fös 01. júlí 2016 11:29
Elvar Geir Magnússon
Ryan Giggs yfirgefur Man Utd (Staðfest)
Ryan Giggs og Louis van Gaal.
Ryan Giggs og Louis van Gaal.
Mynd: Getty Images
Ryan Giggs hefur yfirgefið Manchester United eftir 29 ár hjá félaginu. Giggs er 42 ára og átti eitt ár eftir af samningi sínum sem aðstoðarstjóri en eftir ráðningu Jose Mourinho var ljóst að Rui Faria færi í það starf á Old Trafford.

Mourinho og Faria hafa lengi unnið saman.

Giggs og United ræddu um að hann færi í annað starf hjá félaginu en ekki náðist samkomulag um það.

Giggs vonaðist eftir því að fá knattspyrnustjórastarfið hjá United. Hann var ekki ánægður með hvaða hætti brotthvarf Louis van Gaal frá félaginu var höndlað og varð fyrir vonbrigðum með að ekki hafi verið rætt við hann um möguleikann á að taka við.

Giggs gekk í raðir United á 14 ára afmælisdegi sínum, skrifaði undir atvinnumannasamning 17 ára gamall og lék sinn fyrsta aðalliðsleik 2. mars 1991.

Hjá félaginu vann hann 13 enska meistaratitla, tvo Evrópumeistaratitla, fjóra FA-bikara og fjóra deildabikara. Hann er sigursælasti breski leikmaður allra tíma.

Hann var tekinn inn í þjálfarateymið meðan hann var enn að spila 2013 og stýrði United í fjórum síðustu leikjum tímabilsins eftir að David Moyes var rekinn. Hann var svo gerður að aðstoðarmanni Louis van Gaal 2014.

Giggs átti stóran þátt í því að hinn 18 ára Marcus Rashford fékk tækifærið á síðasta tímabili og hefur verið talsmaður þess að United haldi í þær hefðir að treysta á unga leikmenn og spila sóknarsinnaðan fótbolta.

Hann var þó hluti af þjálfarateymi sem varð fyrir mikilli gagnrýni fyrir leiðinlegan leikstíl sem á endanum kostaði Van Gaal starfið.

Giggs hefur ekki farið leynt með það að hann vill starfa sem knattspyrnustjóri í framtíðinni og spennandi að sjá hvert næsta verkefni hans verður.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner