þri 02. janúar 2018 10:30
Magnús Már Einarsson
Everton bíður eftir fréttum af Cenk Tosun
Mynd: Getty Images
Everton vonast til að fá að vita í dag hvort að framherjinn Cenk Tosun komi til félagsins frá Besiktas eða ekki.

Everton er að reyna að kaupa Tosun á 25 milljónir punda en talið er að Besiktas vilji fá aðeins hærri upphæð fyrir leikmanninn.

„Við höfum gert allt sem við getum. Ég reikna með að fá að vita meira á næsta sólarhringnum," sagði Sam Allardyce, stjóri Everton, eftir tapið gegn Manchester United í gær.

Hinn 26 ára gamli Tosun mætti Íslandi í undankeppni HM en hann er einn öflugasti leikmaður Tyrkja. Vörn Íslands náði hins vegar að halda honum í skefjum í undankeppninni.

Tosun spilar í treyju númer 23 hjá Besiktas til heiðurs körfuboltamannsins Michael Jordan en í tyrkneska landsliðinu er hann númer níu.

Á yngri árum bannaði Senol, faðir Cenk Tosun, honum á tímabili að nota hægri fótinn til að skjóta á markið. Það gerði hann til að Cenk yrði einnig öflugur með vinstri fæti.

„Fólk segir að ég geti notað bæði vinstri og hægri fótinn mjög vel og ég á ekki uppáhalds fót. Það er klárlega kostur," sagði Cenk sjálfur.

Everton hefur ekki náð að fylla skarð Romelu Lukaku síðan hann fór til Manchester United í sumar en Cenk gæti nú fengið það verkefni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner