Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 01. apríl 2015 12:10
Þórður Már Sigfússon
12 stig að lokinni fyrri umferð nægir í langflestum tilvikum
Þjóðir hafa í 48 skipti af 52 lokið keppni í efstu tveimur sætunum
Byrjunarlið Íslands gegn Tékkum í nóvember.
Byrjunarlið Íslands gegn Tékkum í nóvember.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsþjálfararnir sáttir með þessa tölfræði.
Landsliðsþjálfararnir sáttir með þessa tölfræði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Að lokinni fyrri umferðinni í undankeppni EM er Ísland í ákjósanlegri stöðu í A riðli en eins og flestir vita eru strákarnir okkar í öðru sæti riðilsins með 12 stig, stigi minna en topplið Tékka. Hollendingar sitja í þriðja sætinu með sjö stig og Tyrkir eru í fjórða sætinu með fimm stig.

Riðill Íslands samanstendur af sex þjóðum en ef sex liða riðlar í undankeppnum UEFA eru skoðaðir tímabilið 1996 – 2004 kemur í ljós að nái þjóðir 12 stigum eða fleirum í fyrri umferðinni eru umtalsverðar líkur á því að það dugi til þátttökuréttar á lokamóti; annað hvort með því að enda í efsta sæti riðilsins eða í öðru sæti sem tryggir sæti í umspil.

Ef núverandi fyrirkomulag er tekið inn í myndina vænkast hagurinn enn frekar því tvær efstu þjóðirnar og sú með besta árangurinn í þriðja sæti vinna sér þátttökurétt á EM. Þær þjóðir sem eftir standa í þriðja sæti keppa svo í umspili um sæti á EM.

Ekkert nema afhroð í síðari umferð kemur í veg fyrir efstu tvö sætin

Alls hafa Evrópuþjóðir í 52 skipti náð að sanka að sér 12 stigum eða fleirum í sex liða riðlum í fyrri umferðinni. Þegar upp var staðið enduðu þær í 48 skipti í fyrsta eða öðru sæti riðilsins en í þrjú skipti luku þær keppni í þriðja sæti og í eitt skipti í fjórða sæti.

Það þýðir samkvæmt núverandi fyrirkomulagi að í einungis eitt skipti hefði þjóð endað neðar en í að minnsta kosti þriðja sæti, þ.e. umspilssæti. Við gefnar forsendur þýðir það að líkurnar á að Ísland lendi nú í umspilssæti eða ofar eru 98%.

Segja má að þær þjóðir sem drógust aftur úr í síðari umferðinni hafi beðið afhroð í stigasöfnunni en sem dæmi má nefna Svartfjallaland sem var í efsta sæti sins riðils fyrir HM2014 með 13 stig eftir fyrri umferðina en með því að ná einungis tveimur stigum í síðari umferðinni lauk Svartfjallaland keppni í þriðja sæti.

Oftast er um að ræða eina þjóð sem nær 12 stigum eða fleirum í sex liða riðlum í fyrri umferðinni en sú staða sem upp er kominn í núverandi riðli Íslands, þ.e. tvær þjóðir með 12 stig eða fleiri að lokinni fyrri umferðinni hefur komið upp átta sinnum áður á þessu 18 ára tímabili.

Auk þess var á tímabilinu stigasöfnum í 14 riðlum þannig háttað að engri þjóð tókst að ná í 12 stig í fyrri umferðinni en einu sinni voru þrjár þjóðir með 12 stig að henni lokinni.

Stigameðaltal: hvað gæti dugað?

Ef við styðjumst við stigameðaltal kemur í ljós að efstu liðin í sex liða riðlum ljúka keppni með 24,2 stig að meðaltali á þessu tímabili. Liðin í öðru sæti enda með 20,1 stig og liðin í þriðja sæti enda með 16,3 stig.

Með þá tölfræði til hliðsjónar má geta sér til um að það myndi duga Íslandi að sigra þá heimaleiki sem eftir eru gegn Tékkum, Lettum og Kasakstan til að enda í öðru sæti riðlsins með 21 stig.

Samkvæmt sömu tölfræði myndu tveir sigrar í viðbót tryggja þriðja sætið með 18 stig og gætu þá heimasigrar gegn Lettum og Kasakstan dugað.

Smá fróðleikur:
- Í þrjú skipti hafa þjóðir endað með fullt hús stiga eða 30.
- Einu sinni hafa 20 stig dugað fyrir efsta sætið.
- Sjö sinnum hafa 21 stig dugað til enda í efsta sæti.
- Tvisvar sinnum hafa 16 stig dugað í annað sætið.
- Einu sinni hafa 25 stig þurft til að enda í öðru sæti.
- Einu sinni hafa 11 stig nægt til að tryggja þriðja sætið.
Athugasemdir
banner
banner