Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 02. maí 2016 21:44
Ívan Guðjón Baldursson
Pochettino: Þurfum að gera betur á næsta tímabili
Mynd: Getty Images
Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham, hefur fengið mikið hrós fyrir gengi félagsins á tímabilinu en liðið missti endanlega af Englandsmeistaratitlinum í jafnteflisleik gegn Chelsea í kvöld.

Pochettino var rólegur eftir jafnteflið og hrósaði sínum mönnum fyrir baráttuanda og hugrekki.

„Í fyrsta lagi vil ég óska Leicester City, Claudio Ranieri, leikmönnum félagsins og öllum stuðningsmönnum þess til hamingju með þennan Englandsmeistaratitil," sagði Pochettino að leikslokum.

„Ég er vonsvikinn því mér fannst við eiga skilið að halda okkur í titilbaráttunni. Við komumst 2-0 yfir en þegar þeir minnkuðu muninn var ljóst að leikurinn gat endað hvernig sem er. Ég er mjög svekktur en á sama tíma mjög stoltur af leikmönnum mínum sem gáfu sig alla í þetta og hafa verið stórkostlegir á tímabilinu."

Það var hart barist í leiknum þar sem tólf gul spjöld fóru á loft og fengu leikmenn Tottenham níu þeirra.

„Þetta var erkifjendaslagur, við vorum að berjast um titilinn og Chelsea lagði einnig allt í sölurnar þannig að úr varð hörkuslagur. Það gerir okkur stolta að sjá hversu mikla virðingu Chelsea hefur fyrir okkur og við virðum þá á móti.

„Allir leikmenn vallarins börðust eins og ljón og nú er ekkert sem við getum gert nema horft áfram og reynt að byggja á þeim magnaða árangri sem við náðum á tímabilinu.

„Við erum með yngsta liðið í deildinni og erum með ótrúlega efnilega leikmenn innanborðs. Á næsta tímabili þurfum við að gera enn betur til að vera í titilbaráttunni."

Athugasemdir
banner
banner