sun 01. mars 2015 18:48
Alexander Freyr Tamimi
Fabregas: Getum haldið partý eftir tímabilið
Fabregas bíður með að fagna of mikið.
Fabregas bíður með að fagna of mikið.
Mynd: Getty Images
Cesc Fabregas, miðjumaður Chelsea, var að vonum ánægður með að hafa unnið sinn fyrsta bikar fyrir liðið.

Chelsea varð deildabikarmeistari eftir 2-0 sigur gegn Tottenham í úrslitaleiknum á Wembley í dag, en Fabregas kom til félagsins frá uppeldisfélaginu Barcelona síðasta sumar.

,,Það er alltaf frábært að fá þessa sigurtilfinningu. Þetta er minn fyrsti bikar fyrir Chelsea svo ég er mjög ánægður. Við erum á réttri leið, við erum með ungt lið en líka reynslumikla leikmenn inn á milli," sagði Spánverjinn sáttur.

,,Tottenham átti fimm eða tíu góðar mínútur í fyrri hálfleik en annars fannst mér við algerlega stjórna þessu."

Aðspurður hvort að Chelsea ætlaði sér að fagna með heljarinnar veislu í kvöld sagði Fabregas að menn taki því rólega, enda mikilvægur leikur á næsta leyti gegn West Ham í deildinni.

,,Við munum vera hérna á Wembley í smá stund, en svo tökum við liðsrútuna niður á Stamford Bridge. En svo förum við hver í sinn bíl og förum heim að hvíla okkur fyrir leikinn gegn West Ham á miðvikudag. Við viljum líka vinna deildina, kannski getum við haldið stórt partý eftir tímabilið."
Athugasemdir
banner
banner
banner