Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mið 01. mars 2017 11:05
Elvar Geir Magnússon
Barcelona farið að horfa framhjá La Masia
La Masia hefur minna vægi en áður.
La Masia hefur minna vægi en áður.
Mynd: Getty Images
Hin gamla og sögufræga La Masia bygging.
Hin gamla og sögufræga La Masia bygging.
Mynd: Getty Images
Snillingurinn Xavi.
Snillingurinn Xavi.
Mynd: Getty Images
Fyrrum barna- og unglingaþjálfari hjá Barcelona gagnrýnir félagið fyrir stefnubreytingu. Hann segir að yfirmenn félagsins séu farnir að horfa of mikið á núið í stað þess að huga að framtíðinni eins og Barcelona er þekkt fyrir.

Börsungar hafa frægustu akademíu heims, La Masia, enda hafa leikmenn á borð við Messi, Xavi og Iniesta komið þaðan.

Eftir að Pep Guardiola hætti hefur yngri flokka starfið jafnt og þétt fengið minna vægi hjá félaginu. Það hefur verið hefð fyrir því að yngstu krakkarnir hafa lært Barcelona leikstílinn sem síðan hefur verið þróaður alveg upp í B-lið Barcelona og svo þaðan í aðalliðið.

En nú eru breyttir tímar og nýjar áherslur sjást greinilega undir stjórn Luis Enrique. Sergi Samper, ungur leikmaður, var sendur á lán til Granada en félagið keypti Andre Gomes frá Valencia í hans stöðu. Paco Alcacer var keyptur en Munir El Haddadi sendur á lán.

Líkamlegur styrkur frekar en hæfileikar
„Barca leiðin er ekki lengur notuð, það er horft framhjá La Masia og hugmyndafræðin hefur breyst. Fótboltinn í heild hefur í rauninni breyst," segir þessi fyrrum þjálfari hjá Barcelona við Goal.com. Málið er það viðkvæmt að hann vildi ekki koma fram undir nafni.

„Það var alltaf keppikefli félagsins að hafa leikmenn sem eru tæknilega góðir en ekki líkamlega sterkir. En þetta hefur breyst og Luis Enrique hugsar ekki minna um líkamsstyrk en tæknilega getu í sinni uppstillingu. Það er leitað að sterkum leikmönnum frekar en hæfileikaríkum."

„Við kenndum leikmönnum að keppa, sýna háttvísi og að lokum að vinna. Johan Cruyff spurði alltaf út í það hvernig við hefðum spilað, aldrei út í úrslitin. Í dag snýst B-liðið um að ná sigrum frekar en að þróa leikmenn og það er miður. Liðið er að spila á leikmönnum sem er ekki verið að þróa."

Af 21 leikmanni hjá B-liði Barcelona eru aðeins 12 sem eru löglegir með U21-landsliði og tveir eru eldri en 25 ára

Barcelona byrjað að gleyma
Þjálfarinn er þó sammála hugmyndafræði Luis Enrique að vissu leyti. Hann segir rétt hjá Enrique að spila beinskeyttari leikstíl við vissar aðstæður.

„Þegar andstæðingarnir pressa hátt og við eigum möguleika á að skora eftir tvær sendingar, af hverju ættum við ekki að nýta þann möguleika? Við sáum þetta oft með Koeman, Laudrup og Stoichkov. Þegar lið spila djúpt þá þarf Barcelona sem við öll þekkjum og elskum að koma í ljós," segir þjálfarinn.

Eftir brotthvarf Xavi hefur miðja liðsins breyst og liðið stólar gríðarlega á Messi, Luis Suarez og Neymar. Messi ber liðið á herðunum þegar það spilar illa. Fáum við aftur að sjá leikmenn eins og Messi eða Xavi upp úr La Masia. Það er ólíklegt.

„Barcelona virðist vera að gleyma því sem gerði liðið sérstakt, og það sem gerði liðið svona gott."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner