Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 02. maí 2016 12:30
Magnús Már Einarsson
„Maður sér hvað hann er stressaður í færinu"
Tryggvi Guðmundsson.
Tryggvi Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Steven Lennon skoraði fyrsta mark FH í gær.
Steven Lennon skoraði fyrsta mark FH í gær.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
„Það voru ekki mikil gæði í þessum leik en það er eðlilegt þegar þetta er fyrsta umferð. Bæði lið voru að missa boltann auðveldlega," segir Tryggvi Guðmundsson, sérfræðingur Fótbolta.net, um leik Þróttar og FH í gær.

Nýliðar Þróttar voru líklegri í fyrri hálfleik áður en FH-ingar komust yfir í leiknum.

„Mér fannst þeir byrja nokkuð sprækir. Þeir voru að stríða Íslandsmeisturunum. Emil Atla hefði hugsanlega getað fengið víti fyrir peysutog hjá Begga (Bergsveini Ólafssyni). Maður veit aldrei hvað hefði gerst ef Þróttur hefði skorað þar."

„Það er gæðamunur á þessum liðum. FH spilaði engan fantaleik en sigraði samt örugglega 3-0. Þeir voru betri fyrir framan rammann. Þeir eru með gæða leikmenn sem búa til færi og skora úr þeim,"
sagði Tryggvi.

„Átt bara að lauma honum í fjær"
Tryggvi nefnir vendipunkt í leiknum þegar Þróttarar gátu jafnað um miðjan síðari hálfleik.

„Í stöðunni 1-0 gat Villi (Vilhjálmur Pálmason) jafnað 1-1 fyrir Þrótt. Maður sér hvað hann er stressaður þegar hann er kominn í færið og hann gerir þetta illa. Maður sá að fjærhornið var mjög opið og þú átt bara að lauma honum í fjær í þessari stöðu. Það þarf ekki einu sinni að vera fast. Hann tók kraftinn og neglir í Gunnar. Þarna hefðu Atli Viðar, Steven Lennon, Atli Guðna, Emil Páls og allir þessir strákar skorað. Þar liggur svolítið munurinn. Ef Þróttarar vinna ekki strax í því að nýta færin sín, þá gæti þetta orðið mjög erfitt tímabil."

Tryggvi segir að FH-ingar þurfi að bæta varnarleik sinn miðað við leikinn í gær.

„Þróttur skapar færi. Íslandsmeistarar að spila á móti liði sem er að koma upp úr 1. deild, þá reiknar maður með þéttari vörn og að liðið fái ekki svona mörg færi á sig. Þeir þurfa aðeins að fínstilla sig."

Skilur Guðmann vel
Guðmann Þórisson er farinn frá FH til KA á láni og því minnkar breiddin í varnarlínunni til muna.

„Þeir eru með Brynjar (Ásgeir Guðmundsson) á bekknum og hafa notað Davíð Þór Viðars líka í vörninni. Maður skilur Guðmann líka. Maður er í þessu til að spila. Guðmann telur sig vera alltof góðan til að vera á bekk og gefa five. Ég skil þetta vel. Það er vel gert hjá FH-ingunum að leyfa þetta. Auðvitað er gott að hafa sem flesta góða leikmenn á bekknum en ég hafði áhyggjur af því að það gæti verið erfitt að hafa öll þessi nöfn á bekknum," sagði Tryggvi.
Athugasemdir
banner