Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 02. janúar 2018 14:50
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Aron Einar valinn maður ársins af útvarpsþættinum Fótbolti.net
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði Íslands.
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingaklappið klikkar ekki.
Víkingaklappið klikkar ekki.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net valdi Aron Einar Gunnarsson mann ársins 2017. Þetta var opinberað í Áramótakæfunni sem var á X977 á laugardaginn.

Aron er fyrirliði íslenska landsliðsins sem tryggði sér sæti í lokakeppni HM í fyrsta sinn. Rætt var við Aron í þættinum en hann er staddur í Cardiff þar sem hann er að jafna sig eftir aðgerð á ökkla.

„Ég er enn á hækjum og má ekkert stíga í löppina ennþá en þetta er allt að koma sem betur fer. Ég reyni að koma mér í gang eins fljótt og hægt er. Það þurfti að fara aðeins dýpra inn í ökklann en reiknað var með svo það tekur aðeins lengri tíma að jafna sig," sagði Aron. „Planið er að snúa aftur í febrúar."

Félagslið Arons, Cardiff City, hefur gefið eftir í fjarveru Íslendingsins og hefur nú tapað fjórum leikjum í röð. Liðið er í þriðja sæti í Championship-deildinni.

„Spilamennskan hefur aðeins dottið niður og sjálfstraustið með því. Það hafa verið margir meiddir hjá okkur og við erum kannski ekki með breiðasta hópinn í deildinni. Þegar mikilvægir menn detta út er erfitt fyrir hina að rífa sig í gang. Við erum með það reynslumikinn þjálfara, hann hefur verið 100-200 sinnum í þessari stöðu áður, og hann ætti að vera maðurinn til að koma liðinu í gang aftur."

Aron varð annar í kjörinu á íþróttamanni ársins sem opinberað var í síðustu viku.

„Það er mikill heiður. Það má segja að ég hafi verið í öðru sæti fyrir hönd liðsins. Gylfi hefur gert betri hluti en ég persónulega svo þetta var viðurkenning fyrir liðið frekar en allt annað. Ég er mjög sáttur. Ólafía vann og á sigurinn skilinn. Ég varð í fjórða sæti 2016 svo það er spurning hvort ég taki þetta ekki bara næst?" sagði Aron í þættinum.

Íslenska landsliðið lék marga eftirminnilega leiki á árinu 2017 en Aron segir að 3-0 útisigurinn gegn Tyrklandi standi upp úr í sínum huga.

„Það var gífurlegur áhugi á tyrkneska liðinu þarna úti og þeir voru á mikilli siglingu. Þeir höfðu ekki tapað leik á heimavelli heillengi. Að ná að vinna 3-0 og slökkva alveg á þeim var alveg ólýsanlegt."

Smelltu hér til að hlusta á Áramótakæfuna. Viðtalið við Aron kemur eftir rúmlega 45 mínútnar
Athugasemdir
banner
banner
banner