Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 02. maí 2016 14:01
Arnar Daði Arnarsson
Sara Björk í Wolfsburg (Staðfest)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sara Björk Gunnarsdóttir hefur gengið til þýska stórliðsins Wolfsburg. Hún hefur skrifað undir tveggja ára samning sem gildir til ársins 2018.

Sara Björk mun ganga í raðir Wolfsburg þegar samningur hennar hjá Rosengård rennur út í júní.

Áður hafði verið greint frá því að Sara hefði ákveðið að framlengja ekki samning sinn við sænsku meistarana í Rosengård. Hún hefur leikið með Rosengård síðan árið 2011 en hún hefur orðið sænskur meistari með liðinu þrjú ár í röð.

Sara Björk sem verður 26 ára síðar á árinu er uppalin hjá Haukum í Hafnarfirði. Hún lék sinn fyrsta meistaraflokks leik með Haukum 13 ára, sumarið 2004. Um mitt sumar 2008 skipti hún síðan yfir í Breiðablik og lék með þeim í tvö og hálft sumar í Pepsi-deildinni. Þaðan fór hún síðan út til Svíþjóðar.

Í Rosengård, sem áður hét FC Malmö hefur Sara verið í algjöru lykilhlutverki. Leikið yfir 50 leiki með liðinu og skorað 22 mörk.

Wolfsburg er eitt allra besta lið Evrópu um þessar mundir en liðið sigraði Frankfurt 4-1 í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á dögunum. Wolfsburg mætir því Lyon í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í þessum mánuði.

Í þýsku úrvalsdeildinni er Wolfsburg í öðru sæti, á eftir FC Bayern.


Athugasemdir
banner
banner