banner
   fös 01. júlí 2016 11:19
Magnús Már Einarsson
Bacary Sagna: Ísland kenndi Englandi lexíu
Icelandair
Bacary Sagna.
Bacary Sagna.
Mynd: Getty Images
Bacary Sagna, hægri bakvörður Frakka, segist ekki vanmeta Ísland fyrir leikinn í 8-liða úrslitum EM á sunnudag.

„Við vanmetum Ísland klárlega ekki en við erum á meðal bestu liða í Evrópu, við erum á heimavelli og við erum á meðal sigurstranglegustu liðanna," sagði Sagna.

„Við þurfum að standast væntingar. Þegar þú sérð hvað margir stuðningsmenn fagna í fan zone þegar við skorum þá færðu hlýju í hjartað. Við getum ekki valdið þeim vonbrigðum."

„Ég er ekki að hugsa um tap. Ég ætla ekki að fara snemma í sumarfrí. Ég vil fara alla leið."

Sagna hefur leikið í áraraðir í enska boltanum og hann segist hafa verið hissa á að sjá England tapa gegn Íslandi.

„Ég hélt að England myndi vinna því þeir hafa ungt lið með mikið af hæfileikum. Á hinn bóginn var ég ánægður fyrir hönd Íslands því að þeir spiluðu mjög vel. Þeir kenndu Englandi lexíu og verðskulda að vera hér," sagði Sagna.

Noel Le Graet, forseti franska knattspyrnusambandsins, hefur sagt að markmið liðsins sé að komast í undanúrslit en Sagna vill fara ennþá lengra.

„Það væru vonbrigði að mínu mati að detta út í undanúrslitum. Við vitum allir til hvers við erum hér."

Frakkar hafa átt í vandræðum í byrjun leikja á EM og Sagna vill ekki sjá neitt hik gegn Íslandi.

„Við megum ekki vakna í hálfleik því að það gæti verið of seint. Við verðum að vera einbeittir frá byrjun. Ég er viss um að við verðum það. Ég hef ekki áhyggjur," sagði Sagna.
Athugasemdir
banner
banner