginn en Gemma gerir aftur virkilega vel og kemur vel út á móti og lokar á skotið. Gemma fær svo aukaspyrnu eftir þessi viðskipti.

En Stjarnan þarf að fara að hysja upp um sig inná miðsvæðinu ef ekki á að fara illa!
27. mín
Ana Cate brýtur harkalega á Sísí inná miðsvæðinu eftir að hafa átt slaka sendingu fram völlinn.

Hætta skapast inní teig Stjörnunnar eftir aukaspyrnuna en endar þannig að Gemma handsamar boltann.
25. mín
Gumma við það að sleppa ein í gegn! Harpa fær boltann úti vinstra megin, á frábæran snúning en Adrienne kemur á fullri ferð og sendir hann til baka á Caroline, sem lendir í einhverjum smá vandræðum og Gumma er hársbreidd frá því að ná að færa sér það í nyt en Caroline bjargar sér fyrir horn!!
24. mín
Sesselja með góða sendingu upp í horn hægra megin til Kristínar Ernu sem er í miklu kapphlaupi við Gemmu sem gerir mjög vel og nær til hans fyrst, utarlega í teignum.
19. mín
Lára Kristín lætur aðeins finna fyrir sér hérna með harkalegri tæklingu á Adrienne ca 10 m frá miðlínu á vallarhelmingi Stjörnunnar.

Sóley tekur aukaspyrnuna en sóknarmenn ÍBV spila sig rangstæðar.
18. mín
ÍBV stilla svona upp, með 3 manna hafsenta vörn og vængbakverði:

Adelaide Gay
Jordan-Caroline-Ingibjörg Lúcía- Sesselja- Sóley
Rut-Sísí
Katie- Chloé-Kristín Erna
16. mín
Þetta hafa verið viðburðaríkar fyrstu mínútur en ætli ég komist ekki í það núna að renna yfir uppstillingar liðanna.
Stjarnan stillir upp í sitt venjulega 4-3-3:

Gemma Fay
Lorina White-Anna María-Kim Dolstra- Kristrún
Ana Cate-Lára
Katrín
Guðmunda-Harpa- Agla María
15. mín
Ég get ekki heyrt betur en að Grindvíkingurinn með gítarinn sé mættur í stúkuna! Það er mikið stuð og mikil stemning hjá Eyjamönnum!
14. mín
Stjarnan fær horn og heldur smá pressu inná og við vítateig ÍBV. Þessi þunga sókn endar svo með skoti Öglu Maríu en það er framhjá. Fínir taktar samt í móttökunni hjá Öglu Maríu.
11. mín
VARSLA!!!

Stjarnan fær aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Þar fer í gang einhver leikflétta þar sem Kristrún rétt snertir boltann fyrir Gummu sem setur hann inná teiginn. Þar skallar Harpa boltann í átt að marki, Adelaide kemur út á móti og nær að verja þetta frábærlega þegar Ana Cate kemur á fleygiferð og reynir að koma honum í netið! Virkilega vel varið.
9. mín
ÍBV fær horn eftir fína sókn.

Sísí er gríðarlega grimm inná miðjunni og hreinlega hirðir boltann af Láru Kristínu, sendir svo frábæra sendingu inn á Cloé sem er ein gegn Kim. En Kim gerir ágætlega og kemur boltanum í burtu, en bara á næsta sóknarmann ÍBV, Kristínu Ernu. Kristín fer illa með Kim og lætur vaða en Gemma ver í horn.

Hornspyrnan sem Rut tekur smellur svo í nærstönginni!
8. mín
Þess má til gamans geta að ÍBV lenti einmitt undir í bikarúrslitaleiknum í fyrra á 4. mínútu gegn Breiðablik. Það varð þeim mögulega að falli þá þannig að það verður gaman að sjá hvernig þessi leikur þróast fyrir þær núna.
7. mín
Gumma með hörkuskot að marki ÍBV eftir sendingu frá Önnu Maríu, en skotið yfir.
4. mín MARK!
Cloé Lacasse (ÍBV)
Stoðsending: Katie Kraeutner
Kristrún er undir pressu frá Katie, á mjög slaka sendingu til baka. Gemma illa staðsett, komin langt út. Cloé vinnur boltann, rekur hann í átt að endamörkum en klárar þetta frábærlega eftir að hafa komið sér í nokkuð þrönga stöðu! Hún setur hann yfir Kristrúnu sem var búin að reyna að koma sér til baka!
Frábær byrjun hjá ÍBV!
2. mín
Sísí með frábæra sendingu yfir vörn Stjörnunnar út til vinstri þar sem Kristín Erna tekur við honum, í átt að endamörkum og reynir fyrirgjöf en varnarmaður Stjörnunnar kemur þessu frá. Álitleg sókn.
1. mín
Stjarnan byrjar á langri sókn. ÍBV stelpur ná að losa pressuna með löngum bolta fram en Cloé á ekki séns á að ná honum. Innkast.
1. mín
Leikur hafinn
VEISLAN ER HAFIN! Stjarnan byrjar með boltann og þær sækja í átt að Laugardalslauginni.
Fyrir leik
Liðin er komin inná völlinn og stilla sér upp. Hér er verið að heilsa einhverju einvalaliði með handabandi áður en þetta getur allt saman farið í gang.
Fyrir leik
Liðin hafa lokið upphitun og ganga til búningsherbergja! Það er rétt rúmlega korter í þessa veislu!
Fyrir leik
Byrjunarliðin eru klár!!

Þar er í raun ekkert óvænt þar. Kristrún Kristjánsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir koma inn í byrjunarlið Stjörnunnar frá síðasta leik þeirra í Pepsideildinni. Á bekkinn fara í staðinn Donna Key Henry og Bryndís Björnsdóttir. Bæði Kristrún og Harpa hafa einmitt reynslu af því að byrja bikarúrslitaleik og það hlýtur að hafa vegið þungt í þessari ákvörðun.

ÍBV gerir sömuleiðis 2 breytingar á sínu liði frá síðasta leik sínum. Þar koma inn Cloé Lacasse og Rut Kristjánsdóttir en í staðinn eru það Clara Sigurðardóttir og Júlíana Sveinsdóttir sem taka sér sæti á bekknum. En þess má geta að bæði Cloé og Rut voru í leikbanni í síðasta leik ÍBV en hafa verið að byrja leiki liðsins fram að því. Þær koma því alveg óþreyttar inní þennan leik.

Það helsta sem vekur athygli mína er að Þóra Björg Helgadóttir er á skýrslu sem varamarkmaður Stjörnunnar! Hún hefur ekki verið titluð sem varamarkvörður liðsins hingað til á þessu tímabili. En hún er auðvitað mjög leikreyndur leikmaður og getur eflaust miðlað af reynslu sinni. Ég get ekki betur séð en að hún hafi hampað bikarmeistaratitlinum alls 5 sinnum á sínum ferli sem er mikið afrek!

Fyrir leik
Guðmunda Brynja Óladóttir hlýtur að vera glorhungruð í þennan titil en hún tapaði einmitt úrslitaleikjunum árin 2014 og 2015 með Selfossi. En bæði þessi ár vann einmitt Stjarnan, liðið sem hún leikur með í dag. Hún hlýtur að vera búin að bíða eftir þessum degi lengi!
Fyrir leik
Nú þessi leikur hér í dag fer í sögubækurnar þar sem þetta verður fyrsti úrslitaleikur bikarkeppninnar þar sem kona dæmir. Bríet Bragadóttir mun dæma leikinn og henni til aðstoðar verða Eðvarð Eðvarsson og Gunnar Helgason.
Fyrir leik
Það er sömu sögur að segja um byrjunarlið Stjörnunnar frá árinu 2015 en úr því liði eru einnig margir leikmenn farnir frá félaginu. Í heildina eru 6 af þeim leikmönnum farnir frá félaginu af þeim 11 sem byrjuðu og ein þeirra, Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, er ólétt. Þær sem eru eftir eru þær Ana Victoria Cate, Kristrún Kristjánsdóttir, Harpa Þorsteinsdóttir og Írunn Þorbjörg Aradóttir.
Fyrir leik
Af þeim 11 leikmönnum sem byrjuðu úrslitaleikinn fyrir lið ÍBV í fyrra eru 7 farnar til annarra liða. Þær 4 sem enn spila fyrir ÍBV eru þær Sóley Guðmundsdóttir, fyrirliði, Júlíana Sveinsdóttir, Sigríður Lára Garðarsdóttir og Cloé Lacasse. Það má gera ráð fyrir að þessi reynsla þeirra frá síðasta ári muni telja mikið þegar Ian Jeffs þjálfari velur sitt byrjunarlið hér í dag.
Fyrir leik
Bæði liðin hafa tvisvar sinnum þurft að bíta í það súra epli að tapa úrslitaleiknum.

