Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 01. febrúar 2017 11:07
Magnús Már Einarsson
Lars Lagerback tekinn við norska landsliðinu (Staðfest)
Stýrir Norðmönnum út 2019
Lars Lagerback.
Lars Lagerback.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lars Lagerback, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, hefur verið ráðinn þjálfari norska landsliðsins. Lars skrifaði undir þriggja ára samning en hann mun stýra Norðmönnum út undankeppni HM 2018 sem og í undankeppni EM 2020.

Hinn 68 ára gamli Lars hætti sem landsliðsþjálfari Íslands eftir EM í Frakklandi síðastliðið sumar eftir að hafa unnið ótrúlegt starf.

Lars tók við íslenska landsliðinu í október 2011 með Heimi Hallgrímsson sér til aðstoðar. Frá og með árinu 2014 voru þeir síðan saman þjálfarar Íslands. Undir stjórn Lars komst Ísland í umspil um sæti á HM og undir stjórn hans og Heimis fór liðið í 8-liða úrslit á EM í Frakklandi.

Lars tók að sér að starfa sem ráðgjafi hjá sænska landsliðinu á síðasta ári en hann hefur nú ákveðið að taka við liði Noregs.

Norska landsliðið hefur verið í mikilli lægð en liðið er í 84. sæti á heimslista FIFA og hefur aldrei verið neðar.

Norðmenn eru einungis með þrjú stig í sínum riðli í undankeppni HM eftir fjóra leiki en landsliðsþjálfarinn Per-Mathias Høgmo var rekinn í nóvember síðastliðnum.

Norsku þjálfararnir Stale Solbakken (FC Kaupmannahöfn) og Ole Gunnar Solskjær (Molde) höfðu báðir hafnað tilboði um að taka við norska landsliðinu áður en Lars tók við í dag.



Athugasemdir
banner
banner