Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 01. október 2014 09:00
Magnús Már Einarsson
Hjörtur Hjartar: Leyfi þessu bara að ráðast
Hjörtur Hjartarson.
Hjörtur Hjartarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Framherjinn gamalreyndi Hjörtur Hjartarson hefur ekki tekið ákvörðun um það hvort hann muni halda áfram að spila næsta sumar. Hjörtur hjálpaði ÍA upp í Pepsi-deildina á nýjan leik í sumar en hann var kvaddur með stæl á lokahófi félagsins um helgina.

,,Það er 100% að ég verð ekki með þeim í úrvalsdeildinni. Það var í raun ekkert rætt. Mér var ætlað að koma inn í þetta og hjálpa liðinu upp. Því verki er lokið og núna tekur annað við hjá skaganum," sagði Hjörtur við Fótbolta.net í gær.

Hjörtur hefur leikið sér að því að fara upp úr 1. deildinni undanfarin ár en hann hjálpaði uppeldisfélagi sínu upp úr 1. deildinni í ár líkt og hann gerði árið 2011. Í fyrra hjálpaði hann Víkingi upp í efstu deild og árið 2009 hjálpaði hann Selfyssingum upp. Hjörtur verður fertugur í næsta mánuði en hann hefur ekkert ákveðið með framhaldið.

,,Mig langar alltaf til að spila áfram en maður er vandlátur að því leytinu til að það þarf að vera spennandi til að maður haldi áfram," sagði Hjörtur.

,,Ég útiloka samt ekkert. Maður veit aldrei hvað gerist ef einhver hringir í mann og býður manni að vera hluti af einhverju skemmtilegu. Það hefur gengið ágætlega undanfarin ár en einhverntímann tekur þetta enda."

,,Ég er ekki búinn að loka neinum dyrum en ég er heldur ekki að eltast við neitt. Ég leyfi þessu bara að ráðast og spái ekki of mikið í þetta núna. Ég reyni að halda mér við svo ég blási ekki út og síðan verður að koma í ljós hvort einhver lið telja sig hafa not fyrir mig. Ef það gerist ekki þá fer ég ekkert að gráta yfir því."

Athugasemdir
banner
banner
banner