ÍBV lék fyrst til úrslita árið áður en þær unnu titilinn, eða árið 2003, þar sem þær töpuðu fyrir liði Vals 1-3. Þær spiluðu svo aftur til úrslita í fyrra, gegn Breiðablik, þar sem þær þurftu að játa sig sigraðar 1-3.

Stjarnan lék fyrst til úrslita í bikarkeppninni árið 1993. Þar léku þær gegn ÍA sem hafði sigur 3-1. Stjarnan komst svo ekki aftur í úrslitin fyrr en árið 2010 en þá lutu þær í lægra haldi fyrir Val 0-1.
Fyrir leik
Stjarnan hefur þrisvar sinnum orðið bikarmeistari. Fyrst árið 2012 eftir 1-0 sigur á Val, næst árið 2014 eftir 4-0 sigur gegn Selfossi og síðast árið 2015 eftir 2-1 sigur gegn Selfossi.

Lið ÍBV hefur einu sinni orðið bikarmeistari en það var árið 2004 eftir 2-0 sigur á Val. Það er gaman að segja frá því að þjálfari ÍBV það ár var Heimir Hallgrímsson sem nú þjálfar íslenska karlalandsliðið.
Fyrir leik
Undanúrslitin voru leikin fyrir rétt tæplega einum mánuði síðan, eða 13. ágúst sl. Þar hafði Stjarnan betur gegn Val á heimavelli 1-0 eftir framlengdan leik. Markið skoraði Guðmunda Brynja Óladóttir á 117. mínútú.

ÍBV fór með sigur af hólmi gegn liði Grindavíkur en leikurinn fór fram í Vestmannaeyjum. Lengi vel leit út fyrir að ÍBV myndi fara með 1-0 sigur úr þessum leik en Grindvíkingar gáfust ekki upp og náðu að jafna á 6. mínútu uppbótartíma! Leikurinn fór svo alla leið í vítaspyrnukeppni þar sem ÍBV stúlkur sigruðu loks 4-2.
Fyrir leik
Góðan og blessaðan daginn kæru lesendur Fótbolta.net. Í dag er sannkallaður hátíðisdagur því í dag fer fram einhver skemmtilegasti leikur sumarsins! Já, ég er að tala um úrslitaleikinn í Borgunarbikar kvenna þar sem Stjarnan og ÍBV mætast, á Laugardalsvelli kl. 17:00.

Hér fer fram bein textalýsing frá veislunni sem Stjarnan og ÍBV ætla að bjóða okkur uppá!
Byrjunarlið:
1. Adelaide Anne Gay (m)
2. Sóley Guðmundsdóttir (f)
4. Caroline Van Slambrouck
6. Sesselja Líf Valgeirsdóttir ('79)
7. Rut Kristjánsdóttir
9. Kristín Erna Sigurlásdóttir ('97)
11. Sigríður Lára Garðarsdóttir
15. Adrienne Jordan
19. Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir
20. Cloé Lacasse
22. Katie Kraeutner ('116)

Varamenn:
30. Guðný Geirsdóttir (m)
3. Júlíana Sveinsdóttir ('97)
10. Clara Sigurðardóttir ('79)
14. Díana Helga Guðjónsdóttir ('116)
16. Linda Björk Brynjarsdóttir
23. Shaneka Jodian Gordon

Liðsstjórn:
Ian David Jeffs (Þ)
Sigríður Sæland Óðinsdóttir
Jón Ólafur Daníelsson
Óskar Rúnarsson
Helgi Þór Arason
Georg Rúnar Ögmundsson
Kristján Yngvi Karlsson
Dean Sibons

Gul spjöld:

Rauð spjöld: