mán 02. maí 2016 09:15
Magnús Már Einarsson
Óli Stefán: Markmiðið að geta unnið öll lið í deildinnni
Óli Stefán Flóventsson.
Óli Stefán Flóventsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net: Eyjólfur Garðarsson
Þjálfarar og fyrirliðar í Inkasso-deildinni spá Grindvíkingum 6. sætinu í sumar. Það kemur Óla Stefáni Flóventssyni, þjálfara liðsins, ekki á óvart.

„Nei alls ekki og satt best að segja var ég að vonast eftir þessu. Svona spá er skemmtileg og það myndast alltaf umræður og pælingar um deildina þegar þetta er sett fram og það er af hinu góða. Þessi spá er gerð af þjálfurum og fyrirliðum andstæðinga okkar og er því fín leið að sjá álit annara á okkur,“ sagði Óli Stefán við Fótbolta.net.

„Markmið okkar er að vera með lið sem getur unnið öll lið í deildinni og um leið skemmt okkar frábæra fólki hér í Grindavík. Við erum síðan með markmið sem við vinnum með sjálfir, bæði liðs og einstaklings markmið.“

Grindvíkingar enduðu í botnsætinu á sínum riðli í Lengjubikarnum en Óli Stefán er þrátt fyrir það ánægður með undirbúningstímabilið.

„Undirbúningurinn sem slíkur hefur gengið mjög vel. Við höfum æft eftir plani og aldrei litið af leið. Við höfum reyndar lent í ýmsu á leiðinni en það hefur einungis styrkt okkur. Úrslit úr leikjum vetrarins hafa ekki verið góð. Síðan í febrúar höfum við spilað 9 leiki og sjö þeirra við lið úr Pepsi. Við höfum tapað 6 þeirra en unnið einn. Tvo leiki höfum við spilað við lið úr okkar deild sem báðir enduðu jafntefli. Nú erum við með hópinn tilbúinn líkamlega og andlega og það er mjög góð tilfinning.“

Grindvíkingar hafa sótt liðsstyrk í vetur og meðal annars fengið tvo sterka leikmenn aftur á heimaslóðir.

„Ég er mjög ánægður með það að fyrstu tveir sem ég setti á blað eru komnir en það eru heimamennirnir Gunnar Þorsteinsson og Alexander Veigar Þórarinnsson. Við fengum svo Will Daniels sem er frábær leikmaður og karakter og svo einn ungan úr Keflavík, Aron Frey Róbertsson. Við lentum svo í því að Maja markmaður okkar sleit hásinina þannig að við fengum frábæran markmann, Anton Ara Einarsson lánaðan frá Val. Þessir strákar hafa smollið vel inn í hópinn og styrkt kjarnann hjá okkur.Hins vegar höfum við verið að bíða eftir leikheimild frá Jo Oliveira sem er mjög öflugur Brassi sem hefur spilað u-17, u-19 og u-21 landsleiki fyrir þjóð sína.“

Grindvíkingar ætla að styrkja sig ennþá frekar áður en liðið mætir Haukum í 1. umferðinni á föstudag. „Það er á leiðinni til okkar varnarmaður sem við bindum miklar vonir við og senter. Þá ætti hópurinn að vera full mótaður,“ sagði Óli.

Óli Stefán reiknar með því að keppni verði mjög jöfn í Inkasso-deildinni í sumar. „Ég sé fyrir mér skemmtilega deild með meiri umgjörð en hefur nokkru sinni verið á 1.deildinni. Bara með því að fá Inkasso nafnið á hana setur deildina á annað level. Annars held ég að ég geti fullyrt að hún komi til með að verða mjög jöfn því ég sé ekkert lið yfirburða slakt eða yfirburða gott lið. Lið eins og Selfoss eða eitthvað af austanliðunum, Fram og Haukar gætu allt eins farið upp og lið sem þið spáið væntanlega toppsætunum KA, Keflavík, Leiknir R, HK eða Þór gætu alveg lent í vandræðum,“ sagði Óli að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner