Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 02. maí 2016 16:15
Magnús Már Einarsson
Reynir Leós: Mikill munur á fjármagni milli liða í deildinni
Reynir Leósson eftir sigur HK í Fótbolta.net mótinu.
Reynir Leósson eftir sigur HK í Fótbolta.net mótinu.
Mynd: Fótbolti.net - Jóhann Ingi Hafþórsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Okkur hefur gengið ágætlega í vetur og kannski er það að hafa áhrif á spánna. En frá því þessi spá var gerð hafa verið töluverðar breytingar á öðrum leikmannahópum og ansi margir verið að styrkja sig mjög mikið rétt fyrir mót," segir Reynir Leósson, þjálfari HK, en liðinu er spáð 5. sæti í Inkasso-deildinni í sumar í spá þjálfara og fyrirliða.

„Markmiðið er fyrst og fremst að búa til lið og liðsheild sem að getur veitt öllum liðum keppni. Liðið er mjög ungt þannig að stöðuleiki er verðugt markmið og krefjandi og að sama skapi að ná stöðuleika í félagið og leikmannahópinn til næstu ára. Við höfum ekki hugsað um sæti í deildinni í okkar markmiðasetningu heldur ætlum að fókusa á hvert verkefni fyrir sig og vinna að því að verða betri."

Miklar breytingar hafa orðið á hópnum hjá HK í vetur. Þær breytingar áttu sér flestar stað fyrir áramót og Reynir er ánægður með hvernig gengið hefur að pússla nýju liði saman.

„Þetta hefur gengið vel. Þetta var krefjandi verkefni þvi þegar við tókum við liðunu voru tveir leikmenn á samningi og hver leikmaðurinn á fætur öðrum kom fram og sagðist vera að fara frá félaginu. Þetta var ekki óskastaða og við vorum ekki með það á hreinu hversu margir leikmenn myndu hefja æfingar hjá okkur. En við höfum náð að setja saman skemtilegan, ungan og ferskan leikmannahóp sem er tilbúinn til þess að bæta sig. Þetta hefur líka gefið yngri leikmönnum félagsins tækifæri og erum við t.d. yfirleitt með átta leikmenn úr öðrum flokki á æfingum hjá okkur."

HK er eina liðið í Inkasso-deildinni sem teflir ekki fram erlendum leikmanni í sumar en Reynir segist ekki hafa leitað fyrir sér erlendis.

„Nei við gerðum það ekki og ástæðan fyrir því er einna helst sú að félagið hefur ekki verið í stakk búið að taka á sig miklar fjárhagslegar skuldbindingar. Við höfum þurft að vera útsjónarsamir varðandi leikmenn sem að við höfum sótt og þeir þurft að vera innan þess ramma sem félagið telur sig ráða við. Það er greinilegt að það er mikill munur milli liða í þessari deild hvaða fjármagni menn hafa úr að spila."

Reynir býst við að keppni verði hörð í Inkasso-deildinni á komandi tímabili.

„Hún verður jöfn og erfið og það eru kominn mörg lið með góða leikmannahópa eins og við höfum séð í styrkingum á leikmannahópum á síðustu misserum. Það eru ansi margir með það yfirlýsta markmið að fara upp og eru að kosta miklu til, við getum talað um Grindavík, Fram, KA, Leikni, Keflavík og Þór þetta eru allt klúbbar með yfirlýst markmið um að fara upp. Þetta gerir deildina skemmtilegri þannig að ég á vona á skemmtilegu sumri," sagði Reynir.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner