Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 01. júlí 2016 17:30
Elvar Geir Magnússon
Annecy
Tíu álitsgjafar meta möguleikana gegn Frökkum
Icelandair
Nær Ísland að slá heimamenn út?
Nær Ísland að slá heimamenn út?
Mynd: Getty Images
Stefán Árni Pálsson.
Stefán Árni Pálsson.
Mynd: Úr einkasafni
Doddi litli.
Doddi litli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þá er komið að þriðju og síðustu spurningunni sem álitsgjafarnir tíu svöruðu fyrir okkur. Hvernig meturðu möguleikana gegn Frökkum? - Það verður stór stund á Stade de France á sunnudag þegar Ísland og gestgjafar Frakklands mætast í 8-liða úrslitum.

Stefán Árni Pálsson, fréttamaður á Vísi:
Þetta verður sjúklega erfiður leikur en við eigum klárlega möguleika. Ég myndi vilja sjá okkur halda markinu hreinu allan fyrri hálfleikinn og þá gæti pressan farið með þessa ungu stráka í franska liðinu. Pogba fær rautt spjald í þessum fótboltaleik og við náum að sigla þessu leik í framlengingu. Þar þurfum við smá heppni en við eigum alveg fínan möguleika. Menn verða að stilla spennustigið rétt, því þarna verða 80.000 Frakkar bilaðir í stúkunni. En í raun hef ég engar áhyggjur af strákunum, í mínum huga eru þeir orðnir sigurvegarar mótsins og allur heimurinn heldur með okkur. Maður hefur fundið það hér í Frakklandi.

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari hjá Stjörnunni:
Mómentið er okkar og bókin hans Þorgríms verður lengri en 8-liða úrslit. Við verðum betri með hverjum leik og lið stútfullt af sjálfstrausti er til alls líklegt. Þetta er bara einn leikur og við munum mæta betur undirbúnir en Frakkar til leiks. Ég ætla að leyfa mér að dreyma og trúa áfram. Við keyrum á þessi undanúrslit fyrst þau eru í boði, er það ekki?

Magnús Halldórsson, blaðamaður á Kjarnanum:
Möguleikarnir gegn Frökkum eru sannarlega fyrir hendi. Ísland hefur ekki tapað leik, og hefur sýnt mikinn andlegan styrk. Það hefur skorað í öllum leikjunum. Ísland getur unnið Frakka! Ég held að tíminn vinni með Íslandi í leiknum, og ef því tekst að vera vel inn í leiknum fram í síðar hálfleik - þá með því að halda jöfnu eða vera yfir - þá mun pressan verða mikil á heimamenn, og þá getur Ísland refsað. Íslenska liðið þarf ekki mörg færi, eins og hefur sýnt sig. Leikmenn refsa, og það hræðir eflaus andstæðingana. Spái 0-1 fyrir Íslandi. Kolbeinn skorar sigurmarkið.

Logi Bergmann Eiðsson, fjölmiðlamaður:
Sko. við erum með menn í byrjunarliðinu frá Bodö, Hammerby, Malmö, Óðinsvéum, Charlton og Krasnodar. Þeir eru að vinna með: Arsenal. Manchester United, Juventus, Bayern Munchen, Atletico Madrid og PSG. Það ætti ekki að vera flókið að svara þessu!

En þetta lið hefur komið mér svo rosalega á óvart. Og eftir að hafa séð þá live í Nice, þá hef ég fulla trú á því að þeir standi í Frökkum. Heimavöllur, smeimavöllur. Það mun ekki ráða úrslitum. Ég held að þetta verði erfitt en mögulegt.

Ingólfur Sigurðsson, fótboltamaður í Fram:
Ég met þá fína. Vonandi verða sem flestir Íslendingar í stúkunni – það skiptir auðvitað máli. Það hefur verið hlægilegt að fylgjast með starfsháttum UEFA í miðamálinu. Það sem ég hræðist meira við franska liðið en það enska er að þarna eru menn eins og Griezmann og Payet sem geta galdrað fram hluti þrátt fyrir að vera með varnarmúr fyrir framan sig.

Þórður Helgi Þórðarson, Doddi litli á Rás 2:
Ég gerði mér vonir um 1 stig í riðlinum og vonaði að við töpuðum ekki stórt. Þeir eru löngu búnir að sparka duglega í punginn á mér fyrir vantrú og aumingjaskap. Ég er of upptekinn við að borða gamla úldna ullarsokka til þess að geta tjáð mig um möguleika gegn France.

Björn Berg Gunnarsson, sparkspekingur og starfsmaður Íslandsbanka:
Möguleikar okkar gegn Frökkum eru þeir sömu og gegn Englendingum og Hollendingum ytra. Pressan á þeim verður gríðarlega mikil úr öllum áttum og þeir vita að ef þeir gera sig seka um einhver mistök í leiknum eru Íslendingar stórhættulegir og fljótir að refsa. Við skorum alltaf, erum með besta miðvarðapar mótsins og Hannes. Ég held við tökum Frakkana.

Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmaður í handbolta:
Þetta er algerlega hætt að snúast um hvort við eigum einhverja mögulega eða ekki. Strax og við förum meta einhverja möguleika, hugsa rökrétt eða förum að reikna eitthvað þá erum á rangri braut. Sportið snýst um svo miklu meira heldur en að hafa hæfileika eða ákveðna íbúatölu. Á þeim stað sem þeir eru núna snýst þetta um momentum-ið, íslensku geðveikina, orkuna, þjóðarstoltið, hjartað, gleðina og fókusinn. Ef þeir ná að halda á öllum þessum verkfærum á móti Frökkum á sunnudaginn heldur ævintýrið áfram.

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA:
Frakkaleikurinn verður klárlega erfiðari en Englandsleikurinn en öll pressan verður á Frökkunum á sínum eigin heimavelli, auðvitað eigum við möguleika gegn þessu risaliði en eins og fyrri leikjum í keppninni verður allt að hjálpast að - afhverju á það að breytast á sunnudaginn?

Sindri Sverrisson, blaðamaður á Morgunblaðinu:
Þetta er erfiðasti leikurinn til þessa, það er klárt mál. Ég hafði mun betri tilfinningu fyrir leiknum við Englendinga. Það er alls ekki svo að við eigum ekki möguleika, annars hefði ég ekki styrkt eitthvað flugfélag um 200 þúsund í dag, en líkurnar eru vissulega með Frökkum. Ég segi að Ísland myndi vinna eina af hverjum þremur viðureignum þjóðanna.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner