banner
   mán 02. maí 2016 15:14
Arnar Daði Arnarsson
Sara Björk: Hefði ekkert farið í hvaða lið sem er
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsfyrirliðinn í knattspyrnu, Sara Björk Gunnarsdóttir skrifaði í dag undir tveggja ára samning við þýska stórliðið Wolfsburg.

Sara hefur verið hjá sænsku meisturunum í Rosengård síðustu fimm ár en samningur hennar við félagið lýkur í sumar.

„Mér fannst kominn tími á að breyta til," sagði Sara Björk í samtali við Fótbolta.net.

Stærri hópur og meiri samkeppni
„Um leið og félög höfðu leyfi til að tala við mig þá var Wolfsburg eitt af þeim félögum sem höfðu samband. Það voru fleiri lið sem höfðu samband. Ég hefði hinsvegar ekkert farið í hvaða lið sem er. Rosengård er eitt af betri liðum í Evrópu og ég hefði aldrei farið frá Rosengård nema eitthvað betri hefði boðist.," sagði Sara sem segir þetta vera skref upp á við á ferlinum að fara til Wolfsburg.

„Ég var kominn á þann stað að ég vildi prófa eitthvað nýtt. Komast í nýtt umhverfi og prófa nýja deild."

„Þýska deildin er mjög sterk og mjög jöfn eins og sú sænska. Wolfsburg er hinsvegar eitt af bestu liðum í Evrópu. Hópurinn í Wolfsburg er stærri og þar er meiri samkeppni. Það verður krefjandi að komast í liðið og halda sér í liðinu. Þetta verður krefjandi verkefni fyrir mig persónulega."

Þurfti að taka skref fram á við
En kom það aldrei til greina að framlengja samninginn við Rosengård og vera áfram í Svíþjóð?

„Ég auðvitað hugsaði út í það. Ég hef haft það rosalega gott í Rosengård og hef það ennþá mjög gott. Mér fannst hinsvegar ég þurfa taka skref fram á við. Ég er í ákveðnum þægindaramma og þarf helst að komast útúr honum svo ég geti bætt mig enn frekar sem leikmann," sagði Sara sem gekk til liðs við Rosengård eftir sumarið 2011 en þá hafði hún leikið með Breiðablik í tvö og hálft sumur.

„Þegar ég var í Breiðablik þá fannst mér vera kominn tími til að fara í atvinnumennsku og þá fór ég til Rosengård. Það var mjög krefjandi verkefni á þeim tíma. Ég hef bætt mig mikið síðan þá. Allir sem eru í kringum félagið er einstakt fólk og það hefur verið ákveðin forréttindi að fá að spila með þeim leikmönnum sem ég hef spilað með hér," sagði Sara sem gengur í raðir Wolfsburg í lok júní.

Þangað til spilar hún áfram með Rosengård í sænsku úrvalsdeildinni.

Vil enda á góðum nótum
„Mér finnst fínt að það sé búið að gefa þetta út. Nú get ég einbeitt mér að þeim leikjum sem eftir eru hjá Rosengård. Ég vil auðvitað enda þetta á góðum nótum. Maður vill alltaf spila vel og það verður því ekkert erfitt að mótivera sig fyrir þá leiki sem eftir eru."

Sara segir að auðvitað hafi verið erfitt að taka þessa ákvörðun og það verði erfitt að yfirgefa Rosengård eftir fimm ára veru hjá félaginu.

„Þetta hefur verið frábær tími. Þjálfararnir sem ég hef haft og leikmennirnir sem ég hef spilað með hafa allir bætt mig og aðrir. Nú er ég hinsvegar spennt að bæta mig enn frekar á nýjum stað. Ég er mjög náinn félaginu og fólkinu í félaginu en stundum þarf maður taka erfiðar ákvarðanir," sagði Hafnfirðingurinn, Sara Björk Gunnarsdóttir að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner